Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 246 . mál.


285. Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Árni R. Árnason.


1. gr.

    Á eftir orðunum „sem við á“ í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I, sbr. 23. gr. laga nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, (frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri), kemur: svo og stofnfjárbréf í stofnsjóðum sparisjóða samkvæmt lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, enda séu ekki lagðar hömlur á frjáls viðskipti með bréfin.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, er samþykkt voru á 116. löggjafarþingi, var kveðið á um að allir sparisjóðir verði stofnfjársjóðir með takmarkaðri ábyrgð. Stofnfé verði lagt fram af stofnendum sem verði eigendur stofnfjárhluta og verði ábyrgð hvers og eins takmörkuð við inngreidda stofnfjáreign hvers þeirra um sig. Starfandi sparisjóðum veitist þriggja ára frestur til að breyta samþykktum þannig að stofnfé komi í stað ábyrgða samkvæmt núgildandi lögum og fá stofnfjárframlög frá ábyrgðarmönnum og/eða öðrum í þeirra stað eða til viðbótar þeim.
    Með þeim lögum er stefnt að eigin fjármögnun sparisjóða með sambærilegum hætti við eigin fjármögnun hlutafélagabanka, þ.e. með sama hætti og almenningshlutafélaga.
    Í þeim lögum er m.a. kveðið á um rétt og takmörkun á rétti stofnfjárhluta, eða stofnfjárhlutabréfa, og stofnfjáreigenda. Er hann þar markaður með sambærilegum hætti og er um hlutabréf og hluthafa í hlutafélögum, í lögum um hlutafélög og í lögum um tekjuskatt og eignarskatt um skattalega meðferð hlutafjár, arðs og endurmats. Á það við um takmörkun ábyrgðar við inngreidda stofnfjáreign sem fyrr er nefnd, arð af innborguðu stofnfé, skattalega meðferð stofnfjár og arðs, endurmat og skattalega meðferð endurmats.
    Í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt er hins vegar ekki ráðgert að stofnendur og aðrir er leggi fram stofnfé í sparisjóði fái heimild til að draga frá tekjum sínum vegna þeirrar fjárfestingar með sama hætti og heimilt er þeim sem leggja fram hlutafé í samvinnufélögum og hlutafélögum, þar á meðal viðskiptabönkum sem eru hlutafélög, þ.e. hlutafélagabönkum.
    Réttmætt virðist að sparisjóðum verði veitt sömu réttindi til að stofnfjáreigendur fái frádregna frá skattskyldum tekjum fjárfestingu í sparisjóðum eins og í hlutafélögum og samvinnufélögum og þannig opnaðir möguleikar til að afla eigin fjár með sölu stofnfjárbréfa er standist samkeppni við hlutabréf sem fjárfestingarvalkostur.