Ferill 42. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 42 . mál.


45. Tillaga til þingsályktunar



um að kanna kosti þess að gera landið að einu kjördæmi í kosningum til Alþingis.

Flm.: Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Finnur Ingólfsson.



     Alþingi ályktar að kjósa nefnd tveggja fulltrúa frá hverjum þingflokki til þess að skoða kosti þess fyrirkomulags að landið verði eitt kjördæmi í kosningum til Alþingis.
    Sérstaklega verði kannað hvernig þetta fyrirkomulag hefur verið framkvæmt í þeim löndum sem við það búa.
     Þá verði hugað að því á hvern hátt þessi breyting geti tengst hugmyndum um tilfærslu verkefna frá ríkinu til héraða.

Greinargerð.


    Ljóst er að enn á ný er að hefjast umræða um skiptingu landsins í kjördæmi í kosningum til Alþingis. Það er eðlilegt þar sem að hér er um að ræða málefni sem hlýtur að vera til stöðugrar endurskoðunar. Um áratugaskeið hefur verið byggt á því að visst misvægi sé milli landshluta varðandi atkvæðavægi. Fyrir því hafa á hverjum tíma verið færð rök sem sæst hefur verið á. Á það skal hins vegar bent að við síðustu breytingu á kosningaákvæðum stjórnarskráinnar og kosningalögum var jafnað að fullu milli flokka. Flutningsmönnum er hins vegar ljóst að við næstu breytingu á kjördæmaskipun og kosningalögum verður ekki undan því vikist að stíga stærri skref en áður hafa verið stigin í átt til jöfnunar á atkvæðisrétti milli landshluta.
    Það er því afar mikilvægt að þær breytingar sem fram undan eru dragi á jákvæðan hátt úr þeirri spennu sem óneitanlega er til staðar á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Hugmyndir í þá átt að jafna atkvæðavægi á grundvelli núgildandi skiptingar landsins í kjördæmi eða með því að fjölga kjördæmum í Reykjavík og Reykjanesi ganga hins vegar í þveröfuga átt. Hætt er við að með því yrði enn aukið á kjördæmatogstreitu.
    Það er því skoðun flutningsmanna að tímabært sé að Alþingi skoði kosti og galla þess að gera landið allt að einu kjördæmi. Það kunni að vera sú leið sem best sátt geti náðst um og komist næst því að upphefja héraðaríg í starfsemi löggjafarsamkomunnar.
    Sérstaklega er nauðsynlegt tengja þessa umræðu hugmyndum um að flytja aukin verkefni frá ríkinu og til héraðanna. Við þá breytingu mun umfjöllun um mörg af þeim verkefnum Alþingis sem hafa mesta skírskotun til sérhagsmuna einstakra landshluta væntanlega flytjast heim til héraðsstjórna. Eftir þá breytingu minnkar því þörfin á því héraðsbundna formi á kosningum til Alþingis sem nú tíðkast. Í ljósi þess væri einnig eðlilegt að skoða hvort ekki væri æskilegt að fækka þingmönnum frá því sem nú er.
    Flutningsmenn tillögunnar telja að við könnun á málinu þurfi m.a. að setja fram tillögur um lágmarksatkvæðamagn til að fá mann kjörinn og aðferðir við að raða á framboðslista. Þá væri eðlilegt að einnig yrði skoðaður sá möguleiki að kjósa eftir „þýska kerfinu“, þ.e. blandaðri aðferð þar sem bæði er um að ræða kjör af landslista og í kjördæmum.