Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 275 . mál.


350. Frumvarp til laga



um breytingar á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    4. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 47/1990, orðast svo:
4.1. Umhverfisráðuneytið fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.

2. gr.


    Í stað orðanna „heilbrigðisráðherra að því er varðar 2. gr. og umhverfisráðherra að því er varðar 3. gr. staðfesta“ í 3. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 47/1990, kemur: umhverfisráðherra staðfestir.

3. gr.


    Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vegna 2. gr. og umhverfisráðherra vegna 3. gr.“ í 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. a, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1993, kemur: umhverfisráðherra.

4. gr.


    5. mgr. 13. gr. orðast svo:
13.5. Stofnunin er til ráðuneytis yfirstjórn umhverfismála, heilbrigðismála, heilbrigðisnefndum og öðrum sem með opinbert heilbrigðiseftirlit fara.

5. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að færa yfirstjórn hollustuhátta og heilbrigðiseftirlits til umhverfisráðuneytis. Því fylgir að Hollustuvernd ríkisins færist til umhverfisráðuneytis frá og með næstu áramótum. Í frumvarpi þessu eru gerðar nauðsynlegar breytingar á lögunum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit vegna þessa tilflutnings.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er gerð sú breyting að í stað heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis að því er mengunarvarnir varðar komi eingöngu umhverfisráðuneyti. Þá er fellt niður hlutverk landlæknis um að vera ráðgjafi ráðherra og ríkisstjórnar um allt sem lýtur að hollustuháttum og heilbrigðiseftirliti. Þykir það óþarfi eftir að málasviðið heyrir ekki lengur undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Um 2. og 3. gr.


    Leiðir af tilflutningi yfirstjórnar málasviðsins.

Um 4. gr.


    Hér er gerð minni háttar breyting á 5. mgr. 13. gr. til að tryggja það að yfirstjórn heilbrigðismála geti leitað álits Hollustuverndar. Jafnframt er bætt inn í ákvæðið yfirstjórn umhverfismála.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn.


    Verði frumvarpið að lögum færist yfirstjórn hollustuhátta og heilbrigðiseftirlits, þar með talið Hollustuvernd ríkisins, frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Ekki verður séð að þessi ákvæði frumvarpsins muni ein og sér leiða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.