Fjárlög 1994

73. fundur
Þriðjudaginn 21. desember 1993, kl. 02:42:27 (3283)


[02:42]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta er satt best að segja einhver allra furðulegasta tillaga sem ég hef lengi séð á prenti. Hér er nýbúið að afgreiða skerðingar á lögbundnum tekjustofnum Ferðamálaráðs sem sinnir því verkefni að skipuleggja og annast í samstarfi við aðra eftir atvikum markaðsátak í þágu íslenskrar ferðaþjónustu erlendis og að sjálfsögðu hefði aukning á fjárframlögum til slíkra verkefna, sem eru góðra gjalda verð og þörf, átt að færast þar. Hér á hins vegar að beita þeirri afar sérkennilegu aðferð að skerða flatt allar stofnanir samgrn. til að fjármagna þetta verkefni hversu óskyld sem verkefni þeirra og rekstur kunna að vera uppbyggingu á sviði ferðaþjónustu. Ég held að þarna hljóti að vera hægt að fara einhverjar skynsamlegri leiðir og treysti mér ekki til þess að samþykkja a.m.k fyrri hluta þessa furðulega ákvæðis.