Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 132 . mál.


145. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
     Erlendum aðilum er heimilt að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi með þeim takmörkunum sem í þessum lögum eða sérlögum greinir og að uppfylltum öðrum skilyrðum og fengnum tilskildum leyfum lögum samkvæmt.

2. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
        Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi er háð eftirfarandi takmörkunum:
    Íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis, mega einir stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt nánari ákvæðum í lögum um rétt til fiskveiða í efnahagslögsögu Íslands.
                  Viðskiptaráðherra getur með úrskurði skyldað fyrirtæki sem hefur að hluta eða öllu leyti verið keypt af öðrum aðilum en þeim er greinir í 1. mgr. þessa töluliðar til að losa sig við fjárfestingu í fiskiskipi. Hafi fyrirtæki ekki orðið við skyldu sinni innan mánaðar frá því úrskurðurinn er sannanlega kynntur forráðamanni þess getur ráðherra krafist nauðungarsölu á skipinu eða eignarhluta fyrirtækisins í því án undangengins dóms eða aðfarar. Skal farið með beiðni um nauðungarsöluna eftir almennum reglum að öðru leyti en því að ekki er þörf sérstakra áskorana gagnvart fyrirtækinu til undirbúnings henni.
    Íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis, mega einir eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi en með vinnslu sjávarafurða er hér átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
                  Viðskiptaráðherra getur með úrskurði skyldað fyrirtæki sem hefur að hluta eða öllu leyti verið keypt af öðrum aðilum en þeim er greinir í 1. mgr. þessa töluliðar til að losa sig við fjárfestingu í vinnslu sjávarafurða. Hafi fyrirtæki ekki orðið við skyldu sinni innan mánaðar frá því úrskurðurinn er sannanlega kynntur forráðamanni þess getur ráðherra krafist nauðungarsölu á þeim eignum sem fjárfest hefur verið í án undangengins dóms eða aðfarar. Skal farið með beiðni um nauðungarsöluna eftir almennum reglum að öðru leyti en því að ekki er þörf sérstakra áskorana gagnvart fyrirtækinu til undirbúnings henni.
    Íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis, mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til eigin heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu.
                  Frá og með 1. janúar 1996 skulu ríkisborgarar annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðilar með heimili annars staðar á svæðinu hafa sama rétt til fjárfestingar á þessu sviði og íslenskir ríkisborgarar og lögaðilar.
    Erlendir aðilar mega eiga 25% hlutafjár í íslenskum viðskiptabanka. Frá og með 1. janúar 1996 fellur ákvæði þessa töluliðar úr gildi.
    Fjárfesting erlends ríkis, sveitarfélags eða annars erlends stjórnvalds í atvinnurekstri hér á landi er óheimil, nema með leyfi viðskiptaráðherra.
    Erlendum aðila er heimilt að öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.
                  Ef erlendur aðili sem veðhafi eignast fasteign hér á landi við útgáfu uppboðsafsals eða með samningum til lúkningar veðskuld og veðhafinn hefur eigi eignarhaldsrétt samkvæmt lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna skal hann selja eignina svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tólf mánuðum eftir að eignin komst í hans eigu. Sama gildir um erlendan veðhafa sem eignast á sama hátt eignarréttindi sem honum eru óheimil samkvæmt þessari grein.

3. gr.


    Ný grein bætist við og verður 5. gr. laganna. Tölusetning annarra greina breytist samkvæmt því. Greinin orðist svo:
     Nú vill erlendur aðili reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni og skal þá svo með fara:
    Sé um að ræða einstakling sem búsettur er erlendis skal honum óheimilt að vinna sjálfstætt eða starfrækja eigið atvinnufyrirtæki eða taka þátt í fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð hér á landi nema með leyfi viðskiptaráðherra enda sé lögheimili hér á landi ekki óundanþægt skilyrði samkvæmt lögum um viðkomandi atvinnugrein eða veiting undanþágu frá lögheimilisskilyrði falin öðrum. Ríkisborgarar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir ákvæðum þessa liðar.
    Um rétt hlutafélags, sem á heimili erlendis, til að starfa hér á landi fer samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög.
    Viðskiptaráðherra getur veitt öðrum lögaðilum, sem heimili eiga erlendis, leyfi til að starfa hér á landi enda sé þá að því er varðar slíka lögaðila og starfsemi þeirra hér á landi fullnægt sömu skilyrðum og fylgt sömu meginreglum og að því er varðar erlend hlutafélög, sbr. 2. tölul. þessarar greinar. Útibú slíks lögaðila skal skráð í firmaskrá á heimilisvarnarþingi útibúsins. Lögaðilar með heimili í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir ákvæðum þessa liðar.

4. gr.


    Orðið „gjaldeyriseftirliti“ í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna fellur niður.
     Í stað „gjaldeyriseftirlitinu“ í 4. málsl. 5. gr. laganna kemur: bankanum.
     Orðið „Gjaldeyriseftirlit“ í 3. mgr. 5. gr. laganna fellur niður.
     Orðið „gjaldeyriseftirliti“ í 1. málsl. 6. gr. laganna fellur niður.

5. gr.


    2. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

6. gr.


    8. gr. laganna orðast svo:
     Í innlendum atvinnufyrirtækjum skulu framkvæmdastjórar og meiri hluti stjórnarmanna vera búsettir hér á landi óháð eignarhluta, atkvæðisrétti eða öðrum yfirráðum erlendra aðila. Þetta gildir þó ekki um ríkisborgara aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Viðskiptaráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja undanþágu frá þessu ákvæði.

7. gr.


    10. gr. laganna orðast svo:
     Nú telur viðskiptaráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði og getur hann þá stöðvað viðkomandi fjárfestingu enda kunngjöri hann þá slíka ákvörðun innan átta vikna frá því að Seðlabanka Íslands berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 6. gr.
     Sérstök fimm manna nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, skal vera viðskiptaráðherra til ráðuneytis um beitingu öryggisákvæðis skv. 1. mgr. og skal hún kölluð saman þegar ráðherra hyggst beita þessu ákvæði. Jafnframt skal nefndin fylgjast með að ákvæðum 4. gr. um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sé framfylgt.
     Viðskiptaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn. Einn nefndarmanna skipar ráðherra án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, einn samkvæmt tilnefningu dómsmálaráðherra, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra og einn samkvæmt tilnefningu utanríkisráðherra. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Viðskiptaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna.
    Viðskiptaráðherra skal á fyrri hluta hvers árs flytja Alþingi skýrslu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan. Í henni skulu m.a. koma fram upplýsingar um fjárfestingu erlendra aðila og heildarfjárfestingu eftir atvinnugreinum og beitingu öryggisákvæðis skv. 1. mgr.

8. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

9. gr.


    Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 34 25. mars 1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og gefa þau út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til að laga reglur um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi að ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Jafnframt eru lagðar til nokkrar aðrar breytingar á lögunum í átt til aukins frjálsræðis á þessu sviði. Frumvarpið var flutt á 116. löggjafarþingi en varð ekki útrætt.
     Samkvæmt ákvæðum EES-samningsins skal aðilum í einu ríki innan EES vera heimilt án takmarkana að fjárfesta í atvinnurekstri í öðru ríki á svæðinu. Í XII. viðauka með samningnum er Íslandi veitt heimild til að viðhalda ótímabundið gildandi banni við fjárfestingu erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Jafnframt er stjórnvöldum samkvæmt samningnum heimilt að krefjast þess að fyrirtæki losi sig við fjárfestingu í fiskveiðum eða fiskvinnslu ef þau komast að öllu leyti eða að hluta til í eigu erlendra aðila. Þá er Íslandi veittur frestur til 1. janúar 1996 til að laga gildandi reglur um fjárfestingu erlendra aðila í öðrum atvinnugreinum að ákvæðum samningsins.
     Um breytingar á einstökum ákvæðum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri vísast til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að gagnkvæmnisskilyrðið í niðurlagi 3. gr. laganna, „ ... enda njóti íslenskir aðilar ekki lakari réttar til fjárfestingar í heimaríki hlutaðeigandi aðila“, verði fellt brott. Ólíklegt verður að telja að fjárfesting erlends aðila á Íslandi verði nokkru sinni svo mikið hagsmunamál í heimaríki hans að stjórnvöld þar breyti eigin reglum um fjárfestingu erlendra aðila til að veita Íslendingum sama rétt þar í landi og þegnar viðkomandi ríkis njóta á Íslandi. Af þeim sökum leiðir gagnkvæmnisskilyrði af þessu tagi ekki til annars en að útiloka erlenda aðila frá ríkjum þar sem Íslendingar njóta lakari réttar en viðkomandi aðilar hér á landi frá því að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi. Vandséð er að slíkt þjóni hagsmunum íslensks atvinnulífs sem lengstum hefur átt við skort á áhættufjármagni að glíma.

Um 2. gr.


    Í 4. gr. laganna koma fram takmarkanir sem gilda um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Þær eru nú þessar: Bann við fjárfestingu í félögum sem stunda fiskveiðar, frumvinnslu sjávarafurða, orkuvinnslu og orkudreifingu, 49% hámark á eignarhluta erlendra aðila í félagi sem stunda flugrekstur, 25% hámark á eignarhluta erlendra aðila í hlutafélagsbanka, bann við fjárfestingu erlends ríkis eða fyrirtækis í eigu erlends ríkis, 200 milljóna króna hámark á árlegri fjárfestingu eins erlends aðila eða fjárhagslega tengdra erlendra aðila og 25% hámark á heildarfjárfestingu erlendra aðila af áætlaðri fjárfestingu í tilteknum atvinnugreinum.
     Í 1. og 2. tölul. er lagt til að áfram gildi algert bann við fjárfestingu erlendra aðila í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Orðalag er óbreytt frá gildandi lagaákvæðum. Þó er ekki lengur vísað til númers laga um rétt til fiskveiða í efnahagslögsögu Íslands, nr. 13/1992, heldur einungis heitis þeirra. Lagt er til að tveir nýir málsliðir bætist bæði við 1. og 2. tölul. Er það í samræmi við ákvæði í XII. viðauka við EES-samninginn. Í þessum nýju málsliðum er kveðið á um að viðskiptaráðherra geti kveðið upp úrskurð um að lögaðili sem að hluta til eða öllu leyti hefur verið keyptur af erlendum aðila skuli losa sig við fjárfestingu á sviði fiskveiða eða fiskvinnslu. Ráðherra er jafnframt veitt heimild til að fylgja slíkum úrskurði eftir með beiðni um nauðungarsölu á skipi, eignarhluta aðilans í skipi eða öðrum eignum sem óheimil fjárfesting tekur til ef mánuður er liðinn frá því úrskurðurinn er kynntur forráðamanni hans án þess að lögaðilinn hafi orðið við skyldu sinni. Er gert ráð fyrir að nauðungarsalan fari eftir almennum reglum laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, að öðru leyti en því að ráðherra þyrfti ekki að beina sérstakri tilkynningu til lögaðilans til að undirbúa aðgerðir við nauðungarsöluna. Miðað er við að ef lögaðilinn ætti aðeins hlut í eigninni á móti öðrum yrði litið á beiðnina sem kröfu um nauðungarsölu til slita á sameign, sbr. 8. gr. fyrrnefndra laga. Þar með er stjórnvöldum gert auðveldara að framfylgja fjárfestingarbanninu en samkvæmt gildandi lagaákvæðum. Slíkur úrskurður yrði kveðinn upp ef viðkomandi aðili færi ekki að áskorun um að losa sig við óheimilan hlut í fiskveiðum eða vinnslu sjávarafurða. Í ákvæði til bráðabirgða í lögunum um fjárfestingu erlendra aðila er tekið fram að takmarkanir laganna nái ekki til fjárfestingu erlends aðila sem átt hefur sér stað fyrir gildistöku þeirra, þ.e. 25. mars 1991. Það er því ljóst að ákvæði frumvarpsins um úrskurð ráðherra verður einungis beitt ef bein eða óbein eignaraðild erlends aðila í innlendum sjávarútvegsfyrirtækjum hefur skapast eftir 25. mars 1991.
     Í 3. tölul. koma fram sömu hömlur á möguleikum erlendra aðila til að eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita og hlut í fyrirtækjum á sviði orkuvinnslu og orkudreifingu og í núgildandi lagaákvæðum. Samkvæmt ákvæðum í XII. viðauka við EES-samninginn gildir engin undanþága fyrir Ísland um fjárfestingu á þessum sviðum. Því er lagt til að nýr málsliður bætist við þennan tölulið. Í honum er kveðið á um að frá og með 1. janúar 1996 njóti ríkisborgarar og lögaðilar frá hinum EES-ríkjunum sama réttar til fjárfestingar á þessu sviði og íslenskir ríkisborgarar og lögaðilar.
     Í 4. tölul. kemur fram sama takmörkun á eignarhluta erlendra aðila í innlendum viðskiptabönkum og í núgildandi lagaákvæði. Samkvæmt ákvæðum í XII. viðauka við EES-samninginn gildir engin undanþága fyrir Ísland um fjárfestingu á þessu sviði. Því er lagt til að ákvæði þessa töluliðar falli úr gildi 1. janúar 1996. Það leiðir til þess að ríkisborgarar og lögaðilar frá ríkjum utan EES munu í framtíðinni njóta sama réttar til fjárfestingar á þessu sviði og aðilar í EES-ríkjum. Það er gert vegna þess að engin sérstök rök mæla með því að sérreglur gildi á þessu sviði fyrir aðila í EES- ríkjunum. Þá er lagt til að fellt verði brott núgildandi ákvæði um að frá og með 1. janúar 1992 geti erlendir hlutafélagsbankar opnað útibú hér á landi enda ákvæðið óþarft eftir að lögum um Seðlabanka Íslands var breytt í þá veru á 115. löggjafarþingi 1991–92 og ný lög um viðskiptabanka og sparisjóði, nr. 43/1993, tóku gildi 1. júlí 1993.
    Í 5. tölul. kemur fram svipað bann við fjárfestingum erlends stjórnvalds hér á landi og í núgildandi lagaákvæði. Þó er lagt til að reglur hér á landi verði samræmdar reglum í flestum öðrum iðnríkjum þannig að ákvæðið taki aðeins til fjárfestingar erlends stjórnvalds en ekki einnig fjárfestingar fyrirtækis í eigu erlends stjórnvalds. Einnig er lagt til að ákvæðið verði víðtækara en nú er og nái ekki aðeins til fjárfestingar erlends ríkis heldur einnig til fjárfestingar erlends sveitarfélags eða annars erlends stjórnvalds.
     Síðasti töluliður 1. mgr. er nánast óbreyttur frá gildandi lagaákvæði. Lagt er til að orðalagi verði breytt þannig að ekki verði vísað til númers laganna um eignarrétt og afnotarétt fasteigna heldur einingis til heitis þeirra.
     Í þeirri breytingu sem hér er lögð til á 4. gr. laganna um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri felst að fellt verður brott skilyrði 7. tölul. núgildandi 4. gr. laganna um leyfisveitingu ráðherra fari erlend fjárfesting fram úr 250 milljón króna fjárhæðamarkinu eða sé umfram 25% af heildarfjárfestingu í tilgreindum atvinnugreinum. Í ljósi reynslunnar verður ekki séð að ástæða sé að lögbinda ákvæði af þessu tagi. Fjárfesting erlendra aðila hér á landi hefur yfirleitt verið langt undir þessum mörkum. Þá gegna almennt öryggisákvæði og ákvæði samkeppnislaga svipuðu hlutverki og ákvæði af þessu tagi er ætlað að gegna. Jafnframt fellur úr gildi takmörkun í 4. tölul. núgildandi 4. gr. um að samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki, sem stunda flugrekstur hér á landi, megi á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að núgildandi 8. tölul. 4. gr. laganna verði gerður að sérstakri grein enda er í honum ekki fjallað um takmarkanir á fjárfestingu heldur hvernig með skuli farið þegar erlendur aðili vill reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni. Bent skal sérstaklega á að með orðunum „reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni“ og „starfa hér á landi“ er í greininni átt við starfsemi með fastri starfsstöð hér á landi og skráningu í firmaskrá en ekki það að veita þjónustu hér á landi frá starfsstöð erlendis.
     Í samræmi við ákvæði EES-samningsins um frelsi til að stunda starfsemi hvar sem er innan EES er tekið fram að ríkisborgarar í aðildarríkjum á svæðinu og lögaðilar sem heimili eiga þar séu undanþegnir ákvæðum greinarinnar.

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að tilvísanir til ákveðinnar deildar Seðlabankans, þ.e. gjaldeyriseftirlitsins, verði felldar brott og eftir standi tilvísanir til bankans. Eftir því sem gjaldeyrisreglur eru rýmkaðar fækkar hefðbundnum störfum þessarar deildir. Víða erlendis hefur frjálsræðisþróun í gjaldeyrismálum leitt til þess að hliðstæðar deildir hafa verið lagðar niður eða sameinaðar öðrum. Svo kann einnig að fara hér á landi og því er lagt til að ekki verði vísað til deildarinnar í lögum.

Um 5. gr.


    Í lögunum um fjárfestingu erlendra aðila er kveðið á um að Seðlabanki Íslands skuli á fyrri hluta árs birta opinberlega upplýsingar um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan ásamt upplýsingum um heildarfjárfestingu erlendra aðila eftir atvinnugreinum. Þessari lagaskyldu hefur verið fullnægt með sérstakri umfjöllun um fjárfestingu erlendra aðila í ársskýrslu Seðlabankans. Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að nefnd sem viðskiptaráðherra skipar komi í stað nefndar um erlenda fjárfestingu sem Alþingi kýs. Á móti er lagt til að viðskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um erlenda fjárfestingu á fyrri hluta hvers árs. Því er hér lagt til að ákvæði gildandi laga um að Seðlabankinn birti þessar upplýsingar falli brott.

Um 6. gr.


    Lagt er til að síðasti málsliður núgildandi 8. gr. laganna verði felldur brott og í staðinn komi tveir nýir málsliðir. Í þeim fyrri eru ríkisborgarar í ríkjum innan EES undanþegnir búsetuskilyrði greinarinnar. Er það í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Í þeim síðari er viðskiptaráðherra heimilað að undanþiggja ríkisborga í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins búsetuskilyrðinu. Er það í samræmi við núgildandi lagaákvæði.

Um 7. gr.


    Hér er lagt til að nokkrar breytingar verði gerðar á núgildandi 10. gr. laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að öryggisákvæðinu verði breytt þannig að frumkvæði að beitingu þess verði í höndum viðskiptaráðherra en ekki nefndar um erlenda fjárfestingu eins og nú gildir. Jafnframt er lagt til að orðalagi öryggisákvæðisins verði breytt á þann veg að felld verði brott heimild til að stöðva tiltekna erlenda fjárfestingu ef talið er að hún skerði verulega samkeppni fyrirtækja í viðkomandi atvinnugrein. Í samkeppnislögum nr. 8/1993, sem tóku gildi 1. mars 1993, er að finna almennar lagaheimildir um hvernig skuli bregðast við skertri samkeppni vegna yfirtöku eða samruna fyrirtækja hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda aðila. Orðalag öryggisákvæðisins tekur mið af orðalagi í 33. gr. EES-samningsins og orðalagi í samþykkt OECD um afnám hafta á fjármagnshreyfingum.
     Í 2. og 3. mgr. er kveðið á um nefnd um erlenda fjárfestingu. Samkvæmt núgildandi ákvæðum 1. mgr. 10. gr. laganna skal sérstök þingkjörin fimm manna nefnd vera viðskiptaráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar samkvæmt lögunum og hafa ákveðið frumkvæði við beitingu öryggisákvæðis greinarinnar. Í frumvarpi þessu er lagt til að reglur um fjárfestingu erlendra aðila verði gerðar frjálslegri en áður með því að fella niður fjárhæðarmörk og hlutfallslegt hámark á erlendri fjárfestingu án þess að til komi leyfi viðskiptaráðherra. Verði frumvarpið að lögum verður ekki um leyfisveitingar að ræða á sviði erlendra fjárfestingar í atvinnurekstri. Því er sjálfgefið að hlutverki nefndarinnar á því sviði ljúki. Hins vegar er lagt til að nefnd um erlenda fjárfestingu verði viðskiptaráðherra til ráðuneytis um beitingu öryggisákvæðisins að hún fylgist með því að ákvæði laganna um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri séu virt. Jafnframt er lagt til að sú breyting verði gerð á skipan nefndarinnar að hún verði ekki kosin á Alþingi heldur skipuð af viðskiptaráðherra. Fjórir nefndarmenn skulu tilnefndir af forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra en einn skipaður án tilnefningar.
     Í 4. mgr. er lagt til að viðskiptaráðherra flytji Alþingi á fyrri hluta hvers árs skýrslu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan. Svo sem fram kemur í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins er í gildandi lögum kveðið á um að Seðlabankinn sinni þessari upplýsingaskyldu. Þar sem í frumvarpinu er lagt til að þingkjörin nefnd um erlenda fjárfestingu verði lögð niður þykir rétt að leggja jafnframt til að ráðherra geri Alþingi árlega grein fyrir þessum málaflokki.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Þar sem mikilvægt er að innlendir og erlendir aðilar geti með auðveldum hætti gert sér grein fyrir þeim lagaákvæðum sem gilda um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri er lagt til að lögin verði gefin út að nýju eftir að þeim hefur verið breytt eins og lagt er til í frumvarpi þessu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum


um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991.

    Með frumvarpi þessu eru nokkur af þeim ákvæðum endurskoðuð sem sett voru í upphaflegum lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991. Þau lög gerbyltu fyrri lögum um þessi efni, en þá mátti finna ákvæði í ýmsum lögum er takmörkuðu eða nánast útilokuðu fjárfestingu erlendra aðila í íslensku atvinnulífi.
     Frumvarp þetta, verði það að lögum, mun styrkja aðstöðu íslenskra stjórnvalda til að hafa stjórn á erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Í tilfellum þar sem erlendur aðili hefur komist yfir fiskiskip, fyrirtæki í sjávarútvegi eða fasteign í bága við lög, er viðskiptaráðherra nú gert kleift að knýja umræddan aðila til að losa sig við viðkomandi fjárfestingu. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir þeirri breytingu að bann við fjárfestingum í orkubúskap og í innlendum viðskiptabönkum muni ekki gilda gagnvart aðilum frá hinum EES-ríkjunum frá ársbyrjun 1996. Er það í samræmi við EES-samning.
     Kostnaður ríkissjóðs af því að frumvarp þetta verði að lögum verður að teljast óverulegur. Eftirlit með erlendum fjárfestingum verður að hluta til hjá Seðlabanka Íslands þar sem það er nú en það kemur í hlut Samkeppnisstofnunar að líta eftir markaðsáhrifum erlendra fjárfesta. Í heild má ætla að samþykkt frumvarpsins muni hafa jákvæð áhrif á ríkissjóð að svo miklu marki sem erlend fjárfesting getur aukist og rennt auknum stoðum undir íslenskt atvinnulíf.