Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 120 . mál.


125. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr töluliður, 7. tölul., sem orðast svo:
 7.    Yfirlýsingu um að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða með öðrum sambærilegum hætti. Skipstjórnarmenn skulu hafa fullnægt ákvæði þessu fyrir 31. desember 1995 en aðrir skipverjar eigi síðar en 31. desember 1996. Veita má skipverja, sem skráður er í fyrsta sinn, tólf mánaða frest til að fullnægja þessu ákvæði.

2. gr.


    Við 7. gr. bætist ný málsgrein, 4. mgr., sem orðast svo:
     Samgönguráðherra er heimilt með reglugerð að setja það skilyrði fyrir lögskráningu nýliða um borð í skipum að þeir hafi lokið námi fyrir nýliða með fullnægjandi hætti. Samgönguráðherra skal hafa samráð við samtök sjómanna og útgerðarmanna um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp það sem hér liggur fyrir var lagt fyrir 116. löggjafarþing 1992–93 en varð þá eigi útrætt og er nú endurflutt með lítils háttar breytingum.
     Slysavarnaskólinn hefur starfað frá árinu 1985. Frá upphafi til loka febrúarmánaðar 1993 hafa 7.392 sjómenn sótt námskeið við skólann. Þar af hafa 1.320 nemendur komið tvisvar. Til samanburðar má geta þess að árið 1991 voru að meðaltali 6.136 menn sem stunduðu sjómennsku á íslenskum fiskiskipum og 390 á kaupskipum.
     Slysavarnafélagi Íslands var formlega falin starfræksla skólans árið 1988 og með lögum um Slysavarnaskóla sjómanna, nr. 33/1991, var starfsemi hans lögfest. Samkvæmt lögunum fer Slysavarnafélag Íslands með yfirstjórn skólans sem starfar á vegum þess og ábyrgð. Félagið heldur námskeið fyrir starfandi og verðandi sjómenn um öryggis- og björgunarmál á helstu útgerðarstöðum landsins og annast öryggis- og slysavarnafræðslu fyrir nemendur í skipstjórnar- og vélastjórnarnámi.
     Markmið skólans er að auka öryggi sjómanna með fræðslu og þjálfun í meðferð björgunar- og öryggisbúnaðar og almennri fræðslu um slysavarnir á sjó. Með námskeiðum Slysavarnafélagsins urðu tímamót í allri öryggisfræðslu sjómanna. Með þeim var í fyrsta sinn komið á fastri og skipulegri fræðslu fyrir alla sjómenn um öryggis- og björgunarmál.
     Lögbundin öryggisfræðsla stuðlar tvímælalaust að auknu öryggi sjófarenda og verður að teljast nauðsynlegur þáttur í starfi.
     Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða með framangreindum lögum skal samgönguráðherra leggja fram frumvarp til laga um breyting á lögum um lögskráningu sjómanna sem m.a. kveði á um skyldu sjómanna, sem lögskráðir eru, til að hafa hlotið grundvallarfræðslu um öryggismál í Slysavarnaskóla sjómanna þegar lögskráning fer fram.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að öryggisfræðsla verði gerð að skyldu fyrir alla sjómenn og að lögskráningarstjórar hafi eftirlit með því að menn fullnægi henni. Í frumvarpinu er sérstaklega vísað til náms í Slysavarnaskóla sjómanna en heimilt er að meta annað sambærilegt nám, hérlendis eða erlendis, sem jafngilt. Er þar m.a. átt við nám sem fullnægir alþjóðasamþykkt um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna sem Ísland mun fullgilda á næstunni og skuldbindur aðildarríki til að viðurkenna skírteini annarra aðildarríkja. Í samþykktinni eru talin upp þau atriði sem skipverjar þurfa að kunna skil á til að fá skírteini og gildir það jafnt um yfirmenn og undirmenn.
     Eðlilegt er að hafa aðlögunartíma til að fullnægja ákvæðinu enda hafa ekki allir starfandi sjómenn sótt námskeiðin. Telja verður að um 800 sjómenn hafi ekki fengið slíka fræðslu. Árlega getur skólinn tekið um 400 nemendur á almennum námskeiðum og um 200 á smábátanámskeiðum. Að tveimur árum liðnum má því ætla að allir starfandi sjómenn hafi lokið námi í öryggisfræðslu. Hér er lagt til að skipstjórnarmönnum sé veittur skemmri frestur en öðrum skipverjum m.a. þar sem þeir bera sem stjórnendur meiri ábyrgð á öryggismálum um borð.
     Hér er enn fremur lagt til að nýliðar fái frest til að hljóta öryggisfræðslu. Tilgangur þessa ákvæðis er fyrst og fremst sá að tryggja að allir sjómenn hljóti öryggisfræðslu og er ekki talið rétt að hindra menn í að hefja störf ef svo er ekki.

Um 2. gr.


    Aukin starfsþjálfun fyrir nýliða er tvímælalaust árangursríkasta leiðin til að fækka vinnuslysum á sjó enda er slysatíðni meðal þeirra mjög há. Samkvæmt 8. gr. sjómannalaga ber skipstjóra að sjá um að nýliða sé leiðbeint um störf þau sem hann á að sinna um borð. Það leikur enginn vafi á því að leiðbeiningarskyldan verður auðveldari fyrir skipstjórann ef nýliðinn hefur hlotið þá fræðslu sem hér er stefnt að. Auk leiðbeiningarskyldu skipstjóra um borð er nauðsynlegt að taka upp starfsþjálfun í landi fyrir alla sem ætla að hefja sjómannsstörf um lengri eða skemmri tíma. Slík fræðsla færi þá væntanlega fram með bóklegu námi, verklegri þjálfun og sýnikennslu, annars vegar fyrir háseta á fiskiskipum og hins vegar milli háseta á kaupskipum. Nú þegar hefur komið út kennslubók fyrir háseta á kaupskipum og unnið er að því að semja kennslubók fyrir háseta á fiskiskipum.