Ferill 141. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 141 . mál.


156. Tillaga til þingsályktunar



um ólympíska hnefaleika.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Ingi Björn Albertsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd til þess að kanna hvort rétt sé að leyfa ólympíska hnefaleika sem íþróttagrein hér á landi.
    Nefndin skal afla upplýsinga um keppnisreglur, slysatíðni miðað við aðrar ólympískar íþróttagreinar og með hvaða skilyrðum ólympískir hnefaleikar eru leyfðir erlendis. Að fengnu áliti Íþróttasambands Íslands skili nefndin tillögu til ríkisstjórnarinnar. Nefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. september 1994.

Greinargerð.


    Allt frá 1956 hafa hnefaleikar verið bannaðir hér á landi en fram að þeim tíma voru þeir allnokkuð iðkaðir. Rétt er að gera skýran greinarmun á ólympískum hnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum sem stundaðir eru m.a. í Bandaríkjunum. Reglur og öryggiskröfur eru afar ólíkar, m.a. er skylt að nota höfuðhlífar í ólympískum hnefaleikum og hver leikur stendur í þrjár lotur í stað allt að tólf lotum í atvinnumannahnefaleikum. Einungis er lagt til að athugað verði hvort tímabært sé að aflétta banni við hnefaleikum samkvæmt þeim keppnisreglum sem gilda á Ólympíuleikum.
    Samkvæmt tiltækum upplýsingum er ekki vitað til þess að ólympískir hnefaleikar séu bannaðir erlendis og geta má þess að í Svíþjóð var farið fram á það 1983 að þessi íþróttagrein yrði bönnuð. Þá fór fram ítarleg könnun og gerð var skýrsla um ólympíska hnefaleika. Niðurstaða Svía var greininni mjög jákvæð.
    Í ljósi þess og þeirrar staðreyndar að umtalsverður hópur ungmenna hefur áhuga á því hérlendis að iðka ólympíska hnefaleika þykir rétt að fram fari skipuleg upplýsingaöflun um þessa íþrótt og að leitað verði álits Íþróttasambands Íslands; verði niðurstaða nefndarinnar jákvæð verði í framhaldi af því gerð tillaga um að leyfa ólympíska hnefaleika sem keppnisgrein.