Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 186 . mál.


299. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Inga Björns Albertssonar um kaup á björgunarþyrlu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað veldur því að ekki hefur enn verið gerður samningur um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna?

    Hinn 24. maí 1991 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að vinna að framgangi málsins. Í henni áttu sæti Björn Bjarnason alþingismaður, formaður, Þorsteinn Geirsson, ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu, Gunnar Bergsteinsson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Róbert Trausti Árnason, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu. Með nefndinni störfuðu ýmsir sérfræðingar og embættismenn.
    Nefndin skilaði skýrslu um flugrekstur Landhelgisgæslu Íslands (LHG) sem var m.a. dreift til alþingismanna. Í samræmi við ábendingu skýrslunnar var kannaður möguleiki á samvinnu við Bandaríkjamenn um þyrlurekstur. Í ljós kom að fyrir hendi var vilji til samstarfs á tilteknum sviðum, m.a. um samnýtingu varahluta og um þjálfunarmál ef keypt yrði þyrla af sams konar gerð og varnarliðið notar. Unnu ráðuneytisstjórar dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis að þessum athugunum.
    Eftir að þetta lá fyrir hefur gangur málsins verið sem hér segir:
    5. febrúar 1992 skipaði dómsmálaráðherra ráðgjafarhóp til að gera tillögur um val og aðstoða við kaup á hentugri björgunarþyrlu fyrir LHG. Í ráðgjafarhópinn voru skipaðir: Gunnar Bergsteinsson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar, Leifur Magnússon framkvæmdastjóri, Páll Halldórsson yfirflugstjóri, dr. Þorgeir Pálsson flugmálastjóri og Þorsteinn Þorsteinsson flugvélaverkfræðingur.
    Þessi hópur skilaði niðurstöðum um val á þyrlutegund í lok apríl 1992. Meginniðurstaða skýrslu ráðgjafarhópsins var að HH 60J (Sikorsky Jay Hawk), AS 332 L1 (Super Puma) og BT 214 ST (Bell Textron, Super Transport) þyrlur uppfylltu allar þær lágmarkskröfur sem gera yrði til tæknilegrar hæfni nýrrar björgunarþyrlu. AS 332 L1, Super Puma kæmist næst því að uppfylla ýtrustu óskir um afkastagetu og aðra tæknilega hæfni nýrrar björgunarþyrlu, en Sikorsky HH 60J kæmi vart til greina vegna hás rekstrarkostnaðar og var ekki talið að unnt væri að ná umtalsverðum sparnaði í rekstri með samvinnu við varnarliðið. Lagði ráðgjafarhópurinn til að leitað yrði samninga um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands á grundvelli greinargerðar ráðgjafarhópsins og var þriggja manna viðræðunefnd (þyrlukaupanefnd) skipuð til að vinna að kaupum á þyrlu, auk þess sem Albert Jónsson og Arnór Sigurjónsson voru af hálfu forsætisráðherra og utanríkisráðherra tilnefndir til ráðuneytis að því er varðaði viðræður við stjórnvöld í Bandaríkjunum. Skiluðu þeir Albert og Arnór skýrslu til þyrlukaupanefndar, dags. 4. nóvember 1992, þar sem gerð er grein fyrir þeim valkosti að fá þyrlu af gerðinni Pave Hawk sérútbúna fyrir Landhelgisgæsluna.
    Síðasta vor kallaði dómsmálaráðuneytið þyrlukaupanefnd saman á ný og var henni þá falið að fara yfir fyrri skýrslu sína frá í apríl 1992 með tilliti til breytinga og nýrra upplýsinga, m.a. varðandi möguleg kaup á þyrlu af Pave Hawk gerð.
    Niðurstaða viðbótargreinargerðar ráðgjafarhópsins, dags. 26 apríl 1993, var sú, eftir að hafa kynnt sér gögn um breytingar á Pave Hawk herþyrlu þannig að hún geti fullnægt almennum öryggis- og rekstrarkröfum Landhelgisgæslunnar, að ráðgjafarhópurinn studdi ekki tillögu um kaup íslenska ríkisins á slíkri Pave Hawk þyrlu. Tillögur ráðgjafarhópsins frá í apríl 1992 stóðu því óbreyttar.
    Albert Jónsson og Arnór Sigurjónsson skiluðu dómsmálaráðherra viðbótarathugasemdum. Þeir töldu að Pave Hawk með þeim búnaði sem um ræðir uppfyllti nauðsynlegar tæknilegar kröfur og ætti því að taka til athugunar ásamt öðrum þyrlutegundum sem það gera.
    4. maí ákvað ríkisstjórn að dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra skyldu leita eftir samningum um kaup á hentugri björgunarþyrlu á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir lágu og með aðstoð þeirrar viðræðunefndar sem skipuð hafði verið í samræmi við fyrri samþykkt ríkisstjórnar.
    Með minnisblaði til dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra frá 2. september sl. skilaði viðræðunefndin af sér drögum að kaupsamningi um notaða Super Puma þyrlu og er tillaga nefndarinnar að kaup verði gerð á þeim grundvelli.