Ferill 91. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 91 . mál.


269. Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um aðgerðir á grundvelli 1. gr. laga um Evrópskt efnahagssvæði.

    Hvað hefur verið aðhafst af íslenskum stjórnvöldum á grundvelli 1. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og laga nr. 66/1993, um breytingar á þeim lögum?
    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og laga nr. 66/1993, um breytingar á þeim lögum, er veitt heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd EES- samninginn, samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og samning um fastanefnd EFTA-ríkjanna. Þessir samningar hafa nú verið fullgiltir.

    Til hvaða kostnaðar hefur verið stofnað hingað til af þessu tilefni, sundurliðað eftir einstökum þáttum?
    Á fjárlögum ársins 1993 er gert ráð fyrir eftirfarandi fjárveitingum sem beinlínis eru tengdar EES-samningnum (í millj. kr.):
03-401-171 Eftirlitsstofnun EFTA, ESA
16,0

03-401-172 EFTA-dómstóllinn
5,3

03-401-173 Þróunarsjóður EFTA
62,1

    Af þessum fjárlagaliðum er þegar búið að greiða 18.712 þús. kr. vegna eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, 4.241 þús. kr. til EFTA-dómstóls en ekkert til Þróunarsjóðs EFTA, enda hefur stofnun hans ekki komið til framkvæmda.
    Þessu til viðbótar var einu stöðugildi bætt við skrifstofu sendiráðs Íslands í Brussel og hjá Evrópubandalaginu en það var millifært af viðskiptaskrifstofu ráðuneytisins hér heima. Viðbótarkostnaður við þennan tilflutning nemur 3 millj. kr. Þá er sérstök fjárveiting til húsnæðiskostnaðar í Brussel, 10 millj. kr., vegna aukins umfangs starfseminnar. Þá var stofnað sérstakt embætti fulltrúa menntamálaráðuneytis í Brussel sem mjög óbeint má tengja EES-samningi. Kostnaður við það embætti er um 6 millj. kr. Fyrir var fulltrúi sjávarútvegsráðuneytis í Brussel, fulltrúi fjármálaráðuneytis og fulltrúi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis í hálfu starfi.

    Til hvaða mannaráðninga hefur verið stofnað hjá utanríkisráðuneytinu og íslensku utanríkisþjónustunni vegna EES-samningsins, m.a. í tengslum við EFTA og sendiráð Íslands í Brussel?
    Ekki hefur verið ráðið nýtt fólk til starfa hjá utanríkisráðuneytinu eftir samþykkt EES-samningsins á Alþingi og engar nýjar ráðningar eru í aðsigi. Ekki hefur verið bætt við starfslið fastanefndar Íslands hjá EFTA í Genf undanfarin ár en á þessu ári var starfsmaður fluttur úr ráðuneytinu í sendiráð Íslands í Brussel eins og fram kemur hér að ofan.

    Hver eru ráðningarkjör þeirra sem Ísland hefur skipað sem eftirlitsfulltrúa í Eftirlitsstofnun EFTA og dómara í EFTA-dómstólinn að skattfríðindum meðtöldum?
    Eftirlitsfulltrúar í eftirlitsstofnun EFTA og dómarar í EFTA-dómstólnum eru ekki skipaðir af einstökum aðildarlöndum EFTA heldur á grundvelli samhljóða samþykktar ráðherra þeirra EFTA-ríkja sem aðild eiga að EES. Réttindi og skyldur eftirlitsfulltrúa og dómara eru byggð á samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, þar á meðal ráðningartími sem er þrjú ár fyrir eftirlitsfulltrúa og ýmist þrjú eða sex ár fyrir dómara, sbr. 30. gr. framangreinds samnings. Launakjör og húsaleigustyrkur þeirra eru hliðstæð við kjör aðstoðarframkvæmdastjóra EFTA sem ákvörðuð eru á grundvelli launakerfis EFTA, þó þannig að fyrir starfsvettvang utan Genfar (Brussel) eru laun 10% lægri. Að öðru leyti gilda sömu reglur um starfskjör eftirlitsfulltrúa og dómara og um embættismenn EFTA, þar á meðal reglur um skattfrelsi starfsmanna alþjóðastofnana í viðkomandi löndum.