Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 176 . mál.


194. Tillaga til þingsályktunar



um breytta staðsetningu hæstaréttarhúss.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Halldór Ásgrímsson, Svavar Gestsson,


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Finnur Ingólfsson, Guðrún Helgadóttir,


Kristín Einarsdóttir, Ingibjörg Pálmadóttir, Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að taka til endurskoðunar áform um staðsetningu nýs hæstaréttarhúss við Lindargötu 2 í Reykjavík þannig að komið verði í veg fyrir skipulags- og menningarslys í hjarta höfuðborgarinnar. Verði fyrirhuguðu dómhúsi fundinn annar staður.

Greinargerð.


    Dómhús það, sem nú stendur við Lindargötu í Reykjavík og hýsir Hæstarétt Íslands, er löngu orðið of lítið auk þess sem ástand þess er afar slæmt. Nú er áformað að reisa nýtt hús yfir Hæstarétt og var óskað eftir lóðinni Lindargötu 2 en hún hefur um árabil verið notuð sem bílastæði fyrir Arnarhvál, Landsbókasafnið og Þjóðleikhúsið. Samkeppni um nýtt hús hefur þegar farið fram og miðaðist hún við að húsið risi á bak við Landsbókasafnið við hlið Þjóðleikhússins og gegnt Arnarhváli.
    Það er skoðun flutningsmanna að verði reist nýtt dómhús á þessum ákveðna stað verði mikið skipulags- og þó einkum menningarslys. Eins og skipulagi háttar nú við Lindargötu og Hverfisgötu er mjög þrengt að Þjóðleikhúsinu þannig að sú sérstaka bygging, sem troðið var niður milli Landsbókasafnsins og íbúðarhúss Jóns Magnússonar, fyrrverandi forsætisráðherra, fær engan veginn að njóta sín. Enn meira yrði þrengt að leikhúsinu með nýrri byggingu við Lindargötu. Það væri þó enn alvarlegra ef reist yrði bygging sem skyggði á eitt allra fegursta hús Reykjavíkur, Landsbókasafnið, sem byggt var í upphafi þessarar aldar. Nýbygging við Lindargötu 2 mundi óneitanlega skyggja á bakhlið hússins sem er afar fögur og sérstök í byggingarsögu borgarinnar. Enn er tími til að endurskoða fyrirhuguð áform um nýbyggingu yfir Hæstarétt og ekki skortir lóðirnar eða húsnæði sem hugsanlega mætti nýta fyrir Hæstarétt. Það verður að koma í veg fyrir enn eitt menningarslysið í borginni og það ber ríkisstjórninni að gera.