Fjárlög 1994

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 02:23:21 (3275)


[02:23]
     Finnur Ingólfsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og hv. 9. þm. Reykv. þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hafa dregið þessa tillögu til baka að nokkru leyti með þeirri yfirlýsingu sem hann gaf hér við þessa atkvæðagreiðslu. Vinnubrögðin þarf hins vegar að fordæma af þeirri ástæðu að þarna er gengið til verks milli 2. og 3. umr. án þess að ráðgast neitt við stjórnendur Heilsuverndarstöðvarinnar, án þess að tala við neitt af starfsfólki þeirrar stofnunar. Í morgun sat starfsfólk þessarar stofnunar á fundi og var að skipuleggja ungbarnaeftirlit og mæðraskoðun fyrir árið 1994 í trausti þess að þarna væru tryggðar fjárveitingar. Svo sést þetta hér nú á þessu kvöldi.
    Ég tek undir að það mun að mörgu leyti vera hægt að flytja mæðraverndina og ungbarnaeftirlitið frá Heilsuverndarstöðinni og yfir á heilsugæslustöðvarnar, en til þess að það sé hægt er forsenda fyrir því að fjármunir fylgi með sem ekki átti að vera í þessu tilfelli. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu vil ég greiða atkvæði gegn þessari tillögu.