Lífeyrissjóður sjómanna

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 17:16:18 (7998)


[17:16]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég undrast það nokkuð að hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Norðurl. v., skuli ekki taka undir þá málefnalegu tillögu af hálfu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að gera hlé á þessari umræðu. Ég tók ekki hugmynd hans svo að það væri verið að leggja til að málið yrði tekið út heldur að það yrði gert hlé á umræðunni og menn áttuðu sig á málinu, hvort ekki væri flötur á því að finna samkomulag í því og það tel ég langeðlilegast. Þessi umræða hófst um klukkan hálffjögur í dag og þá hafði ég gert ráð fyrir því að 7. dagskrármálið, held ég að það sé, kæmi til umræðu þannig að ég gæti lokið minni ræðu í því máli. Ég held að ef menn eru að hugsa um að nýta tíma þingsins þá gerðu menn ekkert betur heldur en að bera sig saman um þetta efni og þá sérstaklega hv. þingmenn Sjálfstfl. til að sjá hversu mikils þeir meta málið og reyna að þoka því áfram með eðlilegum hætti en ekki með þeim dylgjum sem hér hafa komið fram án þess að nokkur rök séu færð fyrir þeim.