Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

131. fundur
Miðvikudaginn 13. apríl 1994, kl. 22:55:09 (6300)


[22:55]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki komið að því að hæstv. heilbrrh. skýri málin því auðvitað er það hann sem ber ábyrgð á því sem hér er verið að leggja til og er komið til 2. umr. Það er hans mál fyrst og fremst. En ég vil nefna það sem hefur komið fram áður að vísu að ýmsir af þeim sem umhvn. og heilbrn. ræddu við um þetta mál, þar á meðal forstöðumaður matvæladeildar Hollustuverndar, töldu að hér væri ekki stefnt í rétta átt, hér væri ekki skynsamlega á máli haldið og sama mátti heyra hjá ráðuneytisstjóra heilbr.- og trmrn., mjög eindregið. Páll Sigurðsson, sá reyndi ráðuneytisstjóri, ( Umhvrh.: Og góði krati.) sagði það mjög umbúðalaust --- og góði krati, segir hæstv. umhvrh. --- ekki hef ég nú farið í það að draga hann í dilka pólitískt. ( Umhvrh.: Hann var bæjarfulltrúi Alþfl. í Reykv.) Hann var. Þá er það upplýst hér með frammíkalli hvenær hann tengdist þar en ekki ætti það að gera ráð hans veigaminni í huga viðkomandi hæstv. ráðherra. En hann varaði við þessu skrefi eða taldi það ekki horfa til betri vegar. Sama mátti vissulega heyra á landlækni og héraðslækninum að norðan, Ólafi Oddssyni, sem kom á fund nefndarinnar. Þetta eru menn sem horfa á málið hver frá sínum sjónarhóli en eru nátengdir þessum málaflokki. Og faglega tengdari þessu heldur en stjórn Hollustuverndar ríkisins.