Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 138 . mál.


153. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 32/1978, með síðari breytingum.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Eyjólfur Konráð Jónsson.



1. gr.


    Í stað „200 eða fleiri“ í 3. málsl. 18. gr. laganna kemur: 75 eða fleiri.

2. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
    2. mgr. orðast svo:
                  Stjórn hlutafélags skal kosin á hluthafafundi og skulu allir stjórnarmenn kosnir á sama fundi.
    Í stað „200 eða fleiri“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: 75 eða fleiri.

3. gr.


    1. málsl. 1. mgr. 82. gr. laganna orðast svo: Í hlutafélögum, þar sem hlutafé er að minnsta kosti tífalt hærra en lágmark þeirrar fjárhæðar sem þarf til að stofna hlutafélag, sbr. 1. gr., eða hafa fleiri en 25 starfsmenn (ársmenn) eða þar sem skuldir og bundið eigið fé nemur að minnsta kosti hundrað sinnum hærri fjárhæð en þeirri sem þarf til að stofna hlutafélag, skal að minnsta kosti einn endurskoðenda, sem kosinn er á aðalfundi, vera löggiltur.

4. gr.


    Við 93. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Stjórn hlutafélags skal senda þeim hluthöfum er þess óska ársreikning og ársskýrslu stjórnar innan sex mánaða frá lokum reikningsársins.

5. gr.


    2. málsl. 2. mgr. 145. gr. laganna orðast svo: Skylt er að veita aðgang að ársreikningum þeirra hlutafélaga sem leggja engar hömlur á heimild hluthafa til meðferðar á hlutabréfum sínum, sbr. 19. og 20. gr.

6. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1995.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta lögðu flutningsmenn fram á síðasta þingi en það varð ekki útrætt og er nú endurflutt með lítils háttar breytingum til samræmis við ábendingar sem fram komu í umsögnum.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 32/1978, sem miða að því að auka trú almennings á hlutafélögum sem fjárfestingarkosti og stuðla þannig að auknum áhrifum og aðhaldi almennings á rekstur fyrirtækja. Þá er það ekki síður nauðsynlegt að fyrirtæki geti styrkt eiginfjárstöðu sína með auknu hlutafé, en eins og kunnugt er hefur skortur á eigin fé verið eitt alvarlegasta vandamál hlutafélaga, t.d. í sjávarútvegi. Fyrirtækin hafa í of ríkum mæli fjármagnað rekstur eða fjárfestingu með lánsfé sem hefur leitt til mikils vaxtakostnaðar.
    Eiginfjáraukning minnkar þann kostnað, dregur úr lánsfjáreftirspurn og stuðlar þar með að almennri vaxtalækkun í þjóðfélaginu auk þess sem vaxandi aðhald almennings og áhrif stuðla að skynsamlegri stjórnun fyrirtækja.
    Alþingi hefur með samþykkt viljayfirlýsingar í formi þingsályktunartillögu um yfirtökutilboð tekið skref til að styrkja stöðu almenningshlutafélaga með því að viðskiptaráðherra er falið að semja lagafrumvarp sem tryggja á rétt minni hluta í hlutafélagi.
    Þykir flutningsmönnum rétt að stíga frekari skref með því að leggja til:
—    að gerðar verði frekari kröfur en nú er um hömlulaus viðskipti með hlutabréf,
—    að stjórn hlutafélags verði öll kosin á sama hluthafafundi og víxlkosning afnumin,
—    að það verði víðtækari skylda en nú er að hlutafélag hafi löggiltan endurskoðanda,
—    að stjórn hlutafélags verði gert skylt að senda þeim hluthöfum, er þess óska, ársreikning og ársskýrslu stjórnar innan sex mánaða frá lokum reikningsárs,
—    að almenningi verði heimill aðgangur hjá hlutafélagaskrá að ársreikningum þeirra hlutafélaga sem leggja engar hömlur á heimild hluthafa til meðferðar á hlutabréfum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að eigi megi leggja hömlur á viðskipti með hlutabréf ef hluthafar eru 75 eða fleiri, en samkvæmt núgildandi lögum er miðað við 200 hluthafa eða fleiri. Þykir rétt að færa þessi mörk niður til þess að opna fleiri fyrirtæki fyrir almenningi en nú er.

Um 2. gr.


    Lagðar eru til tvær breytingar á 47. gr. laganna. Annars vegar er gert skylt að kjósa alla stjórnarmenn á sama hluthafafundi og hins vegar eru rýmkuð þau mörk, sem nú eru, til þess að krefjast margfeldiskosningar eða hlutfallskosningar.
    Báðar tillögurnar miða að því að tryggja rétt minni hluta í hlutafélögum og eru mörkin í síðari tillögunni til samræmis við breytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Hertar eru kröfur til hlutafélaga um að hafa löggiltan endurskoðanda. Lækkuð eru þau mörk í 82. gr. laganna sem leiða til skyldu hlutafélaga að hafa löggiltan endurskoðanda.
    Í stað þess að nú er miðað við að hlutafé sé a.m.k. fimmtánfalt hærra en það lágmark sem þarf til að stofna hlutafélag eða starfsmenn (ársmenn) séu 100 eða fleiri eða að skuldir og bundið eigið fé nemi a.m.k. tvö hundruð sinnum hærri fjárhæð en þarf til að stofna hlutafélag verði miðað við að hlutafé sé a.m.k. tífalt hærra en það lágmark sem þarf til að stofna hlutafélag eða starfsmenn (ársmenn) séu 25 eða fleiri eða að skuldir og bundið eigið fé sé a.m.k. hundrað sinnum hærri fjárhæð en þarf til þess að stofna hlutafélag.
    Auk þess er rétt að vekja athygli á því að ákvæði 1. gr. frumvarpsins leiðir sjálfkrafa til kröfu um löggiltan endurskoðanda, sbr. 2. mgr. 82. gr. laganna, hjá þeim fyrirtækjum sem verður skylt að aflétta hömlum á meðferð hlutabréfa.

Um 4. gr.


    Lagt er til það nýmæli að skylda stjórn hlutafélags til þess að senda þeim hluthöfum er þess óska ársreikning og ársskýrslu stjórnar. Með þessari tillögu er miðað að því að auka upplýsingastreymi til hluthafa.

Um 5. gr.


    Hér er lögð til sú breyting að skylt verði að veita almenningi aðgang hjá hlutafélagaskrá að ársreikningum hlutafélaga sem ekki leggja hömlur á meðferð hlutabréfa, en samkvæmt lagagreininni er einungis um heimildarákvæði að ræða til ráðherra. Markmiðið er augljóst, aukið upplýsingastreymi til almennings.
    Rétt er að geta þess að fram kom í greinargerð með frumvarpi á þskj. 121, sem lagt var fram í neðri deild á 111. löggjafarþingi 1988 og síðar varð að lögum, að sambærileg ákvæði voru þá í erlendri löggjöf. Þar kom m.a. fram að í Noregi, Svíþjóð og Danmörku er öllum hlutafélögum skylt að afhenda sérstakri miðstöð eintak af ársreikningi sem almenningur á ótakmarkaðan aðgang að. Í Noregi getur þó konungur veitt vissum hlutafélögum undanþágu frá þeirri kvöð að ársreikningur skuli vera almenningi til sýnis.
    Í Bretlandi gildir sú almenna regla að hlutafélög skuli senda til hlutafélagaskrár eintak af endurskoðuðum ársreikningi og ársskýrslu stjórnar og er öllum heimill aðgangur að innsendum upplýsingum. Þó eru gerðar vissar undantekningar varðandi lítil og meðalstór fyrirtæki. Fram kemur í greinargerðinni einnig að í mörgum öðrum ríkjum eru í lögum ákvæði um upplýsingagjöf og opinberun ársreikninga en gerður er munur á þessum kröfum bæði eftir stærð og gerð hlutafélags. Að öðru leyti vísast til tilvitnaðrar greinargerðar.

Um 6. gr.


    Lagt er til að lögin taki gildi um þarnæstu áramót þannig að hlutafélög fái tíma til þess að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sínum.



Fylgiskjal.


UMSAGNIR UM FRUMVARPIÐ Á 116. LÖGGJAFARÞINGI



Umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.


(14. apríl 1993.)



    Með bréfi dags. 2. apríl sl. sendi efnahags- og viðskiptanefnd samtökunum til umsagnar frumvarp til laga um hlutafélög, 332. mál.
    Samtökin eru fyrir sitt leyti sammála efni frumvarps þessa.


Umsögn Neytendasamtakanna.


(4. maí 1993.)



    Neytendasamtökin lýsa yfir stuðningi við frumvarpið.

Umsögn Verslunarráðs Íslands.


(15. apríl 1993.)



    Verslunarráð Íslands þakkar nefndinni fyrir að fá tækifæri til að láta í ljós álit sitt á fram komnu frumvarpi um breytingu á hlutafélagalögum.
    Í upphafi vill Verslunarráð benda á að þörf er á endurskoðun hlutafélagalöggjafarinnar, m.a. vegna skuldbindinga vegna samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Telur Verslunarráð réttast að breytingartillögur þessar yrðu skoðaðar samhliða slíkri endurskoðun.
    Um einstakar greinar vill Verslunarráð taka fram eftirfarandi:

Um 1. gr.
    Verslunarráð Íslands bendir á að hlutafélög eru frjáls félög manna um atvinnustarfsemi, reist á samkomulagi þeirra í millum. Ef það er vilji stofnenda hlutafélags að hafa hömlur á meðferð hluta ætti slíkt að vera þeim heimilt, a.m.k. að vissu marki. Telja verður breytingu þá, sem hér er lögð til, vera of mikla og væri réttara að miða við 100 hluthafa.

Um 2. gr.
    Verslunarráð ítrekar það sem sagði í upphafi umsagnar um 1. gr. um eðli hlutafélaga. Verslunarráð telur réttast að um fyrirkomulag stjórnarkjörs séu ákvæði í samþykktum einstakra félaga. Verslunarráð bendir á að með tillögunni er einnig verið að útiloka að aðilar, sem ekki eru hluthafar (t.d. starfsmannafélög), geti tilnefnt menn í stjórnina. Engar skýringar er að finna á þessu í greinargerð. Verslunarráð telur rétt að slík tilnefningarheimild sé fyrir hendi í lögum.

Um 3. gr.
    Engar athugasemdir.

Um 4. gr.
    Verslunarráð styður tillöguna en bendir á að í stórum félögum getur kostnaður við slíkar sendingar orðið töluverður. Ráðið leggur því til að við málsgreinina bætist ný setning sem hljóði svo:
    „Félaginu er heimilt að krefja hluthafa um sendingarkostnað.“

Um 5. gr.
    Verslunarráð styður tillöguna.


Umsögn álitsnefndar Félags löggiltra endurskoðenda.


(27. apríl 1993.)



    Stjórn Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) hefur í samræmi við samþykktir FLE falið álitsnefnd félagsins að fjalla um frumvarpið. Í eftirfarandi umsögn er málið aðallega skoðað með tilliti til endurskoðunar og stöðu og hlutverks löggiltra endurskoðenda.
    Vísað er til einstakra greina frumvarpsins í eftirfarandi umsögn nefndarinnar:

Um 1. gr.
    Álitsnefnd telur að ekki sé óeðlilegt að huga að því að lækka mörk um fjölda hluthafa í hlutafélögum þar sem ekki má leggja hömlur á viðskipti með hlutabréf. Hins vegar er það álit nefndarinnar að mörkin „25“ í stað „200“ feli í sér of stórt stökk og skerðingu á frelsi minni hópa til félagsstofnunar í eigin þágu.

Um 2. gr.
    Álitsnefnd telur að skoða þurfi vel að hve miklu leyti ákvæði þessarar frumvarpsgreinar tryggi rétt minni hluta hluthafa við stjórnarkjör í hlutafélagi. Nefndin er ekki reiðubúin að leggja mat á það að svo stöddu.

Um 3. gr.
    Álitsnefnd telur vel koma til álita að gera breytingu á núgildandi hlutafélagalögum í þá veru að herða kröfur um raunverulega endurskoðun hlutafélaga. Félagsform, sem byggir á takmarkaðri ábyrgð eigenda, hlýtur að leiða af sér kröfur af hálfu samfélagsins og löggjafarvaldsins um eftirlit og endurskoðun reikningsskila, svo að viðunandi traust geti ríkt í viðskiptum. Að vísu hvílir endurskoðunarskylda á öllum hlutafélögum, smáum sem stórum, samkvæmt ákvæðum 80. og 81. gr. hlutafélagalaga, nr. 32/1978, en hins vegar er ekki gerð krafa um að fagmenn, þ.e. löggiltir endurskoðendur, endurskoði hlutafélög undir tilteknum stærðarmörkum, sbr. 82. gr. hlutafélagalaganna. Eins og oftsinnis áður vill álitsnefnd FLE vekja athygli á því hversu óeðlilegt það er að gera sömu kröfur til endurskoðenda í hlutafélögum, hvort sem þeir eru leikmenn eða fagmenn, sbr. m.a. 1. mgr. 86. gr. laga nr. 32/1978.
    Álitsnefnd lýsir sig jákvæða gagnvart þeim hugmyndum sem fram koma í 3. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.
    Álitsnefnd FLE lýsir sig fylgjandi ákvæðum þessarar frumvarpsgreinar.

Um 5. gr.
    Álitsnefnd FLE lýsir sig fylgjandi ákvæðum þessarar frumvarpsgreinar.

Um 6. gr.
    Engar athugasemdir eða ábendingar.