Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 173 . mál.


191. Frumvarp til laga



um stofnun hlutafélags um Þvottahús Ríkisspítalanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er heiti Þvottahús Ríkisspítalanna hf. Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt að leggja Þvottahús Ríkisspítalanna, þ.e. þvottahúsið sjálft ásamt öllu fylgifé þess, til hins nýja hlutafélags.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra annast fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúning að stofnun félagsins. Nefnd, sem ráðherra skipar, skal meta eignir og skuldir þvottahússins. Matið skal leggja til viðmiðunar um andvirði hlutafjár og upphaflega eiginfjárstöðu hins nýja félags.

2. gr.


    Tilgangur félagsins skal vera að reka þvottahús sem skiptist a.m.k. í þvottadeild og saumastofu í samræmi við samþykktir félagsins.
    Þvottadeild skal sjá um þvott á öllu líni fyrir Ríkisspítala og aðra þá aðila sem um slíka þjónustu semja við félagið. Saumastofa skal sjá um viðgerð, merkingu og endurnýjun á líni sem notað er á Ríkisspítölum og hjá öðrum þeim aðilum sem um þá þjónustu semja við félagið. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum.

3. gr.


    Ríkisspítalar eru eigendur allra hlutabréfa í félaginu við stofnun þess. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fer með eignarhlut Ríkisspítala í félaginu. Honum er heimilt að selja öll hlutabréfin í félaginu eða hluta þeirra.

4. gr.


    Fastráðnir starfsmenn Þvottahúss Ríkisspítalanna skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.

5. gr.


    Ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, með síðari breytingum, gilda ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu. Ákvæði 1. mgr. 17. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 115. gr. sömu laga gilda ekki um tölu hluthafa. Að öðru leyti skulu ákvæði hlutafélagalaga gilda um félagið.
    Stofnfund hins nýja hlutafélags skal halda eigi síðar en þremur mánuðum eftir gildistöku laganna og skal leggja fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið á stofnfundinum.

6. gr.


    Hlutabréf í félaginu, útgefin í tengslum við stofnun þess, skulu undanþegin stimpilgjöldum. Að öðru leyti greiðir félagið opinber gjöld með sama hætti og almennt gildir um hlutafélög hér á landi.

7. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þvottahús Ríkisspítalanna hf. yfirtekur eignir og rekstur Þvottahúss Ríkisspítalanna miðað við 1. janúar 1994.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 116. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Frumvarpið er því lagt fram að nýju óbreytt.
    Þvottahús Ríkisspítalanna hefur verið starfrækt um árabil. Þvottahúsið skiptist í þvottadeild og saumastofu. Þvottadeildin annast þvott á öllu líni fyrir Ríkisspítalana, Borgarspítalann og fleiri stofnanir. Árið 1990 voru 1.225 tonn af þvotti þvegin í þvottahúsinu og tekjur liðlega 111 m.kr.
    Þvottahús Ríkisspítalanna er til húsa að Tunguhálsi 2, Reykjavík. Hluti hússins var byggður 1967 og er hann notaður af þvottahúsinu. Stærð húshlutans er 2.162 m 2 . Brunabótamat húshlutans er 165 m.kr., fasteignamat er 48,6 m.kr. og áætlað söluverð 88 m.kr. Yngri hluti hússins var byggður 1975 og er hann að mestu notaður af birgðastöð og sótthreinsunardeild. Stærð yngri hlutans er 1.505 m 2 . Brunabótamat þess húshluta er 105 m.kr., fasteignamat 50,5 m.kr. Ekki liggur fyrir mat á tækjum þvottahússins. Sum eru ný en önnur allt að 25 ára gömul. Lauslega má áætla að verð tækja sé um 100 m.kr.
    Ákveðið hefur verið að breyta þvottahúsi Ríkisspítalanna í hlutafélag með það fyrir augum að efla starfsemi þess.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með grein þessari er ríkisstjórninni falið að stofna hlutafélag um rekstur Þvottahúss Ríkisspítalanna. Ríkisstjórninni er í því skyni heimilað að leggja hinu nýja hlutafélagi til Þvottahús Ríkisspítalanna, þ.e. þvottahúsið sjálft ásamt öllu fylgifé þess.
    Gert er ráð fyrir að heilbrigðisráðherra annist fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúning að stofnun félagsins, enda lúta Ríkisspítalar yfirstjórn hans. Nefnd, sem ráðherra skipar, skal meta eignir og skuldir Þvottahússins. Matið skal leggja til viðmiðunar um andvirði hlutafjár og upphaflega eiginfjárstöðu hins nýja félags.

Um 2. gr.


    Í greininni er megintilgangur hlutafélagsins skilgreindur og gert ráð fyrir að Þvottahúsið skiptist a.m.k. í tvær deildir eins og nú er, þ.e. þvottadeild og saumastofu. Gert er ráð fyrir að þvottadeild sjái um þvott á öllu líni fyrir Ríkisspítala og aðra aðila sem við er samið. Saumastofa sjái um viðgerð, merkingu og endurnýjun á líni sem notað er á Ríkisspítölum og hjá öðrum sem semja um þessa þjónustu við félagið. Þá er gert ráð fyrir að nánar megi kveða á um hlutverk félagsins í samþykktum þess og að samþykktum megi breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um að Ríkisspítalar skuli eiga öll hlutabréf félagsins við stofnun þess. Er það undantekning frá almennum reglum hlutafélagalaga sem gera ráð fyrir a.m.k. tveimur eigendum hlutafjár í hlutafélagi, sbr. og 5. gr. frumvarpsins. Heilbrigðisráðherra skal fara með eignarhlut Ríkisspítalanna í félaginu og er honum heimilað að selja öll hlutabréfin í félaginu eða hluta þeirra. Gert er ráð fyrir að yrðu hlutabréf seld í félaginu mundu tekjur af slíkri sölu renna beint til Ríkisspítalanna.

Um 4. gr.


    Greininni er ætlað að tryggja fastráðnum starfsmönnum Þvottahúss Ríkisspítalanna rétt til sömu starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og þeir gegndu áður hjá Þvottahúsinu. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 þykja því ekki eiga við. Sambærileg ákvæði um réttindi starfsmanna hafa áður verið sett í lög er ríkisfyrirtækjum hefur verið breytt í hlutafélög, sbr. t.d. lög nr. 45/1989, um stofnun hlutafélags um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg.
    Í október 1992 starfa 55 manns hjá Þvottahúsi og saumadeild Ríkisspítalanna. Í 32,3 stöðugildum eru 41 einstaklingur í Verkakvennafélaginu Sókn og í 14 stöðugildum eru 14 einstaklingar í Starfsmannafélagi ríkisstofnana. Þeir starfsmenn Þvottahúss Ríkisspítalanna, sem eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, munu halda þeim réttindum sínum við þá formbreytingu í rekstri sem hér er stefnt að. Vísast í því sambandi til ákvæðis í 17. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Um lífeyrismál annarra starfsmanna fer eftir ákvæðum kjarasamninga.

Um 5. gr.


    Þar sem Ríkisspítalar verða í upphafi eini hluthafinn í félaginu er nauðsynlegt að veita undanþágu frá ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarkstölu stofnenda og hluthafa. Að öðru leyti skulu ákvæði hlutafélagalaga gilda um félagið. Hér er og gert ráð fyrir að stofnfund skuli halda eigi síðar en þremur mánuðum eftir gildistöku laganna og þar skuli leggja fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið.

Um 6. gr.


    Hér er lagt til að hlutabréf, sem gefin eru út við stofnun félagsins, skuli undanþegin stimpilgjöldum. Að öðru leyti verður hlutafélagið skattskylt eftir almennum reglum.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um stofnun


hlutafélags um Þvottahús Ríkisspítalanna.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að ríkisstjórnin beiti sér fyrir stofnun hlutafélags um rekstur Þvottahúss Ríkisspítalanna er heiti Þvottahús Ríkisspítalanna hf. og leggi til þess allar eigur samnefndrar stofnunar. Tilgangur félagsins skal vera að reka þvottahús sem m.a. skal sjá um þvott á öllu líni fyrir Ríkisspítala.
    Gera má ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna framkvæmdar frumvarpsins sé fyrst og fremst vegna breytinga á reikningshaldi fyrirtækisins til þess forms sem telst góð reikningsskilavenja í einkageiranum, verðmat og almenn úttekt á starfsemi fyrirtækisins. Kostnaður við þetta er á bilinu 0,5–1 m.kr.
    Athygli er vakin á þeim ákvæðum frumvarpsins sem bindur nafn félagsins við opinbera stofnun um ókomna tíð og að Þvottahúsið skuli annast þvotta fyrir Ríkisspítalana. Ef ástæða þykir til að hafa þessi ákvæði þá er rétt að takmarka þau við tiltekinn tíma.
    Að mati fjármálaráðuneytisins er engin ástæða til að veita félaginu undanþágu frá greiðslu stimpilgjalda. Stimpilgjöld reiknast sem 1 / 2 % af nafnverði hlutabréfa.