Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 577 . mál.


896. Frumvarp til lagaum brunatryggingar.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993–94.)1. gr.


    Húseigendum er skylt að vátryggja gegn eldsvoða allar húseignir, þar með talin öll útihús, hvort heldur eru gripahús, hlöður, geymslur eða annað sem metið verður sem hús skv. 2. gr. Hús í smíðum skal einnig vátryggja og fer um vátryggingarupphæð þeirra á hverjum tíma eftir samkomulagi milli eiganda og vátryggingafélags.
    Ný hús skal meta eigi síðar en fjórum vikum eftir að þau eru tekin í notkun og er eiganda skylt að sjá um að slíkt sé tilkynnt vátryggjanda.
    Vátryggingafélag skal ekki taka gilda uppsögn á skylduvátryggingu skv. 1. mgr. nema uppsögn fylgi staðfesting á að húseigandi hafi stofnað til nýrrar skylduvátryggingar hjá öðru vátryggingafélagi. Við eigendaskipti skal viðkomandi vátryggingafélag ekki taka gilda uppsögn nema henni fylgi staðfesting um að nýr eigandi hafi stofnað til skylduvátryggingar.
    

2. gr.


    Vátryggingarupphæð húsa, sem lög þessi ná til, annarra en húsa í smíðum, skal nema fullu verði þeirra eftir virðingu. Fasteignamat ríkisins annast virðingu skylduvátryggðra húseigna. Markmið virðingar er að finna hið sanna vátryggingarverðmæti (brunabótamat) á þeim tíma er virðing fór fram. Ef annar hvor aðili vill ekki una niðurstöðu virðingar getur hann óskað yfirmats.
    Breyta skal vátryggingarverði húsa til samræmis við vísitölu byggingarkostnaðar.
    

3. gr.


    Bætur fyrir tjón á húseign má aðeins greiða til þess að gera við húseign sem skemmst hefur við bruna eða til endurbyggingar. Vátryggjanda er skylt að sjá til þess áður en bætur eru greiddar að þeim sé réttilega varið.
    Vátryggjanda er heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld. Vátryggjanda er þá heimilt að víkja frá brunabótamatsfjárhæðinni eftir ákvæðum sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Nú verður brunatjón meira en helmingur brunabótamatsverðs og sveitarstjórn telur nauðsynlegt vegna eldhættu eða af skipulagsástæðum að hlutaðeigandi hús verði fjarlægt og er henni þá heimilt að leysa húsið til sín. Greiðir hún þá mismun þann sem er á brunabótum og heildarmatsverði hússins. Ef sveitarstjórn eða eigandi telja brunabótamatsverð ekki rétt getur hvor um sig krafist endurmats og skal þá miða greiðslu við endurmatsverðið.
    

4. gr.


    Öll iðgjöld og matskostnaður af húseignum í skyldutryggingu hvíla sem lögveð í eignunum sjálfum og ganga í tvö ár fyrir öllum öðrum skuldbindingum sem á þeim hvíla nema sköttum til ríkissjóðs.
    Séu iðgjöldin eigi greidd innan sex mánaða frá gjalddaga er heimilt að láta selja hina vátryggðu eign á uppboði án undanfarins dóms, sáttar eða lögtaks en tilkynna skal vátryggjanda í ábyrgðarbréfi eða á annan öruggan hátt að sölu hafi verið beiðst. Á sama hátt skal sýslumaður vara eiganda mvið eð tveggja vikna fyrirvara áður en hann sendir söluauglýsingu til birtingar.
    Uppboðið skal auglýst einu sinni í Lögbirtingablaðinu. Má sala ekki fara fram fyrr en sex vikum eftir birtingu auglýsingarinnar.
    

5. gr.


    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga, þar á meðal verksvið vátryggjanda, skyldur vátryggingataka, bótauppgjör, undanskildar áhættur, réttarstöðu við eigendaskipti, rétt veðhafa og framkvæmd virðingar og yfirmats, þar á meðal kostnað virðingar.
    

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um brunatryggingar í Reykjavík, nr. 25/1954, og lög um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59/1954.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Undanþága Reykjavíkurborgar frá ákvæðum 4. gr. fyrstu tilskipunar ráðsins 73/239/EBE, með síðari breytingum, um rekstur Húsatrygginga Reykjavíkur, sbr. IX. viðauka í EES-samningnum, gildir áfram eftir gildistöku þriðju tilskipunar ráðsins 92/49/EBE að öðru leyti en því að einkaréttur Reykjavíkurborgar vegna brunatryggingar húseigna í sveitarfélaginu fellur niður frá og með 1. janúar 1995. Húseigendur skulu þó í síðasta lagi fyrir 30. nóvember 1994 tilkynna Húsatryggingum Reykjavíkur skriflega hyggist þeir flytja þessar tryggingar til annars félags. Tilkynningu um uppsögn skal fylgja staðfesting vátryggingafélags þess efnis að stofnað hafi verið til lögboðinnar brunatryggingar frá og með 1. janúar 1995. Að öðrum kosti framlengist vátryggingin til eins árs í senn. Tekjur sem Reykjavíkurborg kann að hafa af rekstri Húsatrygginga Reykjavíkur skal leggja í sjóð til eflingar brunavörnum og tryggingarstarfsemi.

II.


    Húseigendur utan Reykjavíkur skulu bundnir af þeim samningum sem gerðir hafa verið milli sveitarfélaga og vátryggingafélaga um brunatryggingar allra húseigna í hlutaðeigandi sveitarfélagi og af þeim vátryggingaskilmálum sem gerðir hafa verið milli húseigenda og vátryggingafélaga með stoð í fyrrgreindum samningum til loka árs 1994. Frá og með 1. janúar 1995 skal húseigendum utan Reykjavíkur heimilt að brunatryggja húseignir sínar hjá vátryggingafélagi sem þeir sjálfir kjósa, enda hafi félagið heimild til að hafa með höndum slíkar tryggingar. Húseigendur skulu þó í síðasta lagi fyrir 30. nóvember 1994 tilkynna brunatryggingafélagi sínu skriflega hyggist þeir flytja þessar tryggingar til annars félags. Tilkynningu um uppsögn skal fylgja staðfesting annars vátryggingafélags þess efnis að stofnað hafi verið til lögboðinnar brunatryggingar frá og með 1. janúar 1995. Að öðrum kosti framlengist vátryggingin til eins ár í senn.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Breyta þarf fyrirkomulagi brunatrygginga hér á landi vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Vegna skilyrða samkeppnisreglna þess samnings og til þess að aðgangur vátryggingafélaga að brunatryggingamarkaði hér á landi verði frjáls og jafn öllum á Evrópsku efnahagssvæði og vátryggingatakar geti sjálfir valið það vátryggingafélag sem þeir vilja skipta við þarf að fella niður heimild bæjar- og sveitarstjórna utan Reykjavíkur til að semja við eitt eða fleiri vátryggingafélög um brunatryggingar á öllum húsum í viðkomandi umdæmi, sbr. lög nr. 59/1954.
    Breytingar verður einnig að gera á brunatryggingum í Reykjavík, sbr. lög nr. 25/1954. Samkvæmt þeim lögum hefur Reykjavíkurborg einkarétt á brunatryggingum allra húsa í Reykjavík. Í EES-samningnum frá 2. maí 1992 er sérstakt undanþáguákvæði fyrir Húsatryggingar Reykjavíkur. Þessi undanþága gildir áfram að öðru leyti en því að einkarétt Húsatrygginganna til brunatrygginga þarf að afnema. Undanþágan gildir því að öðru leyti áfram gagnvart Húsatryggingum enda breyti þær í engu fyrirkomulagi eða umfangi starfsemi sinnar.
    Hér er lagt til samkvæmt þessu frumvarpi að lög nr. 25/1954 og lög nr. 59/1954 verði felld úr gildi og í staðinn komi ein lög um brunatryggingar þar sem tekið hefur verið tillit til nauðsynlegra breytinga samkvæmt framansögðu. Áfram verður um skylduvátryggingu að ræða.
    Nauðsynlegt er að kveða á um sérstaka aðlögun að hinu nýja fyrirkomulagi og er í bráðabirgðaákvæði kveðið á um framhald starfsemi Húsatrygginga Reykjavíkur.
    Utan Reykjavíkur verður fyrirkomulagið þannig samkvæmt bráðabirgðaákvæði að húseigendur eru einnig bundnir af gerðum samningum og skilmálum til ársloka 1994 en geta eftir það valið það vátryggingafélag sem þeir kjósa að undangenginni tilkynningu um uppsögn ásamt staðfestingu á því hvar þeir verði brunatryggðir. Að öðrum kosti framlengist vátryggingin til árs í senn. Þá er þess og gætt að við eigendaskipti verður vátrygging eigi felld niður fyrr en nýr eigandi hefur fullnægt vátryggingarskyldu.
    Með þessu fyrirkomulagi er tryggt að húseign verði áfram brunatryggð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Kveðið er á um skylduvátryggingu húseigna gegn eldsvoða. Í 1. og 2. mgr. er kveðið á um þær eignir sem falla undir skylduvátryggingu þessa. Vátryggingarskyldan hvílir á eiganda húseignar hverju sinni.
    Þegar um skylduvátryggingu er að ræða er mikilvægt að gæta þess að vátrygging sé jafnan fyrir hendi. Tekið er fram að vátryggingafélag skuli ekki taka gilda uppsögn skylduvátryggingar nema jafnframt sé fullvíst að vátrygging hafi verið tekin hjá öðru vátryggingafélagi. Sama regla gildir við eigendaskipti. Nýjum eiganda er skylt að vátryggja eignina hjá því vátryggingafélagi er vátryggði eignina eða öðru vátryggingafélagi.
    

Um 2. gr.


    Vátryggingarupphæð skylduvátryggðra húsa skal nema fullu verði þeirra eftir virðingu. Markmið virðingar er að finna hið sanna vátryggingarverðmæti, með öðrum orðum brunabótamat þegar virðing fer fram. Frumvarpið gerir ráð fyrir nýmæli þess efnis að Fasteignamati ríkisins verði falið það hlutverk að annast framkvæmd virðingar. Er talið heppilegt að sami aðili annist framkvæmd fasteignamats og virðingar til brunatryggingar húseigna. Fram til þessa hafa dómkvaddir matsmenn annast framkvæmd virðingar.
    Fram kemur að breyta skuli vátryggingarverði húsa til samræmis við vísitölu byggingarkostnaðar. Frumvarpið notar þá viðmiðun sem lögin um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59/1954, gera ráð fyrir.
    

Um 3. gr.


    Greinin fjallar um tjónsuppgjör. Fyrirmynd 1.–2. mgr. er sótt til laga um Brunabótafélag Íslands, nr. 9/1955, og vátryggingaskilmála sem í gildi hafa verið fram til þessa nema hámarksfrádráttur 15% er ekki nefndur. Er talið að ákvæði í reglugerð eigi að ákveða hverju sinni hámarksfrádrátt sem þennan. Í 3. mgr. er getið heimildar sveitarstjórna til þess að leysa til sín vátryggða húseign í framhaldi af brunatjóni vegna eldhættu eða af skipulagsástæðum. Ákvæði þessa efnis er að finna í lögum um brunatryggingar í Reykjavík, nr. 25/1954, og lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59/1954.
    

Um 4. gr.


    Grundvöll þessarar greinar er að finna annars vegar í lögum um brunatryggingar í Reykjavík, nr. 25/1954, og hins vegar lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur, nr. 59/1954.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir því að sett verði reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Frumvarpið hefur að geyma tiltölulega fá ákvæði og því mikilvægt að sett verði ítarlegri ákvæði í reglugerð m.a. um verksvið vátryggjanda, skyldur vátryggingataka, bótauppgjör, undanskildar áhættur, t.d. af völdum náttúruhamfara, réttarstöðu þeirra sem veðréttindi eiga og framkvæmd virðingar og yfirmats, þar á meðal kostnað virðingar.
    

Um 6. gr.


    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við breytingar á löggjöf í kjölfar samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Lagt er til að lögin taki þegar gildi, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir talsverðri breytingu á núverandi fyrirkomulagi. Lögin munu ekki koma til framkvæmda að öllu leyti fyrr en þann 1. janúar 1995 og vegna þessa er mikilvægt að hafa bráðabirgðaákvæði er tekur á réttarstöðu vátryggingataka og vátryggjanda brunatryggingar fasteigna.


Fylgiskjal.
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um brunatryggingar.


    Ekki verður séð að frumvarpið hafi bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Fasteignamat ríkisins annist virðingu fasteigna og verður að ætla að stofnunin innheimti gjald fyrir matskostnaði með tilvísan til 4. gr. frumvarpsins.