Ferill 545. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 545 . mál.


856. Frumvarp til laga


um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)


1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Heimilt er að endurgreiða útlagðan kostnað vegna kaupa á ökumælum, vegna nýskráningar bifreiða, tengi- eða festivagna eða vegna nauðsynlegrar endurnýjunar á ökumælum í bifreiðar, tengi- eða festivagna.
    Heimilt er að endurgreiða útlagðan kostnað að fullu hafi kaupin átt sér stað innan hálfs árs fyrir upptöku olíugjalds, verði lög um það sett, en að hálfu hafi kaupin átt sér stað innan hálfs árs þar á undan.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Á vegum fjármálaráðherra er starfandi nefnd sem falið var að skoða núverandi þungaskattskerfi með það í huga að kanna hvort rétt væri að leggja það niður í núverandi mynd og taka þess í stað upp skattlagningu á orkugjafann sjálfan, þ.e. olíuna. Ein aðalástæða þess að rétt hefur verið talið að skoða nýjar leiðir varðandi þess skattlagningu er sú að almennt er talið að núverandi kerfi sé mjög óskilvirkt og undandráttur mjög mikill. Önnur ástæða er sú að ljóst er að núverandi þungaskattskerfi er mjög óhagstætt fyrir dísilfólksbíla sem sést best á því að af um 130.000 fólksbílum, sem skráðir eru á landinu, eru einungis 6.000 dísilbílar.
    Hagsmunaaðilar í landflutningum hafa kvartað mikið yfir því að vegna þess að tiltölulega auðvelt sé að komast hjá skattheimtu í þungaskattskerfinu án þess að upp komist sé samkeppnisstaða þeirra sem fara vilja að lögum nánast vonlaus. Til úrbóta hefur verið bent á þrjár leiðir. Í fyrsta lagi að leggja gjald á olíuna þar sem sú olía sem ekki er notuð af ökutækjum yrði lituð og merkt. Í öðru lagi hefur verið bent á að leggja gjald á alla olíu sem mögulegt er að nota á ökutæki, án þess að lita eða merkja olíuna, en síðan yrði þeim aðilum sem ekki eiga að bera gjaldið endurgreitt í gegnum virðisaukaskattskerfið. Og í þriðja lagi hefur verið bent á þá leið að viðhalda núverandi kerfi en gera á því nauðsynlegar endurbætur til að bæta skilvirkni þess.
    Fjármálaráðherra hefur lýst áhuga á olíugjaldsleiðinni en nefndin hefur enn ekki skilað áliti. Ljóst er að ef tekin verður ákvörðun um að leggja til að lagt verði gjald á olíuna og núverandi kerfi lagt niður þá þarfnast slík breyting nokkurs undirbúnings áður en hún tekur gildi. Samkvæmt þessu frumvarpi er einungis verið að opna fyrir þann möguleika ef tekin verður ákvörðun um að leggja á olíugjald að unnt sé að koma til móts við þá aðila sem samkvæmt núverandi þungaskattskerfi eiga að vera með ökumæla og þyrftu því að kaupa sér ökumæli eftir að slík ákvörðun um olíugjald hefur verið tekin en er ekki komin til framkvæmda. Miðað við verð ökumæla í dag, sem er u.þ.b. 30.000 kr. með ísetningu og að árlega sé þörf fyrir að endurnýja 1.000 mæla, mundi kostnaður vegna þessarar breytingar vera 22,5 m.kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er opnuð heimild til að endurgreiða aðilum ökumæla sem þeir hafa keypt á síðasta ári fyrir upptöku olíugjaldskerfis. Alls staðar þar sem olíugjaldið hefur verið tekið upp hefur með einum eða öðrum hætti verið komið til móts við mælaskylda aðila.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.