Ferill 485. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 485 . mál.


1008. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um athugasemdir Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað hefur ráðherra gert til að fylgja eftir athugasemdum Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1992?

    Farið hefur verið eftir þeim almennu athugasemdum sem gerðar voru um bókhald og fjármál stofnana sem undir ráðuneytið heyra og ráðuneytisins.
    Í athugasemdum um einstakar stofnanir er fjallað um eftirtalin atriði:

11-302 Rafmagnseftirlit ríkisins.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er vikið að endurskipulagningu rafmagnsöryggismála og greinargerð Hagsýslu ríkisins um skipan rafmagnsöryggis. Á vegum ráðuneytisins er unnið að endurskoðun rafmagnsöryggismála á grundvelli ofangreindrar skýrslu og með tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af aðild Íslendinga að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ráðuneytið er sammála skoðun Ríkisendurskoðunar um innheimtu rafmagnseftirlitsgjalds að hún væri betur komin hjá innheimtumönnum ríkissjóðs. Hins vegar er gert ráð fyrir í þeim tillögum sem fyrir liggja að gjaldið verði lækkað í áföngum á næstu árum og hefur af þeim sökum ekki þótt ástæða til að breyta tilhögun innheimtunnar að svo stöddu.
    Unnið hefur verið að því að leiða innheimtumál þau, sem vikið er að í skýrslunni, til lykta.

11-321 Rafmagnsveitur ríkisins.
    Rafmagnsveitur ríkisins sendu ríkisendurskoðanda ítarlega greinargerð vegna athugasemda við ársreikning 1992 og héldu með honum fund um málið þar sem kynntar voru þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til. Í þessu sambandi er rétt að benda á eftirfarandi:
    Hjá Rafmagnsveitum ríkisins er verið að koma á gæðastjórnunarkerfi samkvæmt staðlinum IST 9001. Í þessu felst að vinnuferlar eru endurskoðaðir og settar eru ítarlegar verklagsreglur um einstaka þætti starfseminnar og skilgreint með hvaða hætti vinna skal að úrbótum og hvernig eftirliti skuli háttað. Unnið hefur verið að þessu verkefni undanfarið ár og verður fyrsti hluti gæðakerfisins tekinn í notkun síðar á þessu ári en kerfið í heild á næsta ári.
    Samhliða og í tengslum við gæðakerfið hafa vinnubrögð við áætlanir fyrirtækisins verið endurskipulögð, þ.e. vinna við rekstraráætlun, framkvæmdaáætlun, greiðsluáætlun, fjárhagsáætlun og eftirlit með þeim.
    Þá eru Rafmagnsveiturnar að endurskipuleggja allt birgðahald fyrirtækisins og birgðastýringu. Aðalbirgðastöð fyrirtækisins í Reykjavík hefur verið lögð niður og starfsemin flutt út á land. Unnið hefur verið að aðstöðusköpun úti á landi vegna þessara breytinga sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til birgðahalds.
    Að öðru leyti hefur verið hert á kostnaðareftirliti, reglum um aðgerðir vegna vanskila, reglum um meðferð bifreiða o.s.frv. Reglur þessar falla síðan inn í framangreint gæðastjórnunarkerfi.