Ferill 187. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 187 . mál.


388. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Einars Más Sigurðarsonar um kynningu og eftirlit með framkvæmd samnings um réttindi barna.

    Hvernig hefur verið staðið að kynningu á meginreglum og ákvæðum samnings um réttindi barna sem var fullgiltur fyrir Íslands hönd 28. október 1992, sbr. 42. gr. hans?
    Í júlímánuði 1992 komu fulltrúar samtakanna Barnaheilla á fund dómsmálaráðherra og buðu fram aðstoð sína við íslensk stjórnvöld við að kynna samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. 11. september sama ár barst ráðherra síðan bréf samtakanna þar sem framangreint tilboð var ítrekað og jafnframt lýst með hvaða hætti kynningin væri fyrirhuguð. Var þar getið um ráðstefnu dagana 30. og 31. október 1992 þar sem fjalla átti um samninginn frá ýmsum sjónarhornum og einstakar greinar hans. Um svipað leyti átti að koma út bæklingur þar sem helstu greinar samningsins yrðu skýrðar á aðgengilegan hátt í máli og myndum. Þá kom fram að Barnaheill hefðu látið gera stuttmynd um samninginn sem fyrirhugað væri að sýna í sjónvarpi. Loks var getið um kennsluefni um samninginn fyrir grunnskólabörn, fyrirlestra í framhaldsskólum og meðal frjálsra félagasamtaka o.fl. Í bréfinu var lausleg kostnaðaráætlun við kynninguna tilgreind 2.250.000 kr.
    Af tilefni bréfs Barnaheilla fól ráðherra starfsmanni ráðuneytis að tilkynna fulltrúa samtakanna að hann væri þá þegar reiðubúinn að leggja fram 200 þús. kr. til kynningar á samningnum og til viðræðu um framhaldið. Var það gert í símtali við þáverandi varaformann Barnaheilla 24. september 1992. Var talið að kynning á samningnum væri eftir það í höndum samtakanna Barnaheilla í samræmi við það sem fram kom í fyrrgreindu bréfi enda var hvorki haft samband við ráðherra né starfsmenn ráðuneytisins eftir það fyrr en starfsmenn ráðuneytisins könnuðu málið af tilefni fyrirspurnar þessarar. Starfsmenn ráðuneytisins fylgdust með því að fyrirhuguð ráðstefna var haldin í lok október 1992 og að erindi þau, sem þar voru haldin, voru birt í myndarlegu blaði samtakanna, 1. tölublaði 1993. Þá barst ráðuneytinu bæklingur sá sem greint var frá í bréfinu.
    Er fyrirspurn þessi kom fram hafði starfsmaður ráðuneytisins samband við fulltrúa samtakanna til þess að kanna hvað frekar hefði verið aðhafst af þeirra hálfu til kynningar á samningnum. Í símtali starfsmanns ráðuneytisins við núverandi varaformann 11. nóvember sl. og í framhaldi af því í bréfum samtakanna frá 15. nóvember sl. kom fram að samtökin hefðu ekki tekið við þeim 200 þús. kr. er boðnar voru í september 1992 og jafnframt var tekið fram að stjórn Barnaheilla hefði aldrei litið svo á að samtökin hefðu formlega tekið að sér að kynna samninginn. Í bréfinu er loks tekið fram að stjórnin lýsi sig reiðubúna til samstarfs við stjórnvöld um nánari kynningu samningsins. Tilboð Barnaheilla er nú til skoðunar í ráðuneytinu á nýjan leik og verður svarað fljótlega.
    Auk þeirrar kynningar, er samtökin Barnaheill hafa staðið að, hefur lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu haldið erindi um samninginn á málþingum á vegum Rauða krossins og Bernskunnar, Íslandsdeildar OMEP-samtakanna, sem síðan voru gefin út á prenti. Þá hefur birst grein um samninginn í tímariti laganema, Úlfljóti, 2. tölublaði 1993, eftir lögfræðing í dómsmálaráðuneytinu og þjóðréttarfræðing í utanríkisráðuneytinu. Loks hefur samningurinn verið gefinn út ásamt öðrum alþjóðlegum mannréttindasamningum í riti er málflutningsstofa hér í Reykjavík gaf út í fyrra.
    Varðandi áframhaldandi kynningu á samningnum um réttindi barna, sem ljóst er að fara þarf fram reglulega í framtíðinni, hefur ráðherra ákveðið að skipa starfshóp með fulltrúum frá dómsmálaráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu til þess að kanna og gera tillögur um hvernig rétt sé að standa að frekari kynningu á samningnum en þegar hefur verið gert og til skoðunar á öðru því er íslenskum stjórnvöldum ber að vinna að samkvæmt ákvæðum samningsins.

    Hver er áætlaður kostnaður við kynningu á samningnum á næsta ári?
    Kostnaður við kynningu á samningnum á næsta ári hefur ekki verið áætlaður nákvæmlega. Á sparnaðartímum sem þessum verður leitast við að kynna samninginn á fullnægjandi hátt án mikils tilkostnaðar. Mun starfshópur sá, sem getið er um í fyrsta lið að framan, m.a. taka þetta atriði til skoðunar.

    Hvernig er staðið að eftirliti með framkvæmd samningsins?
    Sérstakir eftirlitsaðilar hafa ekki verið skipaðir til þess að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins enda ekki ráð fyrir því gert í samningnum. Við gerð skýrslu þeirrar, sem ríkisstjórninni er skylt að láta í té skv. 44. gr. samningsins, mun verða safnað upplýsingum frá hverju ráðuneyti á þeim sviðum er undir það heyra. Starfshópur sá, er greint hefur verið frá, mun m.a. taka þetta atriði til skoðunar.

    Hvernig miðar skýrslugerð um framkvæmd samningsins sem láta skal í té eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna innan tveggja ára frá gildistöku samningsins?
        Hverjir vinna að gerð skýrslunnar?

    Skýrslugerð um framkvæmd samningsins er ekki hafin en þess má vænta að undirbúningur að gerð hennar hefjist í ársbyrjun 1994.