Norræna ráðherranefndin 1993--1994

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 14:34:18 (4448)


[14:34]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það eru örfá atriði úr seinni ræðu hæstv. samstarfsráðherra sem ég vil nefna hér og vil hafa aðeins rýmri tíma en andsvarsformið veitir til þess að koma að þeim.
    Fyrst um fjárlögin og fjárlagarammann. Það er auðvitað íhugunarefni --- virðulegur forseti, ég vil aðeins ná eyrum hæstv. samstarfsráðherra áður en ég held áfram máli mínu.
    Það er auðvitað íhugunarefni hvort íslensk stjórnvöld eiga að fallast á það eða vera í þeim hópi sem vill halda sér fast við núllfjárlögin svokölluðu. Að halda norrænu fjárlögunum óbreyttum. Mér er ekki kunnugt um að það hafi verið upplýst hér á þessum vettvangi hvort íslensk stjórnvöld hafa undanfarin ár lagst á þá sveif að norrænu fjárlögin hækki ekkert á milli ára. Það væri fróðlegt og æskilegt að hæstv. samstarfsráðherra lýsti skoðun sinni á því. Eigum við Íslendingar að standa að því eða réttara sagt að fylgja þeirri stefnu með öðrum Norðurlandaþjóðum, ef það er stefna þeirra, að breyta ekki fjárlagarammanum til rýmkunar, þ.e. hinum norræna fjárlagaramma? Ég tel eindregið að við eigum að ýta á það að þarna verði rýmkað til og ég er alveg sannfærður um að það á stuðning meðal almennings á Norðurlöndum. Auðvitað búa ríkisstjórnirnar við veruleikann, sem er ekki alltaf blíður í sambandi við eigin fjárlög, á því hefur maður vissan skilning. En hér er auðvitað spurningin um pólitískar áherslur og val á milli þess í hvað peningum er ráðstafað.
    Við megum ekki hafa neina minnimáttarkennd í þessum efnum vegna þess að við höfum talið okkur njóta tiltölulega góðra skipta í þessum efnum. Það á ekkert að breyta því að við leggjum áherslu á það að fá fjárlagarammann rýmkaðan.
    Hæstv. ráðherra nefndi þetta með stöðuna, fór aðeins út í horfurnar varðandi 1995 og 1996. Ég þakka honum fyrir þær vísbendingar sem hann gaf um hvað biði okkar í þeim efnum, þ.e. biði hinna norrænu fjárlaga ef haldið verður fast við núllstefnuna. Og þá kom hann að því sem er auðvitað mjög þýðingarmikið að hafa í huga við þá umræðu að við munum á komandi ári ekki geta fleytt rjóma af tekjuafgangi eins og þeim sem bjargaði fjárlögum yfirstandandi árs, hinum norrænu fjárlögum yfirstandandi árs. Það var tekjuafgangurinn frá árinu 1992, má ég segja, sem þá var yfirfærður, rúmlega 32 millj. danskra kr., fyrir utan þær 7 millj. sem voru færðar á milli með samkomulagi. Ég vil halda því fram að það hefði verið þungt undir fæti fyrir ráðherranefndina að fá samstöðu á Norðurlandaráðsþingi ef hún hefði ekki getað veifað þessum tekjuafgangi vegna yfirstandandi árs. Úr honum verður víst tæpast að spila, a.m.k. ekki neinni upphæð í líkingu við þetta, fyrir næsta ár þannig að þrengingarnar verða að sama skapi meiri þegar taka þarf ákvarðanir um þetta.
    Hæstv. ráðherra sagði að það yrði hlustað grannt á þingmenn innan Norðurlandaráðs þegar fjárlögin verða ákveðin. Ég þakka honum fyrir þau orð og ég vona að þessi hlustun, það að hlusta, leiði þá til þess að menn séu reiðubúnir til þess að taka jákvætt undir skoðanir þingsins. En auðvitað er þingið að nokkru leyti í því hafti pólitískt séð að yfirgnæfandi meiri hluti Norðurlandaráðsþings lét sig hafa það að skrifa upp á þessar hugmyndir um tilfærsluna innan norrænu fjárlaganna yfir í 50% til mennta- og menningarmála. Ég var hins vegar í þeim hópi sem gagnrýndi þær hugmyndir og þá ráðstöfum og sá hópur sem ég starfa með innan Norðurlandaráðs, vinstri sósíalistar. Við höfum haldið okkur við það að gagnrýna þetta og munum gera það áfram af því að við erum pólitískt ósammála þessu. En það hefur gerst, það er ánægjulegt, að þeim hefur fjölgað mjög verulega og fjölgaði verulega á síðasta ári sem fóru að taka undir með

okkur, þegar menn fóru að horfa framan í veruleikann, og lögðust vissulega á ólar í sambandi við ákvörðun fjárlaga fyrir þetta ár, að reyna að fá þar fram breytingar, þó þær yrðu nú ekki meiri en þær sem um er að ræða. Í þeirri pólitísku niðurstöðu tókum við þátt, ég og sá hópur sem ég vinn með í Norðurlandaráði, og tókum pólitíska ábyrgð á þeirri niðurstöðu. Ég vil ekki fullyrða að svo verði á þessu ári vegna næsta árs.
    Í þessu sambandi skulum við aðeins hafa í huga togstreituna út af 64. gr. Helsingfors-sáttmálans þar sem tekist var á við norrænu ráðherranefndina um það hvort Norðurlandaráð sem þingmannavettvangur fengi í raun fjárlagavaldið innan þess ramma sem ríkisstjórnirnar mundu ákvarða. Það var tekist á um þetta og þar lögðust á sveif með þingmannasjónarmiðunum, ég vil segja, þingmenn úr öllum flokkahópum, íhaldssömum jafnt sem róttækum á vettvangi Norðurlandaráðs, en höfðu þó ekki betur en svo að það þarf einhverjar alveg sérstakar ástæður --- það var það sem bókað var --- til þess að ráðherrahópurinn fylgdi ekki niðurstöðum þingmannanna. ,,Särskilda skäl`` minnir mig að það heiti á sænskunni, og það er einmitt þetta gráa svæði sem menn eru að vinna út á í þessum efnum og ég hugsa að það geti orðið svolítið stífara þegar kemur að ákvörðunum fyrir næsta ár og þar næsta.
    Ég hef líka grun um það en veit ekki hvort ráðherra, þegar hann nefndi tilfærslu á 15 millj. dönskum kr. á árinum 1995 og öðrum 15 til viðbótar árið 1996 til að uppfylla stefnumörkunina um 50% aukningu til mennta- og menningarmála, var þá með í huga það sem hefur verið gert bókhaldslega, að ég má segja, varðandi yfirstandandi ár og sem hækkar veruleikann í tilfærslu að því er þetta varðar, þ.e. að taka rannsóknir á sviði umhverfismála undir þennan þátt. Hæstv. samstarfsráðherra hristir höfuðið svo að ég skil það svo að hann hafi þegar dregið til baka þá bókhaldsbrellu sem ástunduð var varðandi yfirstandandi ár og gangi út frá grunni án hennar. Það kemur þá í ljós hver veruleikinn verður í þeim efnum.
    Síðan, virðulegur forseti, vil ég aðeins koma að innganginum í seinni ræðu hæstv. ráðherra þar sem hann var að víkja að því, sem margir munu segja að væri sjálfsagt mál, að menn þyrftu að taka afstöðu til mála út frá breyttum aðstæðum. Auðvitað erum við alltaf að því, hæstv. ráðherra. Við erum að reyna að taka málin út frá breyttum aðstæðum og það er engan veginn svo að Norðurlandaráð eigi eða geti verið fryst eða óbreytanlegt ástand, síður en svo. Spurningin er hins vegar: Hvernig viljum við að það þróist? Hvernig viljum við að það mótist? Viljum við aukningu þess? Viljum við styrkingu hins norræna samstarfs, jafnvel á kostnað annars samstarfs í aðrar áttir eða viljum við fórna því vegna þess sem sumir meta sem ávinninga á öðrum og víðari velli eins og hefur verið að gerast í sambandi við EES-samninginn, eins og mun gerast ef fleiri Norðurlönd skella sér yfir í Evrópusambandið innan skamms með samþykki þjóða sinna?
    Ef það gerðist, þá eru menn að taka pólitískar ákvarðanir og stíga skref sem eru til að veikja, að mínu mati, verulega möguleika til norræns samstarfs, bæði formlegs og eins hins óformlega sem hefur sína miklu þýðingu. Þar hef ég e.t.v. aðrar skoðanir en hæstv. samstarfsráðherra. Ég geri ráð fyrir því þó að hann hafi ekki farið út í það í ræðu sinni og í öllu falli aðrar skoðanir en þeir þingmenn á Alþingi sem geta hugsað sér það sem framtíð fyrir Ísland að gerast aðili að Evrópusambandinu, sem svo er kallað, eða Evrópubandalaginu. Þeir eru því miður nokkrir hér á Alþingi Íslendinga. Einn situr hér fyrir framan mig og viðurkennir það fullum hálsi, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Það er orðið mikið baráttumál hv. þm. að við förum alla leið, en hv. þm. Björn Bjarnason er ekki kominn alveg eins langt upp á yfirborðið í þessum efnum. Hann rær í kafi, ef svo má segja, en útilokar ekkert og aðrir halda niðri í sér andanum sem kunna að vera komnir með hugrenningar í þessa veru.
    Ekki meira um það, hæstv. forseti. Við tölum um það ef á fer að reyna í þessum efnum. En ég vildi aðeins nefna það atriði sem hæstv. samstarfsráðherra nefndi sem breytingu til bóta á vettvangi Norðurlandaráðs, þ.e. umræður um utanríkis- og öryggismál. Ég er honum alveg sammála um það. Það var tími til kominn að taka haftið af mönnum í þessum efnum. Pólitískir samstarfsaðilar hæstv. samstarfsráðherra Sighvatar Björgvinssonar og aðrir sem hafa verið stuðningsmenn þagnarinnar að þessu leyti, og það hafa verið NATO-sinnarnir innan Norðurlandaráðs sem hafa verið í þeim hópi, vildu ekki til skamms tíma ræða um utanríkis- og öryggismál á vettvangi Norðurlandaráðs. Það voru aðeins nokkrir sem leyfðu sér að brjóta það þagnarbindindi, brjóta þann þagnarmúr. Ég var einn í þeim hópi sem tók þátt í því í kringum 1980 að halda ekki svo ræðu í almennum umræðum á vettvangi Norðurlandaráðs að ég ræddi ekki þau mál þrátt fyrir hið formlega bann sem dregið var gegn því að tala um svo sjálfsagða hluti eins og samstarf Norðurlanda á víðari vettvangi. Og það voru sem betur fer nokkrir nokkrir NATO-sinnar sem slógust í í hóp villutrúarmanna á þeim tíma. Það voru menn eins og fyrrv. forsætisráðherra Danmerkur, Anker Jørgensen, sem lét sig aldrei muna um það að brjóta þetta bann og rífa sig út úr þessu fráleita hafti og taka af fullum hálsi þátt í umræðu um þau efni sem nú þykir sjálfsagt mál og við fögnum báðir, ég og hæstv. samstarfsráðherra Íslands á norrænum vettvangi.
    Hæstv. ráðherra kom að vegabréfaskyldunni sem ég nefndi að væri hugsanlega í yfirvofandi hættu, ekki til þess að ræða málið efnislega heldur til þess að segja okkur að þetta hefði komist á áður en Norðurlandaráð var komið í verulega formlegt rammasamstarf. Ég er ekkert að vefengja það að þetta er ávinningur frá því snemma á dögum hins norræna samstarfs eins og við tölum um það núna. En spurningin er efnisleg: Tekst okkur að halda þessum ávinningi? Hvernig ætlum við að tryggja hann? Ég er ekki að segja að hann sé svo gífurlega stór í víðu samhengi en hann er táknrænn og hann er þó veruleiki sem allir þeir

þekkja sem ferðast á milli landa, þýðingarmikið táknrænt mál fyrir Norðurlöndin. Og það var ekki einasta efnislegt orð frá hæstv. ráðherra um hvernig hann ætlar að vinna að því að halda þeim ávinningi í norrænu samstarfi að við þurfum ekki að fara að draga upp vegabréfið okkar þegar við komum til Danmerkur og gott meðan við þurfum ekki að sækja þar um vegabréfsáritun áður en við förum inn í hið heilaga rómversk-þýska ríki sem ríkisstjórnir Norðurlandanna eru nú að reyna að smeygja sér inn í, þ.e. Evrópusambandið, inn í hið gamla, heilaga ríki eða rómverska ríki þýskrar þjóðar eins og það mun hafa heitið.
    Við skulum vona að það verði nokkur dráttur á því, en ég bið hæstv. samstarfsráðherra Íslands um liðsinni í því að halda þessum ávinningi að því er varðar norræna samvinnu og er reyndar ekki í vafa um að hæstv. ráðherra er stuðningsmaður þess eins og margra góðra þátta í þessu samstarfi og sem mjög þokkalegt samkomulag hefur verið um á Alþingi Íslendinga um langt skeið.