Skattamál

72. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 00:29:03 (3241)


[00:29]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Hv. þm. nefndi það að ég bæri sjálfsagt meginábyrgð á því í hvaða farveg kjarasamningarnir fóru að atbeina ríkisins. Það má vera satt en stjórnarflokkarnir báru auðvitað á því ábyrgð báðir. En ég vil líka nefna það vegna þeirra orða sem hafa fallið í umræðum að þegar þessi ákvörðun var tekin og þegar þetta var fram boðið af hálfu ríkisvaldsins, þá heyrðist hvergi frá neinum stjórnmálaflokki aðvörunarorð um að þarna væri ríkisvaldið eða verkalýðshreyfingin á villigötum. Og það var ekkert laumuspil sem þar fór fram. Þetta var í hinni opinberu umræðu þar sem rætt var um tilboð varðandi virðisaukaskattinn. Og auðvitað hefðu öllum ábyrgum stjórnmálaflokkum sem svo hart hafa talað nú og séð þennan mikla vanda fyrir sér þá, grundvallarbreytingu, stórháskalega breytingu, borið við þær aðstæður að vara ríkisstjórnina, verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur við að stíga slíkt skref. Engin slík aðvörun átti sér stað þá og ég þykist muna það sérstaklega að að samningsgerðinni lokinni hafði formaður Framsfl. fagnað því sérstaklega að virðisaukaskatturinn hafði verið lækkaður með þessum hætti í samræmi við stefnu Framsfl.
    Ég spyr: Hverjir skyldu nú vera ábyrgari hér, ríkisstjórnin eða Framsfl. sérstaklega? Ég vek sérstaka athygli á þessu vegna þess að hv. þm. sagði réttilega að ég bæri á þessu mikla ábyrgð en ég vildi undirstrika að ábyrgðin er víðtækari.