Ferill 275. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 275 . mál.


891. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem felur í sér að Hollustuvernd ríkisins og önnur yfirstjórn hollustuhátta og heilbrigðiseftirlits flyst í heild frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis.
    Á fund nefndarinnar kom til viðræðna Ólafur Ólafsson landlæknir. Nefndinni bárust umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Heilbrigðisfulltrúafélagi Íslands, Heilbrigðiseftirliti Austurlandssvæðis, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Siglingamálastofnun ríkisins, Náttúruverndarráði, Vinnuveitendasambandi Íslands, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðarsvæðis, Hollustuvernd ríkisins, Alþýðusambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Auk þess sendi nefndin málið til umfjöllunar umhverfisnefndar og heilbrigðis- og trygginganefndar þingsins og birtast umsagnir þeirra sem fylgiskjöl með áliti þessu.
    Hluti af starfsemi Hollustuverndar ríkisins, þ.e. mengunarvarnadeildin, heyrir þegar undir umhverfisráðuneytið og hefur svo verið frá stofnun ráðuneytisins. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið að æskilegt sé að Hollustuvernd ríkisins heyri undir eitt ráðuneyti. Þá bendir meiri hlutinn einnig á að í umsögnum kemur fram að fagleg tengsl Hollustuverndar ríkisins við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið séu hverfandi og að umhverfisráðuneytið eigi að geta veitt stofnuninni nauðsynlegan stuðning, jafnt stjórnsýslulegan sem faglegan.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Lagt er til að við 1. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein sem tryggi vægi heilbrigðissjónarmiða í umfjöllun um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Þannig verði landlæknir umhverfisráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar um þennan málaflokk en óbreytt gerir frumvarpið ráð fyrir að á brott falli ákvæði þessa efnis sem er í grein 4.2 í gildandi lögum. Þá er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins þannig að það taki gildi 1. júní 1994 en nauðsynlegt þykir að gefa viðkomandi stofnunum nokkuð ráðrúm til undirbúnings þeirra skipulagsbreytinga sem felast í frumvarpinu.
    Ingi Björn Albertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. mars 1994.



Sólveig Pétursdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson.

Jón Helgason,

Pétur Bjarnason,


með fyrirvara.

með fyrirvara.




Fylgiskjal I.


Álit meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


(8. mars 1994.)



    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur nú fjallað um 275. mál þingsins, hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem sent var nefndinni til skoðunar með bréfi allsherjarnefndar, dags. 14. febrúar sl.
    Þar sem frumvarpið var einnig sent umhverfisnefnd var ákveðið að efna til sameiginlegs fundar nefndanna um málið sem haldinn var 28. febrúar sl. Til fundarins voru boðaðir eftirtaldir gestir: Frá Hollustuvernd ríkisins Hermann Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri og Jón Gíslason, framkvæmdastjóri matvæla- og heilbrigðissviðs, Ólafur Ólafsson landlæknir, Páll Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneyti, Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneyti, Valdimar Brynjólfsson, formaður Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands, og Ólafur Oddsson, héraðslæknir Norðurlandshéraðs eystra. Þeir gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum og svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna.
    Meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar gerir að lokinni umfjöllun um málið ekki athugasemdir við meginefni frumvarpsins, þ.e. að starfsemi Hollustuverndar ríkisins verði að öllu leyti flutt frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Fyrir liggur að hluti starfsemi Hollustuverndar ríkisins heyrir þegar undir umhverfisráðuneyti og fram kom í máli þeirra sem sóttu fyrrgreindan fund þingnefndanna að fagleg tengsl við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti væru ekki mikil. Á hinn bóginn kom fram að nauðsynlegt væri að tryggja vægi heilbrigðissjónarmiða í umfjöllun um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    Í ljósi þess leggur meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar til að 1. gr. frumvarpsins verði breytt á þann hátt að landlæknir verði umhverfisráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar varðandi hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Ákvæði þess efnis er í grein 4.2 í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988. Heilbrigðis- og trygginganefnd telur að nái umrætt frumvarp fram að ganga verði enn mikilvægara en áður að heilbrigðissjónarmiða sé gætt í starfsemi stofnunarinnar og leggur til að landlæknir gegni því hlutverki.

Gunnlaugur Stefánsson.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.


Sólveig Pétursdóttir.


Sigríður A. Þórðardóttir.





Fylgiskjal II.


Álit minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


(8. mars 1994.)



    Meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar hefur ályktað um 275. mál þingsins, frumvarp til laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og gerir ekki athugasemdir við meginefni þess. Undirrituð, fulltrúi Kvennalistans í nefndinni, er annarrar skoðunar og vill koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri við háttvirta allsherjarnefnd.
    Fyrirferðarmesti þáttur laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit lýtur að matvælaeftirliti og um 2 / 3 af starfsmönnum Hollustuverndar vinna á matvælasviði. Ef að líkum lætur mun eftirlit með matvælum enn aukast með aðild að EES og má í því sambandi m.a. vísa til frumvarps til laga um matvæli sem mælt var fyrir í þinginu nú nýverið og sent heilbrigðis- og trygginganefnd til skoðunar. Í stað þess að flytja Hollustuvernd ríkisins undir umhverfisráðuneyti hefði verið ástæða til að skoða heildstætt allt matvælaeftirlit í landinu og samræma það undir einni yfirstjórn. Má í því sambandi m.a. nefna Fiskistofu og yfirdýralækni.
    Mjög veigalítil rök hafa verið færð fyrir nauðsyn eða ágæti þess að flytja Hollustuvernd ríkisins frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti yfir í umhverfisráðuneyti. Það kann að vera að það styrki umhverfisráðuneyti að fá til sín fleiri verkefni en tæpast verður séð að það sé heilbrigðiseftirliti til framdráttar að klippa á tengsl þess við aðra heilbrigðisþjónustu í landinu. Þau rök hafa heyrst að það sé erfitt fyrir stofnun eins og Hollustuverndina að þjóna tveimur herrum, þ.e. heyra undir tvö ráðuneyti. Það er ekki ástæða til að draga í efa að svo sé en hins vegar er það aðeins tilflutningur á vandanum að ráðast í vanhugsaðar breytingar breytinganna vegna. Af þessum sökum treystir undirrituð sér ekki til að mæla með því við háttvirta allsherjarnefnd að hún samþykki fyrirliggjandi frumvarp til laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.





Fylgiskjal III.


Álit meiri hluta umhverfisnefndar.


(3. mars 1994.)



    Umhverfisnefnd hefur fjallað um 275. þingmál, hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem sent var nefndinni til umsagnar með bréfi allsherjarnefndar, dags. 14. febrúar sl.
    Þar sem frumvarpið var einnig sent heilbrigðis- og trygginganefnd var ákveðið að efna til sameiginlegs fundar nefndanna um málið sem haldinn var 28. febrúar sl. Til fundarins voru boðaðir eftirtaldir gestir: Frá Hollustuvernd ríkisins Hermann Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri og Jón Gíslason, forstöðumaður matvæla- og heilbrigðissviðs, Ólafur Ólafsson landlæknir, Páll Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneyti, Valdimar Brynjólfsson formaður Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands, og Ólafur Oddsson, héraðslæknir Norðurlandshéraðs eystra. Þeir gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum og svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna.
    Málið var síðan tekið til afreiðslu á fundi umhverfisnefndar í dag, 3. mars, þar sem fram komu ólík sjónarmið meðal einstakra nefndarmanna. Undirritaður vill fyrir sína hönd og Árna M. Mathiesen, Láru Margrétar Ragnarsdóttur, Ólafs Ragnars Grímssonar, Petrínu Baldursdóttur og Tómasar Inga Olrich koma á framfæri eftirfarandi sjónarmiðum.
    Meiri hluti nefndarinnar styður meginefni frumvarpsins og telur að flutningur á allri starfsemi Hollustuverndar ríkisins til umhverfisráðuneytis muni efla ráðuneytið. Fyrir liggur að hluti starfsemi stofnunarinnar heyrir nú þegar undir umhverfisráðuneyti og meiri hlutinn telur æskilegt að Hollustuvernd ríkisins heyri með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir undir einn ráðherra. Þá bendir meiri hlutinn á að enginn þeirra sem sóttu fyrrgreindan fund þingnefndanna virtist efast um að stofnunin fengi nauðsynlegan stuðning, bæði stjórnsýslulegan og faglegan, í umhverfisráðuneytinu.
    Á hinn bóginn tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið sem fram komu á fundinum að tryggja bæri vægi heilbrigðissjónarmiða í umfjöllun um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, enda þótt sá þáttur málsins heyri fremur undir heilbrigðis- og trygginganefnd en umhverfisnefnd. Fram kom að leysa mætti þetta atriði með því að tryggja að landlæknir yrði umhverfisráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar, en hliðstætt ákvæði er í grein 4.2. í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988. Meiri hlutinn bendir á að þörf á slíkum tengslum muni í raun aukast samfara flutningi Hollustuverndar ríkisins til umhverfisráðuneytis.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir því með samþykkt frumvarpsins með vísan til framangreinds.

F.h. meiri hluta umhverfisnefndar,



Árni R. Árnason.





Fylgiskjal IV.


Álit minni hluta umhverfisnefndar.


(4. mars 1994.)



    Umhverfisnefnd hefur fjallað um frumvarp til laga um breytingar á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, með síðari breytingum. Það felur í sér að Hollustuvernd ríkisins og önnur yfirstjórn hollustuhátta og heilbrigðiseftirlits flyst í heild frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Frá stofnun umhverfisráðuneytis hefur mengunarvarnadeild Hollustuverndar heyrt undir það ráðuneyti.
    Á sameiginlegan fund heilbrigðis- og trygginganefndar og umhverfisnefndar Alþingis, sem haldinn var 28. febrúar 1994, komu eftirtaldir til viðræðu að beiðni nefndanna: Hermann Sveinbjörnsson og Jón Gíslason frá Hollustuvernd ríkisins, Ólafur Ólafsson landlæknir, Páll Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, Valdimar Brynjólfsson, formaður Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands, og Ólafur Oddsson, héraðslæknir Norðurlandshéraðs eystra. Sýndist sitt hverjum um ágæti frumvarpsins.
    Fram kom að menn vissu ekki til þess að heilbrigðiseftirlit hefði verið fært til umhverfisráðuneyta í grannlöndum. Í Danmörku hefði heilbrigðiseftirlit um tíma verið vistað í umhverfisráðuneyti en var sett undir heilbrigðisráðuneyti eftir að það var sett á fót. Norska matvælastofnunin, sem áður var undir félagsmálaráðuneyti, hefur verið færð undir nýtt ráðuneyti heilbrigðismála. Dýralæknar tengjast þeirri stofnun.
    Formaður Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands sagði að félagið legðist ekki gegn þeirri breytingu sem frumvarpið gerði ráð fyrir og taldi að í raun skipti ekki máli undir hvaða ráðuneyti Hollustuvernd ríkisins heyrði varðandi þeirra starf. Hann tók þó fram að nokkrir af heilbrigðisfulltrúum væru ósammála því fyrirkomulagi sem frumvarpið gerði ráð fyrir. Hann sagði að það ylli ekki vandræðum varðandi þeirra starf að Hollustuvernd ríkisins tilheyrði tveimur ráðuneytum eins og nú er.
    Að mati undirritaðra mundi það ekki styrkja umhverfisráðuneytið að taka að sér málaflokk sem fellur undir heilbrigðismál eins og matvælaeftirlit óneitanlega gerir. Í því sambandi má nefna frumvarp til laga um matvæli sem liggur fyrir Alþingi, 85. mál, en þar er fyrst og fremst um heilbrigðismál að ræða en ekki umhverfismál.
    Áhyggjur komu fram um að í kjölfar breytingar samkvæmt frumvarpinu mundi áhersla fremur verða á mengunarsviði en síður á heilbrigðiseftirliti. Aðspurður taldi ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis vaxtarþörf einkum vera á mengunarvarna- og eiturefnasviði og er því ekki ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af því að mengunarvarnasviðinu verði gert lægra undir höfði en nú.
    Hollustuvernd ríkisins hefur nú um 30 stöðugildi, þar af eru 20 á matvælasviði og skrifstofu, en 10 á mengunarvarna- og eiturefnasviði. Eins og stofnunin starfar er því eðlilegra að hún tilheyri heilbrigðisráðuneyti fremur en umhverfisráðuneyti. Forstöðumaður matvælasviðs taldi að í framtíðinni gæti verið skynsamlegt að skipta stofnuninni upp og ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytis taldi það einnig koma til greina.
    Rætt var um þann möguleika annars vegar að sameina eða tengja saman matvælaeftirlit á vegum þeirra aðila sem fara með það eftirlit undir heilbrigðisráðuneyti sem eru auk Hollustuverndar ríkisins Fiskistofa og yfirdýralæknir og hins vegar að sameina mengunarvarnardeild og eiturefnasvið Hollustuverndar og mengunarvarnir á vegum Siglingamálastofnunar og Geislavarna ríkisins undir umhverfisráðuneyti. Með því móti yrði markvissara unnið gegn mengun og ekki hætta á togstreitu milli ólíkra sviða eins og hætta er á nú þegar þau tilheyra sömu stofnun. Með sameiningu á þennan hátt væri hægt að koma á fót stofnunum sem væru af starfhæfri stærð en ein aðalröksemdin gegn því að kljúfa Hollustuvernd ríkisins er að úr því yrðu tvær illa starfhæfar einingar.
    Ekki hafa verið færð fram nein sannfærandi rök fyrir því að nauðsynlegt sé að breyta núverandi skipan. Rök hníga öll í þá átt að heilbrigðis- og matvælaeftirlit eigi fremur heima undir heilbrigðisráðuneyti en umhverfisráðuneyti.
    Hins vegar er mikilvægt að efla og styrkja umhverfisráðuneytið og flytja til þess þær stofnanir og svið sem eðlilega falla stjórnskipulega undir slíkt ráðuneyti. Þar er nokkurt verk að vinna.
    Það getur hins vegar orðið til hins verra að flytja málaflokka til umhverfisráðuneytis sem augljóslega eiga betur heima annars staðar eins og ætlunin er með þessu frumvarpi.
    Mat undirritaðra er því að fyllsta ástæða sé til þess að fara mun betur yfir þessi mál áður en ákvörðun er tekin um tilfærslu í þá veru sem lagt er til í frumvarpinu.

Kristín Einarsdóttir.


Þuríður Bernódusdóttir.


Hjörleifur Guttormsson.