Ferill 412. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 412 . mál.


805. Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem felur annars vegar í sér nokkrar minni háttar breytingar á lögum um Kennaraháskóla Íslands varðandi kjör rektors, verksvið deildarráðs og skólaráðs, stöðu- og embættisveitingar og að kveðið verði á um skipan kennaranáms í reglugerð en ekki í lögum eins og nú er. Þessar breytingar eru gerðar að ósk skólaráðs Kennaraháskóla Íslands. Hins vegar felur frumvarpið í sér frestun á gildistöku ákvæða er mæla fyrir um lengingu almenns kennaranáms úr þremur árum í fjögur ár.
    Nefndin fékk á fund sinn um málið Stefán Stefánsson, deildarstjóra í menntamálaráðuneyti, Þóri Ólafsson, rektor Kennaraháskóla Íslands, Vigdísi Jóhannsdóttur, fulltrúa nemenda í skólaráði Kennaraháskóla Íslands, Svanhildi Kaaber, formann Kennarasambands Íslands, Birnu Sigurjónsdóttur, formann skólamálaráðs Kennarasambands Íslands, og Elnu Katrínu Jónsdóttur, formann Hins íslenska kennarafélags.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Lagt er til að tekið verði fram í 3. gr. frumvarpsins að við smíði reglugerðar um skipan almenns kennaranáms skuli liggja fyrir tillögur skólaráðs Kennaraháskóla Íslands.
    Björn Bjarnason ritar undir með fyrirvara varðandi þá skipan sem lögð er til í 6. gr. frumvarpsins um stöðu- og embættisveitingar.

Alþingi, 22. mars 1994.


Sigríður A. Þórðardóttir,

Árni Johnsen.

Petrína Baldursdóttir.

form., frsm.


Björn Bjarnason,

Tómas Ingi Olrich.

með fyrirvara.