Skattamál

72. fundur
Mánudaginn 20. desember 1993, kl. 23:56:08 (3237)


[23:56]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki ástæða til að gera lítið úr bókhaldi því bókhald eru staðreyndir og menn eiga að beygja sig fyrir staðreyndum. Hæstv. utanrrh. hefur sagt í þessari umræðu að aðilar vinnumarkaðarins hafi stillt ríkisstjórninni upp við vegg. ( Utanrrh.: Rétt.) Hann sagði það. Hann sagði: ,,Við bárum ekki ábyrgð á þessu. Við buðum þetta ekki. Við vorum þvingaðir``, sagði hann. Ég leyfi mér að efast um að þetta sé rétt. ( ÓRG: Það var forsrh. sem bauð það.) Ég er að vitna til þess sem utanrrh. sagði hér. Ég er ekki vitni að því hvernig þetta gerðist. Auðvitað ber ríkisstjórnin ábyrgð á þessu. Ég hef ekki ásakað verkalýðshreyfinguna í þessari umræðu í þessu máli. Ég hef ásakað ríkisstjórnina. Og það er ríkisstjórnin sem ber pólitíska ábyrgð. Ef ríkisstjórnin getur ekki komið fram leið sem tekur tillit til hags almennings og þjóðarhags þá á hún að segja af sér. Ríkisstjórn á ekki að fara út í að lögfesta leið sem hún er sannfærð um að sé röng. Utanrrh. sem ætlar sér að gera það, eins og mér skilst á hæstv. utanrrh., á að sjálfsögðu að segja af sér frekar en gera þessi mistök.