Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 5 . mál.


5. Tillaga til þingsályktunar



um aukna þjónustu Ríkisútvarpsins á Suðurlandi.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um að Ríkisútvarpið ráði fréttamann í fast starf til að annast fréttaöflun og úrvinnslu á fréttatengdu útvarpsefni frá Suðurlandi. Jafnframt verði komið á fót hljóðstofum á Selfossi og í Vestmannaeyjum og húsnæði tekið á leigu eða keypt til starfseminnar. Þar verði starfrækt reglubundið svæðisútvarp á vegum Ríkisútvarpsins.

Greinargerð.


    Hér er endurflutt tillaga samhljóða þeirri sem flutningsmaður lagði fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu.
    Í greinargerð með þeirri tillögu kom m.a. fram að Sunnlendingar eru þeirrar skoðunar að þeir séu afskiptir í umfjöllun Ríkisútvarpsins um málefni líðandi stundar.
    Með stofnun svæðisútvarps á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum og við það að ráða fréttamenn í fastar stöður utan höfuðborgarsvæðisins var gert stórátak í því að auka fréttaflutning frá landsbyggðinni. Starfsemi þessara svæðisútvarpsstöðva hefur fyrir löngu sannað ágæti sitt. Fréttir, fréttatengdir þættir og annað útvarpsefni hefur verið flutt frá þessum stöðum. Enginn vafi er á því að svæðisútvarp hefur sinnt hlutverki sínu afar vel.
    Á Suðurlandi, að Vestmannaeyjum meðtöldum, eru samtals um sex þúsund heimili sem eiga rétt á sömu eða svipaðri þjónustu af hálfu Ríkisútvarpsins og Norðlendingar, Vestfirðingar og Austfirðingar njóta nú.
    Á Suðurlandi er fjölbreytt og kröftugt mannlíf sem borið er uppi af undirstöðuatvinnuvegum íslensks samfélags. Þar ber daglega eitthvað til tíðinda sem vert er að gefinn sé gaumur af hálfu fjölmiðla. Sunnlendingum er þess vegna mikið í mun að rödd þeirra fái að hljóma til jafns við aðra á öldum ljósvakans.
    Vissulega höfum við haft ötula fréttaritara Ríkisútvarps á Suðurlandi sem sinnt hafa starfi sínu af alúð og samviskusemi en þar er aðeins um hlutastarf að ræða því ekki hefur fengist heimild til þess að fastráða fréttamann í fullt starf. Það segir sig því sjálft að þrátt fyrir dugnað fréttaritara hafa þeir aldrei möguleika til að rækja starf sitt sem skyldi.
    Hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins á Suðurlandi eru á flestum svæðum vel við unandi. Þó er sums staðar verulegra úrbóta þörf, t.d. í Ölfusi, Hveragerði og neðanverðum Flóanum.
    Það er eins og áður segir ánægjuleg þróun að þjónusta Ríkisútvarpsins við landsbyggðina skuli hafa verið stóraukin á síðustu árum. Þar má þó ekki vera um mismunun að ræða. Uppbygging á einum stað má ekki verða til þess að þjónusta við annan stað verði í lágmarki. Ríkisútvarpið þarf að koma víðar upp sambærilegri aðstöðu við þá sem nú er fyrir hendi í þeim þremur landshlutum sem áður hafa verið nefndir. Má þar benda á Selfoss eða annan heppilegan stað á Suðurlandi. Einnig er sjálfsagt að hafa í huga sérstöðu Vestmannaeyja.
    Ríkisútvarpið er útvarp allra landsmanna. Þangað greiða menn þjónustugjöld án tillits til búsetu á landinu og þess vegna er eðlileg krafa að greiðendur allir njóti sambærilegrar þjónustu þessarar stofnunar.
    Að lokum skal þess getið að Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa ítrekað skorað á menntamálaráðherra að hann hlutist til um að hafinn verði undirbúningur að rekstri svæðisútvarps á Suðurlandi í tengslum við Ríkisútvarpið.