Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 157 . mál.


175. Tillaga til þingsályktunar



um hvatningu til erlendrar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi.

Flm.: Árni R. Árnason.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að láta kanna forsendur fyrir og undirbúa löggjöf um hvatningu til erlendrar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi.

Greinargerð.


    Stöðnun og samdráttur hefur ríkt í atvinnustarfsemi okkar um árabil. Hefur þessa gætt í nær öllum mælikvörðum á afkomu þjóðarbúsins allt frá 1987 og eru orsakir nokkrar.
    Ein orsökin er versnandi afkoma þorskstofnsins sem er helsti og verðmætasti nytjastofn okkar í hafinu. Það hefur aftur leitt til minnkandi umsvifa í sjávarútvegi, einkum bolfiskveiðum og vinnslu.
    Önnur orsök er breytt stefna í landbúnaði með viðmiðun beingreiðslna fyrir framleiðslu við innlendan markað sem leitt hefur til minni umsvifa við framleiðslu mjólkurafurða og sauðfjárafurða.
    Enn má nefna breytingar á mörkuðum Vesturlanda fyrir iðnvarning af ýmsum orsökum, svo sem:
—    samdrætti í neyslu og almennri efnahagsstarfsemi,
—    auknu framboði málma frá Rússlandi og af birgðum Sovétríkjanna fyrrverandi,
—    framboði iðnaðarvöru af varnarbirgðum Vesturlanda sjálfra, t.d. Bandaríkjanna, sem á síðustu árum hafa verulega dregið saman varnarviðbúnað sinn,
en þær breytingar hafa m.a. leitt til minni umsvifa stóriðjufyrirtækja sem hér starfa.
    Ein afleiðing stöðnunar og samdráttar er stórum minni fjárfestingar í atvinnulífi, einkum í nýrri atvinnustarfsemi. Ástæða þess er að við þessar aðstæður beinir atvinnulífið sjálft öllum mætti sínum, fjárfestingargetu og þrótti að hagræðingu til að ná sem bestri afkomu við þrengri skilyrði en áður.
    Væntingar um vaxtarsprota í atvinnulífi með fjárfestingum okkar í mannvirkjum og starfsemi í nýjum atvinnugreinum hafa brugðist hingað til, a.m.k. í þeim mikla mæli sem væntingar stóðu til, svo sem í loðdýraeldi og fiskeldi.
    Vonir um miklar fjárfestingar í orkufrekri og mannfrekri starfsemi með byggingu nýrra virkjana og stóriðjuvera hafa einnig brugðist hingað til.
    Eftir því sem liðið hefur á þetta stöðnunar- og samdráttarskeið hefur komið æ betur í ljós að mjög skortir fjölbreytni í atvinnulíf okkar og enn fremur að fábreytni virðist hafa ríkt hvað varðar ráðstafanir þeirra stjórnvalda til úrbóta sem virtust álíta í sínum verkahring að standa beinlínis fyrir nýsköpun og beinni uppbyggingu nýrrar atvinnustarfsemi í þjóðfélaginu. Fjölbreytni atvinnulífs er efnahagsstyrkur til langframa, en hún er komin undir hugkvæmni athafnamanna og fyrirtækja á hverjum tíma. Hlutverk stjórnvalda og sveitarstjórna er ekki að standa fyrir nýsköpun né uppbyggingu atvinnustarfsemi heldur að búa atvinnuvegum okkar og fyrirtækjum almenn starfsskilyrði sem standast samjöfnuð við skilyrði keppinauta þeirra erlendis og hvetja til þróunarstarfs, nýsköpunar og fjárfestingar í uppbyggingu aukinnar starfsemi á grundvelli arðsvonar. Verkefni ríkisvaldsins er löggjöf og framkvæmd hennar ásamt almennum aðgerðum í efnahagskerfinu, svo og samningar við önnur ríki og framkvæmd þeirra. Annað verkefni ríkisvaldsins, einkum við þær aðstæður sem nú ríkja, er að skapa með almennum aðgerðum skilyrði sem hvetja til aukinnar fjárfestingar í atvinnulífi okkar, af hálfu erlendra aðila jafnt sem innlendra.
    Flestar þjóðir leggja nokkuð á sig, og sumar mikið, til að laða til sín fjármagn og erlenda fjárfesta til að auka umsvif í efnahagslífinu og ná þannig aukinni fjölbreytni og fjölga atvinnutækifærum. Í raun stendur hörð samkeppni milli þjóða á þessu sviði en þar stöndum við Íslendingar ekki framarlega.
    Aukin áhersla á að kynna erlendum fjárfestum tiltekna kosti Íslands, svo sem óvirkjaða orku og nú síðast frísvæði á Suðurnesjum sem enn er á undirbúningsstigi, hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að fleiri fjárfestar en þessir kostir henta geta haft vænleg áhrif á framþróun atvinnulífs okkar og fýsilegt sé að laða þá hingað. Þar er fyrst og fremst átt við aukna fjölbreytni almennt og í iðnaðarstarfsemi sérstaklega, fleiri stoðir atvinnulífs og gjaldeyrisöflunar og meiri fjölbreytni atvinnutækifæra. Í þeim tilvikum þar sem hvorki henta kostir mikillar orkunotkunar né kostir staðsetningar á frísvæði sýnist mér skorta á að við bjóðum almenn skilyrði sem gera erlendum aðilum fýsilegt að hefja starfsemi á Íslandi.
    Þau skilyrði, sem einkum kunna að koma til álita, munu vera á sviði skatt- og tollheimtu, t.d. má nefna heimildir til að færa arð til heimalands fjárfesta. Enn fremur á sviði ákvæða um fjárfestingar og um fjármögnun. Það er skoðun flutningsmanns að kanna þurfi rækilega hvernig beita megi slíkum aðgerðum þannig að ekki raskist núverandi jafnræði í starfsskilyrðum atvinnuvega okkar en þær verði erlendum fjárfestum hvatning til að fjárfesta í atvinnustarfsemi á Íslandi.