Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 290 . mál.


369. Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)


1. gr.

    Við 7. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er hljóðar svo:
    Í sveitarfélögum, þar sem slökkvilið er skipað fastráðnum starfsmönnum, má takmarka skyldur skv. 1. og 2. mgr. eða fella þær niður.
    Slökkviliðsstjóra er skylt að sjá um að slökkviliðsæfingar séu haldnar eins oft og áskilið er í reglugerð.

2. gr.

    8. gr. laganna hljóðar svo:
    Félagsmálaráðherra er heimilt að veita slökkviliðsmanni löggildingu þegar hann hefur lokið grunnnámi fyrir slökkviliðsmenn og jafnframt gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi í a.m.k. eitt ár samfellt.
    Félagsmálaráðherra setur nánari ákvæði um grunnnám og aðra menntun slökkviliðsmanna í reglugerð.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Samningsréttarmál slökkviliðsmanna hafa verið óleyst um nokkurn tíma. Viðsemjendur slökkviliðsmanna, þ.e. samninganefnd ríkisins, launanefnd sveitarfélaga og Reykjavíkurborg, hafa ekki viðurkennt rétt Landssambands slökkviliðsmanna til að fara með samningsumboð við gerð kjarasamninga fyrir slökkviliðsmenn. Helsta ástæðan fyrir þessum ágreiningi er sú að viðsemjendur slökkviliðsmanna hafa ekki talið Landssamband slökkviliðsmanna uppfylla skilyrði laga til að geta talist fagstéttarfélag, sbr. 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Í því skyni að leysa fyrrgreindan ágreining er lagt til í þessu frumvarpi að starfsréttindi slökkviliðsmanna verði bundin í lög þannig að félagsmálaráðherra verði heimilt að veita slökkviliðsmönnum löggildingu að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum um menntun og starfsreynslu.

Athugasemdir við einstakar greinar lagafrumvarpsins.

Um 1. gr.

    Lagt er til að núverandi 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna flytjist í 7. gr. og verði þar 3. og 4. mgr. Engar efnislegar breytingar eru lagðar til á ákvæðunum.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er lagt til að 8. gr. laganna fjalli um starfsréttindi slökkviliðsmanna. Þannig verði félagsmálaráðherra veitt heimild til að veita slökkviliðsmanni löggildingu er hann hefur lokið grunnnámi fyrir slökkviliðsmenn, sbr. nú reglugerð nr. 197/1991 um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna. Jafnframt er gert ráð fyrir því að sá sem vill fá löggildingu sem slökkviliðsmaður hafi öðlast tiltekna starfsreynslu á því sviði, þ.e. verið slökkviliðsmaður að aðalstarfi í a.m.k. eitt ár samfellt.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um

brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992.

    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að það sé flutt til þess að leysa samningsréttarmál slökkviliðsmanna sem hafa verið óleyst um nokkurn tíma. Viðsemjendur slökkviliðsmanna hafa ekki viðurkennt rétt Landssambands slökkviliðsmanna til að fara með samningsumboð við gerð kjarasamninga fyrir slökkviliðsmenn. Helsta ástæðan fyrir ágreiningnum er að Landssambandið uppfylli ekki skilyrði laga til að geta talist fagstéttarfélag skv. 3. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Tilgangur lagabreytingarinnar er að leysa þennan ágreining þannig að félagsmálaráðherra verði heimilt að veita slökkviliðsmönnum löggildingu að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum um menntun og starfsreynslu.
    Út af fyrir sig leiðir samþykkt frumvarpsins ekki til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort samningsréttur Landsambandsins leiði til hærri launa slökkviliðsmanna. Slíkar hækkanir koma niður á viðkomandi sveitarfélögum en samkvæmt ákvæðum í 4. gr. laga um brunavarnir og brunamál greiðist kostnaður við slökkvistarf og eldvarnaeftirlit úr sveitarsjóði.