Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 500 . mál.


767. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)



1. gr.


    1. gr. laganna orðast svo:
    Merking orða í þessum lögum er sem hér segir:
     Alifiskur: Fiskur sem alinn er eða látinn ganga sjálfala í tjörnum eða ílátum.
     Almenningur í stöðuvatni: Sá hluti stöðuvatns sem liggur fyrir utan 115 m breitt vatnsbelti (netlög) landareigna þeirra sem að vatninu liggja.
     Á: Straumvatn frá ósasvæði til upptaka.
     Áll: Sá staður langs eftir vatni, stöðuvatni eða straumvatni þar sem dýpi er mest milli grynninga eða sandeyra sem eigi teljast bakkar. Nú eru fleiri álar en einn og heitir sá höfuðáll sem vatnsmestur er.
     Bakki: Fast takmark á farvegi straumvatns eða legi stöðuvatns, svo sem klettar, gróið land eða eyrar sem vatn fellur eigi yfir í meðalvexti eða sjór um stórstraumsflæði.
     Dráttur: Staður í veiðivatni þar sem ádráttarveiði verður við komið.
     Eldisfiskur: Sjá alifiskur.
     Eldisstofn: Hópur laxfiska alinn í eldisstöð undan fiski sem alið hefur allan sinn aldur í fiskeldisstöð.
     Félagsveiði: Félagsskapur eigenda eða notenda veiðiréttar um sameiginlega hagnýtingu veiðihlunninda.
     Fiskeldi: Geymsla, gæsla og fóðrun laxfiska, hafbeit, klak- og seiðaeldi, hvort sem er í söltu eða ósöltu vatni.
     Fiskeldisstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki er nýtt í þágu fiskeldis.
     Fiskihverfi: Veiðivatn eða -vötn sem sami fiskstofn byggir og fer um fram og aftur eða ætla má að sami fiskstofn byggi og fari um fram og aftur þá er ræktaður hefur verið.
     Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fiskmagn veiðivatns, sbr. 2. mgr. 44. gr.
     Fiskræktarslepping: Slepping samstofna smáseiða eða gönguseiða til aukningar á fiskgengd í veiðivatni.
     Fiskur: Lax (Salmo salar), silungur (Salmo trutta og Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur (Oncorhynchus mykis), áll (Anguilla anguilla) eða annar vatnafiskur ef ræktaður verður.
     Fiskvegur: Hvers konar mannvirki er gerir veiðivötn fiskgeng eða greiðir fiskför um þau.
     Föst veiðivél: Veiðitæki sem fest er í vatni og fiskur getur ánetjast í eða króast af, svo sem lagnet, króknet, kista og girðing.
     Geldstofn: Laxfiskur sem ekki framleiðir frjóar kynfrumur.
     Göngusilungur: Silungur er gengur í sjó í ósalt vatn, svo sem sjóbirtingur (urriði) og sjóreyður (bleikja).
     Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og veiði kynþroska fiska til slátrunar er þeir ganga úr sjó í ferskt vatn.
     Hafbeit til stangaveiði: Slepping gönguseiða í veiðivatn með takmarkaða laxaframleiðslu til aukningar á fiskgengd til stangaveiði.
     Hafbeitarstofn: Hópur laxfiska sem klakinn hefur verið út undan fiski úr hafbeit.
     Hafbeitarstöð: Staður þar sem vatn, sjór, land eða mannvirki er nýtt í þágu hafbeitar.
     Jörð: Lögbýli samkvæmt ábúðarlögum.
     Kvíaeldi: Fiskeldi í netkvíum (netbúrum) í fersku vatni eða söltu.
     Kvísl: Hluti af straumvatni sem fellur sér milli bakka.
     Laxastofn: Hópur laxa sem hrygnir á tilteknum stað og á tilteknum tíma og hrygnir ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða á öðrum tíma.
     Lögn: Staður í vatni þar sem fastri veiðivél verður við komið.
     Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að straumvatni eða stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
     Ós í á: Sá staður þar sem straumur þverár sameinast straumi höfuðár.
     Ós í sjó: Sá staður þar sem straumur ár hverfur í sjó um stórstraumsfjöru.
     Ós í stöðuvatn: Sá staður þar sem straumur ár hverfur í stöðuvatn.
     Ós úr stöðuvatni: Sá staður þar sem straumlína ár hefst í stöðuvatni.
     Ósasvæði: Svæði í straumvatni er nær frá ósi í sjó upp til þess staðar þar sem straumlína hverfur um stórstraumsflæði.
     Sjór: Salt vatn utan árósa.
     Strandeldi: Eldi laxfiska til slátrunar í tönkum eða kerum á landi.
     Straumlína (strengur): Lína sem liggur eftir endilöngu straumvatni um þá staði þess þar sem straumur er mestur.
     Straumvatn: Ósalt vatn, á eða ósasvæði sem í er greinilegur straumur, þá er enginn vöxtur er í, og um stórstraumsfjöru.
     Stöðuvatn: Ósalt vatn sem eigi er í greinilegur straumur annar en sá sem stafar af sjávarföllum, vindi eða aðrennsli í leysingum.
     Umhverfismat: Heildstætt mat eða úttekt á áhrifum eða afleiðingum, ásamt lýsingu á þeim, sem framkvæmdir kunna að hafa á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag.
     Vatn: Ósalt vatn með föstu legi eða farvegi, straumvatn eða stöðuvatn.
     Vatnasilungur: Silungur sem elur allan aldur sinn í ósöltu vatni, svo sem vatnaurriði vatnableikja (reyður), lækjasilungur og murta.
     Veiðihlutur: Hundraðshluti jarðar í veiði vatns samkvæmt arðskrá.
     Veiðimagn: Samanlögð þyngd veiddra fiska.
     Veiðimál: Hvers konar mál er lúta að lax-, silungs- og álaveiði, fiskrækt eða fiskeldi.
     Veiðitala: Tala veiddra fiska.
     Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar.
     Veiðivél: Sjá föst veiðivél.
     Villtur laxastofn: Hópur laxfiska sem klekst út og elst upp í veiðivatni.
    

2. gr.


IV. kafli laganna, Um veiðistjórn lax og göngusilungs og fiskrækt, orðast svo:
    
    a. (14. gr.)
    1. Eigi má veiða lax í sjó og ekki silung utan netlaga.
    2. Nú veiðist lax í sjó í veiðitæki, sem ætluð eru til veiði annarra fiska, og skal þá þeim er veiðir skylt að sleppa honum lifandi eða dauðum í sjó aftur og þannig skal óheimilt að koma með slíkan fisk í land.
    3. Nú hefur laxveiði í sjó verið metin sérstaklega til dýrleika í fasteignamati því er öðlaðist gildi árið 1932 eða tillit hefur verið tekið til hennar við ákvörðun fasteignaverðs í því mati og er þá sú veiði leyfileg.
    4. Veiði lax og göngusilungs í sjó skal hlíta sömu reglum sem veiði í ósöltu vatni eftir því sem unnt er. Ráðherra setur reglur um þessa veiði.
    5. Nú liggur veiðivatn eða hafbeitarstöð svo nærri sjávarveiði, slíkri sem getur í 3. mgr., að veiðimálastjóri telji að sjávarveiðin rýri veiði í vatninu eða hjá stöðinni en veiðieigendur í vatninu, einn eða fleiri, eða eigendur hafbeitarstöðvar vilja leysa sjávarveiðina til sín og er ráðherra þá rétt að leyfa það að fengnu samþykki veiðimálanefndar. Um mat á andvirði veiðiréttar og greiðslu þess fer eftir því sem segir í 94. og 96. gr.
    6. Frá hverri jörð, er liggur að sjó, skal heimilt að hafa mest tvö silungslagnet samtímis í sjó. Um aðrar landareignir, sem liggja að sjó, gildir sú regla að miða lagnetafjölda við þann fjölda jarða sem viðkomandi landareign tilheyrði áður. Nú getur landeigandi sýnt fram á að fleiri lagnir hafi verið í notkun skv. 5. mgr. 27. gr. laga þessara og eldri laga og er þá heimilt að fjölga netum að því marki svo fremi að það stangist ekki á við önnur ákvæði laga þessara. Rétt er ráðherra að setja reglur um veiði þessa.
    7. Rétt er ráðherra að takmarka eða banna veiði göngusilungs í sjó á tilteknum svæðum og um tiltekinn tíma enda komi ósk um slíka friðun frá einstökum veiðieigendum eða veiðifélagi sem ætla verði að njóti góðs af friðun þessari. Um mat á bótum vegna slíkrar takmörkunar fer skv. 94. og 96. gr., en bætur skulu greiddar af þeim sem takmörkunar óskar.
    8. Með sama skilorði og í 7. mgr. segir er ráðherra rétt að banna veiði fiska framan við árósa þar sem hætta er á að lax og silungur geti veiðst í veiðiútbúnað sem ætlaður er til slíkrar veiði.

    b. (15. gr.)
    1. Veiða má silung í sjó á færi og á stöng, í ádráttarnet og í lagnet, þó eigi á lóð, í króknet, fleygnætur, herpinætur né önnur veiðitæki þau er lax má í veiða.
    2. Eigi má leggja net né hafa ádrátt í sjó nær ósi straumvatns eða þeim stað er fiski er ætlað að ganga í hafbeitarstöð en 2.000 metra á tímabilinu 1. mars til 1. október enda gangi fiskur í það vatn. Fullt samráð skal hafa við viðkomandi veiðifélag eða hafbeitarstöð varðandi ráðstöfun stangaveiði á þessu svæði. Rétt er ráðherra eftir tillögum veiðimálastjóra að takmarka stangaveiði á friðuðu svæði við ós og setja reglur um veiðitæki og möskvastærð neta við slíka ósa. Þó getur ráðherra að fengnu áliti veiðimálastjóra leyft ádrátt fyrir síld og loðnu á friðuðu svæði tiltekinn tíma árs.
    3. Til verndunar villtra laxastofna er ráðherra rétt að fengnum tillögum veiðimálastjóra að friða tiltekin svæði í sjó í nágrenni mikilvægra veiðivatna þar sem ekki verði heimiluð starfsemi á sviði fiskeldis og hafbeitar með laxfiska. Ráðherra skal setja reglur um þessi friðunarsvæði.

    c. (16. gr.)
    1. Eigi má hafa ádrátt í ósi straumvatns eða ósasvæði.
    2. Eigi má veiða fisk í ósum í ár eða ósum í stöðuvötn og eigi 100 metra upp frá slíkum ósum eða 250 metra niður frá þeim. Eigi má heldur veiða fisk í ósum úr stöðuvötnum þeim er lax eða göngusilungur fer um né 50 metra upp eða niður frá slíkum ósum.
    3. Ráðherra getur eftir tillögum veiðimálastjóra veitt undanþágu að nokkru leyti eða öllu frá banni því er ræðir um í 1. og 2. mgr. þar sem svo hagar til að veiði í ós eða við er eigi talin skaðvænleg.
    4. Ráðherra er rétt með samþykki veiðimálanefndar, hlutaðeigandi veiðifélags og eftir tillögum veiðimálastjóra að banna alla veiði eða tilteknar veiðiaðferðir upp eða niður frá ósi enda þyki það nauðsynlegt til viðhalds veiði í vatni. Bann þetta skal standa tiltekinn tíma og má binda það því skilorði að veiðieigendur eða ábúendur greiði bætur þeim aðila sem öðrum fremur missir af veiði vegna slíks banns. Ákveða má bætur með mati skv. 94. gr. ef eigi semst.
    
    d. (17. gr.)
    Í straumvatni eða hluta straumvatns þar sem veiði er stunduð með föstum veiðivélum skal fiskur eiga frjálsa för eftir miðju vatni og nefnist þar gönguhelgi. Hún tekur yfir þriðjung af breidd straumvatns um miðbik en helming af breidd óss eða ósasvæðis. Þó skal fiskur eiga frjálsa för eftir aðalstraumlínu þótt skemmra liggi frá bakka en nemi þriðjungi af breidd vatns. Nú greinir menn á um gönguhelgi eða aðalstraumlínu og má þá skjóta þeim ágreiningi til mats skv. 94. gr.
    
    e. (18. gr.)
    1. Eigi má veiða lax nema á tímabilinu frá 20. maí til 30. september ár hvert. Nú telst sannað að fiskur hrygni í veiðivatni í september og er ráðherra þá rétt eftir tillögum veiðimálastjóra að ákveða að veiðitíma ljúki fyrr í því vatni. Ádráttarveiði er eigi heimil eftir 31. ágúst.
    2. Á tímabili því, er getur í 1. mgr., má hvergi stunda laxveiði lengur en 3 og 1 / 2 mánuð. Rétt er ráðherra að setja nánari reglur um veiðitíma í vatni hverju að fengnum tillögum stjórnar hlutaðeigandi veiðifélags og veiðimálanefndar og með samþykki veiðimálastjóra.
    3. Göngusilung má veiða frá 1. apríl til 10. október ár hvert. Þó skulu lok veiðitíma göngusilungs í veiðivatni, þar sem megnið af veiðinni er villtur laxastofn, miðast við 30. september, skv. 1. mgr. Þá er sérstaklega stendur á getur ráðherra eftir tillögum veiðimálastjóra leyft að göngusilungur sé veiddur utan þess tíma í lagnet, á stöng, á dorg og færi.
    4. Frá 1. apríl og þar til laxveiði hefst má eigi nota önnur veiðitæki til veiði göngusilungs en stöng og færi, lagnet og ádráttarnet.
    5. Nú veiðist lax á tímabilinu frá 1. apríl og þar til laxveiðitími hefst og er þeim er veiðir skylt að sleppa honum í vatn aftur.
    6. Á friðunartíma þeim sem getur í þessari grein skulu allar fastar veiðivélar teknar upp úr veiðivatni, sbr. þó 3. mgr.
    
    f. (19. gr.)
    1. Á veiðitíma þeim er getur í 18. gr., skal lax og göngusilungur vera friðaður gegn allri veiði, annarri en stangaveiði, 84 stundir á viku hverri, frá föstudagskvöldi kl. 10 til þriðjudagsmorguns kl. 10. Friðunartíma þennan má stytta í 60 stundir á viku sé að dómi veiðimálastjóra, veiðimálanefndar og hlutaðeigandi veiðifélags engin hætta á að um þverrandi fiskstofn sé að tefla á viðkomandi veiðisvæði. Með sama skilorði má lengja friðunartímann um allt að 24 stundir verði talin hætta á þverrandi fiskstofni í fiskihverfinu eða til jöfnunar fiskgengd í því vatni. Ádrátt má aldrei hafa frá kl. 9 síðdegis til kl. 9 árdegis og aldrei nema tvo daga í viku hverri, þriðjudag og miðvikudag. Stangaveiði og veiði með færi má stunda frá sólarupprás til sólseturs, þó aldrei á tímabilinu frá kl. 3 eftir miðnætti til kl. 7 árdegis og aldrei lengur en 12 klst. á sólarhring hverjum. Rétt er að setja nánari reglur um daglegan stangaveiðitíma með sama hætti og ákveðið er í 2. mgr. 18. gr. Nú fer lax og göngusilungur um stöðuvatn og skal hann friðaður þar svo sem nú var sagt.
    2. Ráðherra er rétt að ákveða að friðun sú sem getur í 1. mgr. skuli gilda aðra daga ofar í straumvatni en neðar enda telji veiðimálastjóri það nauðsynlegt til jöfnunar fiskgengdar í því vatni.
    
    g. (20. gr.)
    Ráðherra er rétt eftir tillögum veiðimálastjóra og með samþykki veiðimálanefndar að friða tiltekin svæði í vatni þar sem fiskur safnast saman til hrygningar eða vegna fyrirstöðu á göngu, svo sem undir fossum enda telji veiðimálastjóri að veiði á þeim stöðum sé hættuleg fiskstofni vatnsins. Friðun þessa má binda tiltekinn tíma. Slík friðun er því skilyrði háð að veiðieigendur eða ábúendur í fiskihverfi greiði bætur þeim aðila sem missir verulega og öðrum fremur af veiði vegna friðunar. Ákveða má bætur með mati skv. 94. gr. ef eigi semur.
    h. (21. gr.)
    Ráðherra er rétt eftir tillögum veiðimálastjóra að friða heilt vatn gegn allri veiði eða einstökum veiðiaðferðum enda sé sú friðun nauðsynleg til verndar fiskstofni þess vatns en leita skal hann samþykkis hlutaðeigandi veiðifélags og veiðimálanefndar.
    
    i. ( 22. gr.)
    1. Þrátt fyrir ákvæði 16.–21. gr. svo og ákvæði 38. gr. er leyfilegt að veiða lax og silung til vísindalegra rannsókna og eru slíkar veiðar undanþegnar friðunarákvæðum laga þessara.
    2. Til veiði þeirrar er getur í 1. mgr. þarf veiðiskírteini. Ráðherra gefur út veiðiskírteini að fengnum meðmælum veiðimálastjóra. Veiðiskírteinið skal gefið út handa einstaklingi og gildir það um tiltekinn tíma.
    
    j. ( 23. gr.)
    1. Skylt er að gera fiskræktaráætlun, er nái til fimm ára í senn, í hverju veiðivatni þar sem ætlunin er að stunda fiskrækt með sleppingu seiða, hafbeit til stangaveiði eða öðrum atriðum fiskræktar sem um getur í 2. mgr. 44. gr.
    2. Fiskræktaráætlun skv. 1. mgr. er háð samþykki veiðimálastjóra, enda hafi veiðifélag eða meiri hluti veiðieigenda við veiðivatn ákveðið að ráðast í slíka framkvæmd. Í leyfið skal setja skilyrði, sem veiðimálastjóri telur nauðsynleg til verndar viðkomandi fiskstofni gegn sjúkdómum og erfðablöndun og nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur.
    3. Nú vill veiðifélag eða meiri hluti veiðieigenda við veiðivatn láta veiða lax og silung til hrognatöku í því vatni og er það háð leyfi veiðimálastjóra með samþykki ráðherra. Leyfið gildir um tiltekinn tíma og í það skal setja skilyrði sem eru nauðsynleg til verndar fiskstofni skv. 2. mgr. og felur í sér heimild skv. 1. mgr. 22. gr.
    4. Ráðherra getur skv. 1. og 2. mgr. heimilað notkun hafbeitarstofns úr sama landshluta til hafbeitar á laxi í veiðivatni enda sé fullnægt skilyrðum um samþykki veiðieigenda við veiðivatnið sem um getur í 2. mgr.
    

3. gr.


V. kafli laganna, Um veiðistjórn vatnasilungs, orðast svo:
    
    a. (24. gr.)
    1. Vatnasilung er heimilt að friða fyrir allri veiði ef ástæða þykir til. Veiðimálastjóri skal ákveða lengd friðunartíma í vatni hverju í samráði við hlutaðeigandi veiðifélag.
    2. Ráðherra er rétt að fengnum tillögum veiðimálastjóra að ákveða allt að tveggja sólarhringa friðun á viku hverri í stöðuvatni.
    3. Ef beitt er ákvæðum 1. mgr. um friðun í vatni er ráðherra rétt eftir tillögum veiðimálastjóra að leyfa lagnetaveiði til heimilisnota á friðunartíma. Leyfi þetta skal binda nauðsynlegum skilyrðum til að tryggja að hrygnandi fiskur verði eigi veiddur á þennan hátt, svo sem skilyrði um fjarlægð lagna frá hrygningarstöðvum.
    4. Ráðherra getur eftir tillögum veiðimálastjóra sett reglur um friðun vatnasilungs þar sem hann hrygnir að sumarlagi.
    
    b. (25. gr.)
    Nú telst rétt að uppræta fisk úr veiðivatni svo sem vegna sjúkdóma eða til þess að rækta aðrar fisktegundir en þær er fyrir voru í vatninu og skal ráðherra heimilt að fengnum meðmælum veiðimálastjóra og með samþykki eiturefnanefndar að leyfa notkun sérstakra efna við eyðingu fiskstofns vatns með þeim skilyrðum sem þurfa þykir.
    
    c. (26. gr.)
    Ákvæði 22. gr. taka einnig yfir veiði vatnasilungs.
    

4. gr.


VII. kafli, Um fiskvegi og aðra mannvirkjagerð í og við veiðivötn, orðast svo:
    
    a. (39. gr.)
    1. Ráðherra er rétt að leyfa að gerður sé fiskvegur í vatni eða meðfram vatni enda samþykki veiðimálastjóri gerð fiskvegar og hafi umsjón með framkvæmd verksins.
    2. Hverjum manni er skylt að láta af hendi land, landsafnot, vatn eða afnot vatns, er með þarf til fiskvegar, og þola verður hann þær eignarkvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti sem fiskvegurinn kann að hafa í för með sér enda komi fullar bætur fyrir eftir mati nema samkomulag verði.
    3. Um breytingu á fiskvegi eða vatnsmagni í honum fer eftir því sem segir í 1. og 2. mgr.
    
    b. (40. gr.)
    Eigi má veiða eða styggja fisk í fiskvegi né nær neðra mynni hans en 30 metra og eigi nær efra mynni hans en 20 metra. Eigi má spilla fiskvegum né tálma með nokkrum hætti fiskför að þeim né um þá.
    
    c. (41. gr.)
    1. Nú er stífla gerð í veiðivatni eða önnur mannvirki sem tálma fiskför í vatninu og eru eigi lögleg veiðitæki og skal þá þeim er gera lætur skylt að gera fiskveg í vatninu eða meðfram því til þess að fiskur geti átt jafngreiða för um það og áður. Honum er skylt að halda fiskveginum við. Gerð fiskvegar er háð samþykkki veiðimálastjóra og skal verkið unnið undir umsjón hans.
    2. Ákvæði 1. mgr. gilda eigi:
    ef vatn er eigi fiskgengt af öðrum ástæðum,
    ef mannvirki lýtur að því að bæta veiðiskilyrði eða lífsskilyrði í veiðivatni og það hefur verið samþykkt á aðalfundi veiðifélags enda sé það háð samþykki veiðimálastjóra á sama hátt sem fiskvegur,
    ef talið er í matsgerð að gerð fiskvegar og viðhald hafi meiri kostnað í för með sér en hagnaði af veiði nemur enda séu þá veiðispjöll þau, er af mannvirkinu leiðir, bætt fullum bótum.
    3. Heimilt er eignarnám, svo sem segir í 2. mgr. 39. gr., til fiskvegar sem gerður er samkvæmt þessari grein.
    
    d. ( 42. gr.)
    1. Nú er vatni veitt úr veiðivatni til áveitu, vatnsveitu eða annarra áþekkra nota eða vatni er veitt í veiðivatn úr áveituskurði, vatnsveituskurði, öðrum skurði eða leiðslu og getur þá veiðimálastjóri krafist þess að búið sé svo um skurð eða leiðslu að fiskur eða fiskseiði gangi eigi í. Kostnað af umbúnaði þessum greiðir eigandi veitu.
    2. Nú verða tíðar breytingar á vatnsmagni veiðivatns vegna vatnsmiðlunar og skal þá haga miðlun þannig að sem minnst tjón hljótist á fiskstofni veiðivatns. Svo skal og til haga þá er uppistöður eru tæmdar, svo sem vegna hreinsunar. Hafa skal samráð við veiðimálastjóra um þetta.
    
    e. (43. gr.)
     Nú er fyrirhugað að taka jarðefni eða gera mannvirki í eða við veiðivatn, sem hætta er á að hafi áhrif á lífríki vatnsins, og skal þá veiðimálastjóri láta fara fram líffræðilega úttekt á viðkomandi veiðivatni áður en ráðist er í framkvæmdina. Kostnað af úttektinni greiðir sá er að framkvæmdum stendur. Þegar niðurstaða liggur fyrir skal heimilt að ráðast í viðkomandi framkvæmdir enda samþykki veiðimálastjóri tilhögun þeirra.

5. gr.


IX. kafli laganna, Um fiskeldi og hafbeit, orðast svo:
    
    a. (62. gr.)
    1. Til fiskeldis og hafbeitar þarf leyfi landbúnaðarráðherra að fenginni umsögn veiðimálastjóra.
    2. Nú æskir maður þess að taka upp fiskeldi, þar á meðal kvíaeldi eða hafbeit á laxfiskum, og skal hann senda umsókn um rekstrarleyfi til veiðimálstjóra um það. Umsókn skulu fylgja skilríki um afnot lands, vatns og sjávar, svo og áætlun um rekstur og kostnaðaráætlun, auk heimildar til mannvirkjagerðar og starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga er varða slíkan atvinnurekstur.
    3. Er slíkum skilríkjum skv. 2. mgr. hefur verið skilað skal veiðimálastjóri gera úttekt á stöðinni og teljist frágangur fullnægjandi skal veiðimálastjóri senda ráðherra umsögn sína. Ráðherra gefur síðan út rekstrarleyfi og öðlast starfsemin þar með réttindi skv. 66. gr. Ráðherra er rétt að setja skilyrði í reglugerð.
    
    b. (63. gr.)
    Skylt er að láta af hendi við veiðifélag land eða landsafnot, vatn eða afnot vatns, er þarf til byggingar og starfsemi klakstöðvar eða klak- og eldisstöðvar, svo og þola þær eignarkvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti er bygging slíkra stöðva eða starfsemi kann að hafa í för með sér enda komi fullar bætur fyrir eftir mati nema samkomulag verði.
    
    c. (64. gr.)
    1. Nú er vatn tekið úr veiðivatni til afnota í eldisstöð og skal þá búa svo um vatnsleiðslur að eldistjörn og frá að fiskur gangi eigi úr veiðivatni í leiðslur. Umbúnaður slíkra vatnsleiðslna skal háður samþykki veiðimálastjóra.
    2. Nú er straumvatn stíflað vegna eldisstöðvar og fer þá um gerð stíflu skv. 41. gr.
    
    d. (65. gr.)
    Nú truflar vatnstaka til eldisstöðvar göngu fisks í veiðivatni og skal þá haga vatnstöku svo að hún valdi sem minnstri truflun. Tilhögun vatnsveitu skal háð samþykki veiðimálastjóra.
    
    e. (66. gr.)
    Friðunarákvæði þessara laga svo sem um gönguhelgi, veiðitíma, stærð fisks, veiðitæki og veiðiaðferðir taka ekki til veiða á eigin fiski í eldisstöðvum, hafbeitarstöðvum né í eldiskvíum.
    
    f. (67. gr.)
    Þrátt fyrir ákvæði 66. gr. skal ráðherra eftir tillögum veiðimálastjóra og með samþykki veiðimálanefndar setja reglur um töku á laxi er kemur úr sjó í hafbeitarstöð og um merkingar og sýnatöku úr fiskinum.
    
    g. (68. gr.)
    Ráðherra er rétt að fengnum rökstuddum tillögum veiðimálastjóra að ákveða árlega hámarkssleppingu í hafbeit enda sé talin hætta á að sleppingin raski jafnvægi laxastofna eða annarra nytjafiska í hafinu.
    
    h. (69. gr.)
    Forráðamenn eldisstöðva, hafbeitarstöðva og kvíaeldis skulu gefa veiðimálastjóra árlega skýrslu um starfsemi stöðvanna, svo sem framleiðslumagn, eldisrými, fóðurnotkun, birgðir af fiski, uppruna hans og önnur atriði sem nauðsynleg þykja.
    
    i. (70. gr.)
    Nú veldur eldisstöð rýrnun á veiði í vatni og skal þá bæta tjónið eftir mati ef eigi semur.
    
    j. (71. gr.)
    Ráðherra er rétt að fengnum meðmælum veiðimálastjóra að ákveða friðunarsvæði í sjó framan við frárennsli fiskeldis- og hafbeitarstöðva á sama hátt og ákveðið er í 7. og 8. mgr. 14. gr.

    k. (72. gr.)
    Ráðherra er rétt samkvæmt meðmælum veiðimálanefndar og veiðimálastjóra að heimila hafbeitarstöð laxveiði í sjó innan 200 metra frá frárennsli hennar, ósi í sjó, enda hafi gönguseiðum verið sleppt í frárennslið í því skyni að þau gangi í sjó og komi aftur upp í stöðina að sjávarvist lokinni.
    
    l. (73. gr.)
    Missi fiskeldisstöð með rekstrarleyfi út eldisfisk er henni heimil þrátt fyrir friðun á villtum fiski á svæðinu veiði innan 200 metra frá stöðinni enda sé það utan netlaga og veiðimálastjóra hafi verið tilkynnt um það. Heimild þessi takmarkast við þrjá sólarhringa frá því að fiskur slapp út ef þetta gerist á göngutíma laxfiska og skulu framkvæmdar undir eftirliti fulltrúa veiðimálastjóra.
    
    m. ( 74. gr.)
    Fiskeldis-, hafbeitarstöðvar og kvíaeldisstöðvar hafi með sér samtök, Landssamband fiskeldis- og hafbeitarstöðva, sem gæti sameiginlegra hagsmuna fiskeldismanna.
    

6. gr.


XIII. kafli laganna, Um stjórn veiðimála, Veiðimálastofnun og eftirlit, orðast svo:

    a. (86. gr.)
    1. Landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn allra veiðimála.
    2. Til aðstoðar ráðherra um stjórn veiðimála eru veiðimálanefnd og veiðimálastjóri.
    
    b. (87. gr.)
    1. Ráðherra skipar veiðimálastjóra. Veiðimálastjóri skal hafa lokið háskólaprófi í raunvísindum og vera sérmenntaður í vatnalíffræði eða fiskifræði vatnafiska:
    hann er ráðherra til aðstoðar um allt sem að stjórn veiðimála lýtur,
    hann annast þau verkefni sem honum eru sérstaklega falin í lögum þessum,
    hann gerir tillögur um setningu reglugerða og önnur ákvæði sem sett eru samkvæmt lögum um friðun, fiskrækt, fiskeldi eða veiði,
    hann annast merkingu vatnafiska en getur gefið öðrum leyfi til merkinga með skilyrðum sem hann setur,
    hann annast söfnun skýrslna um veiði, fiskrækt og fiskeldi,
    hann gerir tillögur um skipun veiðieftirlitsmanna.
    2. Veiðimálastjóri er forstjóri Veiðimálastofnunar, sem er rannsókna- og þjónustustofnun í veiðimálum og hefur hann á hendi daglega stjórn stofnunarinnar og umsjón með rekstri hennar. Forstjóri ræður starfsfólk. Heimilt er að ráða aðstoðarforstjóra til að sinna rekstrarþáttum stofnunarinnar. Ráðherra er rétt að setja reglugerð um verkefni og stjórn stofnunarinnar.
    Hlutverk Veiðimálastofnunar er:
    að annast verkefni sem miða að því að auka fiskgengd í ám og vötnum og bæta nýtingu þeirra,
    að annast rannsóknir á ám og vötnum og á vatnafiskum, í fiskrækt, fiskeldi og hafbeit,
    að annast þróunarstarf og leiðbeiningar í veiðimálum,
    að annast rannsókn á einstökum veiðivötnum fyrir eigendur þeirra og veiðifélög enda greiði þessir aðilar kostnað af verkinu, sbr. 3. mgr. þessarar greinar.
    3. Veiðimálastofnun er heimilt að taka að sér rannsóknir og önnur verkefni á starfssviði sínu fyrir einstaklinga, félög og stofnanir gegn endurgjaldi.
    
     c. (88. gr.)
    1. Veiðimálastofnun er heimilt að starfrækja deildir á landsbyggðinni samkvæmt ákvörðun ráðherra að fengnum tillögum stjórnar Veiðimálastofnunar og veiðimálastjóra.
    2. Heimilt er að starfrækja rannsóknastöð í fiskeldi og hafbeit í tengslum við Veiðimálastofnun. Stöðin er rannsóknavettvangur fyrir klak og eldi laxfiska, kynbætur og hafbeit. Ráðherra er heimilt að setja reglur um verkefni og skipa fag- og stjórnarnefnd fyrir stöðina en veiðimálastjóri skal hafa umsjón með hlutdeild ríkisins í henni.
    
    d. (89. gr.)
    1. Stjórn Veiðimálastofnunar skal skipuð fimm mönnum sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu Búnaðarfélags Íslands. Ráðherra skipar formann. Varamenn skal skipa með sama hætti.
    2. Stjórn Veiðimálastofnunar hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar og deilda hennar og markar meginatriði um stefnu og starf hennar. Stjórnin gerir tillögur til ráðherra um starfs- og fjárhagsáætlun og staðfestir reikninga stofnunarinnar að loknu ársuppgjöri.
    
    e. (90. gr.)
    1. Í veiðimálanefnd eiga sæti þrír menn. Ráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga. Ráðherra skipar formann nefndarinnar. Nú tilnefnir einhver framangreindra aðila eigi mann í veiðimálanefnd og skipar þá ráðherra í nefndina í hans stað. Varamenn skal skipa með sama hætti og aðalmenn.
    2. Veiðimálanefnd er ráðherra til aðstoðar um veiðimál og fer með þau mál sem henni eru falin í lögum þessum. Umsagnar veiðimálanefndar skal leita um setningu reglugerða um veiðimál.

    f. (91. gr.)
    Öll veiðifélög samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga þessara hafa með sér landssamtök, Landssamband veiðifélaga, sem gætir sameiginlegra hagsmuna þeirra.
    
    g. (92. gr.)
    1. Ráðherra skipar eftirlitsmenn með veiði þar sem þurfa þykir enda æski þess veiðifélag, eigendur eða notendur veiði og greiði kostnað af eftirlitinu. Um tölu þeirra og skipun skal leita tillagna veiðimálastjóra. Á sama hátt skipar ráðherra eftirlitsmann með klaköflun þar sem þurfa þykir og greiðir viðkomandi klakleyfishafi kostnað sem af þessu leiðir.
    2. Rétt er ráðherra að skipa eftirlitsmenn með því að bann við laxveiðum í sjó sé virt. Um tölu þeirra og skipun skal leita tillagna veiðimálastjóra og greiðist kostnaður við störf þeirra úr ríkissjóði.
    3. Eftirlitsmenn skulu hafa nákvæmar gætur á því að veiði í umdæmi þeirra sé stunduð með löglegum hætti. Þeir safna skýrslum, m.a. skulu þeir gera skrár um veiðivélar, lagnir og drætti í umdæmum sínum og sjá um merkingu veiðarfæra. Nánari fyrirmæli um starfsemi eftirlitsmanna setur veiðimálastjóri í erindisbréfi.
    4. Veiðimálastjóri gefur út skírteini handa eftirlitsmönnum.
    5. Eftirlitsmenn skulu eiga frjálsa för um veiðivatn, meðfram því, og um netlög í sjó eftir því sem þörf krefur. Þeir hafa vald til að taka upp ólögleg veiðitæki eða veiðitæki sem notuð eru á óleyfilegum tíma eða óleyfilegum stað.
    6. Nú leikur grunur á að fiskur sé ólöglega veiddur og getur eftirlitsmaður krafist þess að sá er hefur hann undir höndum geri eftirlitsmanni grein fyrir hvar hann hafi fengið fiskinn ella telst fiskurinn ólöglegt veiðifang.
    7. Nú leikur grunur á að ólöglegt veiðifang sé geymt í verslun, reykhúsi, frystihúsi eða í öðru geymsluhúsi og er eftirlitsmanni heimilt án undangengins úrskurðar dómara að gera leit að slíku veiðifangi og taka það í sína vörslu ef þurfa þykir en gera skal hann dómara þeim er í hlut á þegar viðvart en hann skal þegar taka málið til meðferðar.
    

7. gr.


    Töluröð greina í XIV.–XVII. kafla breytist í samræmi við framantaldar breytingar svo og tilvitnanir í þær greinar.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Gildandi lög um lax- og silungsveiði eru frá 1970. Ýmislegt hefur verið að gerast á sviði veiðimála sem kallar á breytt lagaákvæði og ný ákvæði, eins og um fiskeldi. Það er því löngu ljóst að endurskoða þyrfti lög um lax- og silungsveiði enda var lagt fram á Alþingi lagafrumvarp í þessu skyni 1983. Síðan hefur verið unnið að þessu máli og nokkur frumvarpsdrög á vegum ráðuneytisins hafa verið samin þó að ekki hafi þau verið lögð fram frá 1983 að því undanskildu að samþykkt var vorið 1992 breyting á kaflanum um Fiskræktarsjóð.
    Við gerð þessa frumvarps hefur verið höfð hliðsjón af fyrrgreindum frumvarpsdrögum og sum ákvæði tekin beint upp í frumvarp þetta en önnur voru endurskoðuð og enn fremur sett inn ný ákvæði.
    Frumvarp þetta var lagt fram á Alþingi vorið 1993. Það er nú endurflutt eftir að gerðar hafa verið á því nokkrar breytingar og nokkur nýmæli sett inn eins og nánar er gert grein fyrir í athugasemdum þessum.
    Breytingar þær, sem hér er lagt til að gerðar verði og eru brýnar, snerta aðeins sex kafla laganna, þ.e. I., IV., V., VII., IX. og XIII. kafla og því er ekki um heildarendurskoðun laganna að ræða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Bætt er við orðskýringar 1. gr. gildandi laga skýringum á orðunum eldisstofn, fiskeldisstöð, fiskræktarslepping, geldstofn, hafbeit, hafbeit til stangaveiði, hafbeitarstofn, hafbeitarstöð, kvíaeldi, laxastofn, netlög, strandeldi og villtur laxastofn. Þá er breytt skýringu á orðinu fiskeldi eins og það er skýrt í gildandi lögum.
    

Um 2. gr.


    Í fyrirsögn IV. kafla er fellt út orðið friðun og sett inn orðið veiðistjórn í staðinn.
    Um 2. gr. a.
    Í 1. mgr. er bætt inn að ekki megi veiða silung í sjó utan netlaga sem telja verður að liggi beinast við þar sem hér er um ferskvatnsfisk að ræða og veiðiréttur fylgir landi og nær það til netlaga.
    Rétt þykir að hnykkja á ákvæði í 2. mgr. um meðferð á ólöglega veiddum laxi að honum sé sleppt lifandi eða dauðum í sjó og óheimilt sé að fara með hann í land.
    Í 5. mgr. er bætt inn heimild til handa hafbeitarstöð að leysa til sín sjávarveiði sem liggur nærri henni, hliðstætt og segir um veiðivatn. Það verður að teljast eðlilegt að sama gildi fyrir þróaða hafbeitarstöð sem sleppir miklum fjölda gönguseiða í sjó og eigendur laxveiðiár að hún eigi þess kost að geta leyst til sín laxveiðilagnir sem tækju verulegan toll af afurðum stöðvar og ef af yrði þá væntanlega í samvinnu við áreigendur sem svipað er ástatt um.
    6. mgr. er nýmæli sem varðar takmörkun á fjölda silungslagneta í sjó. Lagt er til að lögfesta ákvæði um hámarksfjölda silungsneta í sjó frá hverju lögbýli sem slíka aðstöðu hefur. Á sínum tíma, 1957, var í lögum kveðið svo á að ekki mætti fjölga lögnum frá því sem verið hafði á árunum 1952–1957 og 1970 var þetta ákvæði áréttað með gildandi löggjöf. Víst er að langflest lögbýli, sem land eiga að sjó, hafa ekki verið með meiri búnað en tvö lagnet á sínum tíma. Hins vegar hefur það gerst að sveitarstjórnir í þéttbýli, sem reist hefur verið á landi lögbýla, hafa gefið árlega út á seinni árum tugi netaleyfa til einstaklinga á viðkomandi þéttbýlisstöðum. Slíkt framferði gengur þvert á ákvæði laga sem setja öllum veiðiskap á laxi og göngusilungi fastar skorður. Nauðsyn ber til að girt sé fyrir misnotkun af fyrrgreindu tagi með skýrum lagafyrirmælum.
    7. mgr. er efnislega samhljóða 6. mgr. í gildandi lögum og varðar takmörkun eða bann við veiði göngusilungs í sjó á tilteknum svæðum. Fellt er út að sýslunefnd eða bæjarstjórn þurfi að mæla með slíkri framkvæmd en látið standa að veiðieigendur eða veiðifélag þurfi að biðja um slíka friðun eða bann. Jafnframt er sett inn að bótamat fari fram skv. 94. og 96. gr. og að þeir sem takmörkunar óska greiði bæturnar.
     Um 2. gr. b.
    1. mgr. er samhljóða 1. mgr. 15. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að bætt er inn „á lóð“. Sjálfsagt þykir að bæta inn á bannlista lóðum til veiða á silungi í sjó. Í 2. mgr. er bætt inn í greinina að umrætt bann gildi einnig fyrir hafbeitarstöð eins og straumvatn enda gangi fiskur í það vatn. Þá er felld út greining á vatnsmagni og eftirleiðis er friðunarsvæðið einungis bundið við 2.000 metrana til einföldunar. Þá er einnig gert ráð fyrir því að hafa þurfi samráð við viðkomandi veiðifélag eða hafbeitarstöð varðandi fyrirkomulag stangaveiði á umgetnu friðunarsvæði og að ráðherra geti takmarkað slíka veiði ef þörf krefur. Þetta verður að teljast eðlilegt og með því er verið að fyrirbyggja árekstra milli þeirra sem land eiga að straumvatni og hinna sem land eiga að sjó.
    3. mgr. er nýmæli. Að fenginni reynslu hér á landi er sýnt að nauðsyn ber til að hafa heimild í lögum svo unnt sé að friða viss svæði í sjó í námunda við laxveiðiár þar sem miklar laxagöngur fara um á leið sinni í þær. Það verður að telja eðlilegt að hinir villtu laxastofnar í ánum njóti þannig viss forgangs og verndar auk þess sem komið yrði í veg fyrir hagsmunaárekstra sem fylgja því þegar hafbeitarstöð er reist í næsta nágrenni við mikilvægar laxveiðiár, eina eða fleiri.
    Um 2. gr. c og d.
    Greinarnar eru samhljóða 16. og 17. gr. gildandi laga nr. 76/1970.
     Um 2. gr. e.
    Lagðar eru til breytingar á gildandi ákvæði sem felur í sér rýmri árlegan veiðitíma, sólarhringsveiðitíma og að dorgveiði til göngusilungsveiði verði bætt inn í um veiðiaðferðir.
    Lok árlegs veiðitíma eru færð aftur um 10 daga frá því sem er í gildandi lögum, þ.e. frá 20. september til 30. september og heimilaður veiðitími innan heildartímans lengdur um hálfan mánuð, auk þess sem lagt er til að göngusilungsveiði verði til 10. október þar sem einvörðungu er um göngusilung að ræða. Nokkur reynsla hefur fengist í þessu efni þar sem undanfarin ár hafa verið veittar undanþágur til göngusilungsveiði fram eftir októbermánuði. Með fenginni áratuga reynslu af vel þróuðu starfi veiðifélaga víðs vegar um land hefur komið í ljós að nauðsynlegur er meiri sveigjanleiki með veiðitímann en nú er, einkum þegar fiskgengd er mikil.
    Um 2. gr. f.
    Valkostur um veiðitíma á sólarhring hverjum verði gerður meiri en nú er. Bent hefur verið á að íslenskar aðstæður með bjarta sumarnótt leyfa stangaveiði á þeim tíma. Talið er rétt að rýmka um í þessu efni en þó gert ráð fyrir að ekki sé daglega staðið að stangaveiði lengur en í 12 stundir á sólarhring hverjum, eins og nú er, og að ekki megi stunda veiði á tímabilinu frá kl. 3 eftir miðnætti til kl. 7 árdegis. Víst er að hefðir í þessu efni munu áfram ráða miklu um framkvæmdina.
    Um 2. gr. g.
    Greinin er samhljóða 20. gr. gildandi laga.
     Um 2. gr. h.
    Greinin er samhljóða 2. mgr. 20. gr. gildandi laga.
    Um 2. gr. i.
    1. og 2. mgr. eru efnislega 1. og 2. mgr. gildandi laga.
     Um 2. gr. j.
    Nýmæli er sett inn með ákvæði um sérstaka fiskræktaráætlun. Hún er í raun ítarlegri útfærsla á heimild til klaktöku og seiðasleppingar í veiðivatn en áður hefur verið gert, auk þess sem felld eru inn í áætlunina önnur atriði fiskræktar, sbr. ákvæði 2. mgr. 44. gr. Þetta ætti að geta orðið til að gera fiskræktarátakið markvissara og tryggja að hagsmunir viðkomandi fiskstofns séu sem best tryggðir þegar til lengri tíma er litið.
    Í 3. mgr. er rætt um sérstakt klakleyfi sem er byggt á ákvæði 2. mgr. 22. gr. gildandi laga. Með þessu er verið að einfalda afgreiðslu á klakleyfi miðað við gerð fiskræktaráætlunar, sbr. 1. og 2. mgr., þar sem ætlunin er meðal annars að afla klakfisks í tengslum við það að seiðum verði sleppt í önnur veiðivötn eða til að ala upp í eldisstöð.
    Þá er gert ráð fyrir í 4. mgr. að heimiluð verði notkun hafbeitarstofns úr sama landshluta til hafbeitar á laxi í veiðivatni með skilyrðum um samþykki veiðieigenda.
    

Um 3. gr.


    Í fyrirsögn V. kafla er orðið friðun fellt út og veiðistjórn sett í staðinn.
    24. gr. felur í sér heimild til að friða vatnasilung fyrir allri veiði sem er breyting frá núgildandi 24. gr. laganna.
    Í stað þess að kveða á um friðunartíma er sett inn heimild til að friða vatnasilung fyrir allri veiði ef ástæða þykir til. Þarna er tekið mið af þeirri reynslu sem fengist hefur í þessum efnum seinustu áratugi. Aðrar greinar kaflans breytast í samræmi við breytingu 24. gr. Í 25. gr. er fellt út hvað varðar ákvæði um kynbetri stofn en tekið fram að ein ástæðan fyrir eyðingu fiskstofns geti verið sjúkdómar og bætt er inn að hafa þurfi samráð við eiturefnanefnd ef beita eigi eitri við eyðingu á fiski sem þykir eðlilegt.
    

Um 4. gr.


    Í fyrirsögn kaflans var gerð smávægileg breyting þar sem bætt var inn: í og við veiðivötn, í stað „í veiðivötnum“.
    Um 4. gr. a.
    Greinin er samhljóða 39. gr. gildandi laga.
    Um 4. gr. b.
    Heildarfriðunarsvæði við fiskveg er fært niður í 50 metra í stað 80 eins og er í gildandi lögum. Þannig verði 30 metra friðunarsvæði við neðra mynni hans en 20 metra ofan við stigann sem teljast verður fullnægjandi.
    Um 4. gr. c.
    Greinin er samhljóða 41. gr. gildandi laga.
     Um 4. gr. d.
    Greinin er samhljóða 42. og 43. gr. gildandi laga.
    Um 4. gr. e.
    Hér er um nýmæli að ræða þar sem er gert ráð fyrir að veiðimálastjóri láti fara fram líffræðilega úttekt áður en ráðist er í efnistöku eða mannvirkjagerð í eða við veiðivatn sem kynni að fela í sér hættu fyrir lífríki þess.

Um 5. gr.


    Eðlilegt þykir að breyta kaflaheiti IX. kafla þar sem gjörbylting er gerð á efnisákvæðum hans. Í kaflann eru sett inn í staðinn almenn og nauðsynleg ákvæði um fiskeldi og hafbeit.
    Um 5. gr. a.
    Efnislega er ákvæðið byggt á 66. gr. gildandi laga en því er breytt verulega. Heimildarákvæðið um fiskeldisstöðvar ríkisins flyst í raun í 2. mgr. 88. gr. í XIII. kafla þar sem fjallað er um Veiðimálastofnun og Laxeldisstöð ríkisins.
    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra fari alfarið með fiskeldismál. Þá er ætlað að fyrir liggi leyfi annarra opinberra aðila sem fara með mál varðandi slíkan atvinnurekstur sem hér er um að ræða áður en rekstrarleyfi er veitt.
    Um 5. gr. b.
    Greinin er samhljóða 67. gr. gildandi laga.
     Um 5. gr. c.
    Greinin er samhljóða 68. gr. gildandi laga.
    Um 5. gr. d.
    Greinin er samhljóða 69. gr. gildandi laga.
    Um 5. gr. e.
    Greinin er efnislega hliðstæð 70. gr. gildandi laga.
    Um 5. gr. f.
    Greinin hefur að geyma ný ákvæði varðandi töku á laxi hjá hafbeitarstöð. Töluverð umræða hefur orðið hjá veiðiréttareigendum og stangaveiðimönnum um töku á laxi í hafbeitarstöðvum svo og merkingar og sýnatöku úr fiskinum. Ljóst er að setja þarf reglur um þetta efni er tryggi að framkvæmdin sé sem mest í takt við önnur ákvæði laganna um veiðar á laxi eftir því sem unnt er.
    Um 5. gr. g.
    Greinin er nýmæli. Nauðsyn ber til að hafa slíka heimild í lögum með tilliti til þess að hér gæti þróast upp í framtíðinni hafbeit á laxi sem stefndi að sleppingu gönguseiða í það ríkum mæli að talið yrði of í lagt gagnvart ætissvæðum í hafinu og hagsmunum þeirra sem nytja aðra sjávarfiska. Hér er því um varúðarráðstöfun að ræða.
     Um 5. gr. h.
    Greinin er samhljóða 71. gr. gildandi laga en ítarlegri.
    Um 5. gr. i.
    Greinin er samhljóða 72. gr. gildandi laga.
    Um 5. gr. j.
    Greinin er efnislega samhljóða 73. gr. gildandi laga.
     Um 5. gr. k.
    Greinin er efnislega samhljóða 74. gr. gildandi laga.
    Um 5. gr. l.
    Greinin hefur að geyma ný ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að fiskeldisstöð með starfsleyfi, t.d. kvíaeldi, sem missir út fisk, fái heimild til að reyna að ná fiskinum aftur. Jafnframt er sett takmörkun á veiðiskap sem þykir hæfileg bæði hvað varðar stærð veiðisvæðis og hámarkstímalengd frá því að fiskur slapp út.
    Um 5. gr. m.
    Eðlilegt er talið að fiskeldis- og hafbeitaraðilar hafi með sér samtök þar sem þeir tilnefna m.a. mann í stjórn Veiðimálastofnunar og þurfa að verja ýmsa hagsmuni t.d. í tengslum við rekstrarleyfi og rekstrarumhverfi.

Um 6. gr.


    Yfirskrift kaflans er óbreytt frá gildandi lögum. Meginbreytingar þessa kafla eru þær að lagt er til að lögfest verði Veiðimálastofnun í stað þess að í lögum hefur eingöngu verið um embætti veiðimálastjóra að ræða og Veiðimálastofnun fái sérstaka stjórn. Þá er ákvæðum um veiðieftirlitsmenn breytt verulega.
    Um 6. gr. a.
    Í greininni er fjallað um skipun veiðimálastjóra og verkefni hans sem er efnislega að finna í sömu grein gildandi laga, svo og um Veiðimálastofnun og verkefni hennar og stjórn sem eru nýmæli. Í 1. mgr. er fjallað um skipun veiðimálastjóra. Hlutverk hans er m.a. að vera ráðherra til aðstoðar um allt, sem að stjórn veiðimála lýtur, gera tillögur um setningu reglugerða, annast merkingu vatnafiska, annast söfnun skýrslna um veiði, fiskrækt og fiskeldi og gera tillögur um skipun veiðieftirlitsmanna. Þetta eru allt verkefni sem eru lögbundin og fást ekki greidd af einkaaðilum. Í 2. mgr. eru nýmæli um Veiðimálastofnun og hlutverk hennar og þar er að finna atriði sem eru í 2. mgr. 87. gr. gildandi laga um verkefni veiðimálastjóra að hluta til, auk viðbótar um hlutverk hennar sem þróunar- og rannsóknastofnunar. Stjórnunarþátturinn verður eftir sem áður hjá veiðimálastjóra, eins og áður greinir. Þarna er einnig kveðið á um að veiðimálastjóri sé forstjóri stofnunarinnar og að hann ráði starfsfólk. Þá er bætt við ákvæði um að stofnunin geti tekið að sér verkefni fyrir veiðifélög gegn greiðslu og fleira sem er nánar vikið að í 3. mgr. greinarinnar.
    Um 6. gr. c.
    Í 1. mgr. er nýmæli um heimild Veiðimálastofnunar til að starfrækja deildir úti á landi. Er það í samræmi við þá þróun sem orðið hefur.
    Í 2. mgr. er sett inn heimild um rekstur tilraunastöðvar í tengslum við Veiðimálastofnun en hliðstæð ákvæði eru í 62. gr. gildandi laga sem fyrr greinir. Þá er gert ráð fyrir að veiðimálastjóri hafi umsjón með hlutdeild ríkisins í stöðinni og er það í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað með stöðina. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti sett stöðinni fag- og stjórnarnefnd.
    Um 6. gr. d.
    Í greininni eru ný ákvæði um stjórn Veiðimálastofnunar sem skal vera skipuð fimm mönnum, einum skipuðum af ráðherra án tilnefningar, einum frá hverju eftirtalinna landssamtaka: fiskeldis- og hafbeitarstöðva, stangaveiðifélaga, veiðifélaga og samtaka landbúnaðarins. Ráðherra skipar formann. Í 2. mgr. er kveðið á um verkefni stjórnar.
     Um 6. gr. e.
    Greinin er efnislega samhljóða 88. gr. gildandi laga um veiðimálanefnd en henni breytt þannig að í nefndinni eigi framvegis aðeins sæti fulltrúar frá landssamtökum stangaveiðifélaga og veiðifélaga, þ.e. einn frá hvoru, en ráðherra skipi einn mann í nefndina án tilnefningar, sbr. ákvæði 1. mgr.
    Um 6. gr. f.
    Eðlilegt þykir að veiðifélögin, sem eru lögfest, hafi með sér landssamtök sem komi fram fyrir þeirra hönd gagnvart hinu opinbera.
    Um 6. gr. g.
    Greinin er að meginefni samhljóða 89. og 90. gr. gildandi laga. Veigamikil breyting er gerð er felst í því að fellt er út ákvæði um að ríkissjóður greiði helming af launum á móti veiðieigendum. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði kostnað af veiðieftirliti í sjó. Með þessari breytingu er gjaldakvöð létt af ríkissjóði en í staðinn er ríkissjóði ætlað að annast alfarið veiðieftirlit í sjó. Það verður að teljast eðlilegt þar sem sjávareftirlit er utan lögsögu einstakra vatnasvæða. Þá er ljóst að veiðieftirliti verður að sinna með sérstökum hætti, bæði vegna þess að það er sérhæft í eðli sínu og samræmist oftast ekki hinni almennu löggæslu, m.a. vegna annríkis hennar á þeim tíma ársins sem veiðieftirlitið fer fram.

Um 7. og 8. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 76/1970,


um lax- og silungsveiði.


    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sex köflum laganna og kaflaheitum breytt til samræmis við efnisbreytingar. Fjárhagsþættir frumvarpsins eru eftirfarandi:
—    Í gildandi lögum um lax- og silungsveiði er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði helming af launum veiðieftirlitsmanna sem stunda veiðieftirlit við ár. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veiðiréttareigendur greiði alfarið kostnað sem af því hlýst enda er skipun veiðieftirlitsmanna háð óskum veiðiréttareiganda, sbr. g-lið 6. gr. Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um 1–2 m.kr. á ári við þessa breytingu.
—    Ráðherra er heimilt samkvæmt frumvarpinu að skipa eftirlitsmann með klaköflun þar sem þurfa þykir og er það nýmæli. Viðkomandi klakleyfishafi ber kostnað sem af því leiðir, sbr. g-lið 6. gr.
—    Ráðherra er heimilt samkvæmt frumvarpinu að skipa eftirlitsmann með því að bann við laxveiðum í sjó sé virt, sbr. g-lið 6. gr. Á undanförnum árum hefur í fjárlögum verið gert ráð fyrir tilteknum fjármunum til veiðieftirlits sem hefur beinst í auknum mæli að ólöglegri sjávarveiði. Gera má ráð fyrir að kostnaður af slíku eftirliti, sem unnið er í samvinnu við Landhelgisgæsluna, verði 3–4 m.kr. og kostnaðarauki ríkissjóðs þannig 1–2 m.kr.
—    Allar bætur vegna takmörkunar á silungsveiði í sjó, sbr. a-lið 2. gr., eru greiddar af þeim sem takmörkunar óskar (veiðiréttareigendur). Sama gildir um bætur vegna takmörkunar á veiði eða tilteknum veiðiaðferðum upp eða niður frá ósi, sbr. c-lið 2. gr.
—    Allur kostnaður af gerð fiskræktaráætlunar, sbr. j-lið 2. gr., greiðist af þeim aðila sem fiskrækt stundar.
—    Ýmis ákvæði um skipulag og starfssvið Veiðimálastofnunar eru lögfest samkvæmt frumvarpinu (XIII. kafli). Gert er ráð fyrir sérstakri stjórn yfir Veiðimálastofnun og er það nýmæli. Greiðslur til stjórnarmanna verða ákveðnar af þóknananefnd í samræmi við fundarsetu.
    Samandregið má ætla að frumvarpið feli í sér óverulegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.