Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 483 . mál.


1018. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um athugasemdir Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað hefur ráðherra gert til að fylgja eftir athugasemdum Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1992?

    Svar við fyrirspurninni er í tveimur liðum, annars vegar almennar ábendingar um uppgjör og framsetningu ríkisreiknings og hins vegar ábendingar er varða stofnanir fjármálaráðuneytisins.

Almennar ábendingar.
    Í skýrslunni er talið að skilin milli A- og B-hluta séu afar óljós og því undir hælinn lagt hvorum megin stofnanir og fyrirtæki eru færð. Við þessari ábendingu er það einfalda svar að í tillögum ríkisreikningsnefndar, sem birtar verða innan skamms, eru m.a. sett fram skýrari mörk um skilgreiningu þessara aðila.
    Bent er á að rekstrarform heilsugæslustöðva sé með ýmsu móti og aðild sveitarfélaganna að rekstri þeirra. Ábending yfirskoðunarmanna er að gerður verði samanburður á rekstrarformi og rekstri stöðvanna og kannað hvort leita megi leiða til sparnaðar. Því er til að svara að Hagsýsla ríkisins er langt komin með slíka samanburðarathugun sem ætti að geta orðið til þess fallin að endurmeta fjárveitingar til heilsugæslunnar.
    Vakið er máls á því að nú hafi lífeyrisskuldbindingar verið færðar til bókar hjá ríkinu um nokkurt skeið en bent á að hér sé um stórt mál að ræða sem samtök launafólks og ríkisvaldið þurfi að taka á. Málefni lífeyrissjóða eru nú til sérstakrar athugunar. Fyrst má nefna undirbúning frumvarps um starfsemi lífeyrissjóða. Í annan stað er unnið að leiðréttingu á réttindabókhaldi opinberra starfsmanna sem leyfir að færa til gjalda og skulda hjá mismunandi stofnunum og fyrirtækjum þær skuldbindingar sem stofnað hefur verið til í þessu efni.
    Yfirskoðunarmenn telja ágæta reynslu af starfsemi Fasteigna ríkissjóðs og benda á að e.t.v. mætti gefa stofnuninni víðtækara hlutverk. Jafnframt benda þeir á að tímabært sé að endurskoða lög um embættisbústaði með það að markmiði að ríkið selji þá og þá eftir fyrir fram gerðri áætlun. Hér má benda á að árið 1992 var reglugerð um húsaleigu tekin til gagngerðrar endurskoðunar sem færði útleigu á eignum ríkisins í betra horf. Nú hefur verið rætt um það í fjármálaráðuneytinu hvort skoða eigi nýtingu á húsnæði í ríkiseigu og hvernig fara megi með kostnað í sambandi við það.
    Á síðustu árum hefur vinna við fjárlagagerð sveigst til meiri þátttöku og ábyrgðar einstakra ráðuneyta í því starfi. Beitt hefur verið svokölluðum útgjaldarömmum sem felst í því að á grundvelli stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum fær hvert ráðuneyti tiltekna fjárhæð til ráðstöfunar til skipta á málaflokka og stofnanir. Samhliða aukinni ábyrgð ráðuneyta hefur safnliðum fjölgað og ráðherrum er ætlað sérstakt ráðstöfunarfé til að mæta óvissum útgjöldum. Yfirskoðunarmenn benda á að slíkir safnliðir geri samanburð á fjárlögum og útkomu erfiðan og nauðsyn sé á að setja reglur um notkun slíkra liða. Ráðuneytið getur tekið undir það að settar verði ákveðnar reglur um slíka ráðstöfun en bendir á að aukin ábyrgð ráðuneyta á gerð fjárlaga og eftirliti með framkvæmd þeirra hafi bætt fjármálastjórn og dregið úr frávikum í rekstri stofnunar frá fjárlögum.
    Í skýrslunni er vakin athygli á því að talsverður fjöldi stofnana ríkisins færi bókhald sitt í öðrum kerfum en í bókhalds- og áætlanakerfi ríkisins (BÁR). Talin er þörf á að ríkið marki skýra stefnu í þessum málum. Því er til að svara að á vegum Ríkisbókhalds starfar nefnd helstu hagsmunaaðila sem vinnur að því að endurmeta þarfir ríkisstofnana í bókhaldsuppgjöri og marka stefnu í þessum efnum. Áformað er að nefndin ljúki störfum á þessu ári.
    Á síðasta ári birti ráðuneytið mat á innheimtuárangri ásamt ítarlegri sundurgreiningu og nákvæmri skilgreiningu í því efni. Ráðuneytið telur að þessi aðferð gefi mun betri mynd af innheimtuárangri en fengist hefur með þeim aðferðum sem beitt hefur verið til þessa einkum að því er varðar samanburð milli tímabila og innheimtuembætta. Þá skekkir sjálfvirkur dráttarvaxtaútreikningur á niðurfærðar kröfur mjög þá mynd sem dregin er af þessum málum í dag. Á undanförnum árum hefur af hálfu ráðuneytisins verið markvisst unnið að því að bæta innheimtu opinberra gjalda. Mikilvægt er að í umfjöllun um framkvæmd þessara mála séu þeim gerð fullnægjandi skil með raunhæfum mælikvörðum. Í skýrslunni kemur hins vegar fram að Ríkisendurskoðun telur ekki um sinn ástæðu til að breyta um aðferðir. Ráðuneytið telur mikilvægt að samstaða náist um þær aðferðir sem notaðar eru.
    Í skýrslunni er vakin á því athygli að erfiðleikum sé háð að meta rekstrarárangur ríkisstofnana. Hann sé of oft mældur eftir því hvernig þeim tekst að haga rekstri innan ramma fjárveitinga án tillits til umfangs þeirrar þjónustu sem veitt er. Í því samhengi vill ráðuneytið taka fram að á vegum þess hefur á síðustu árum verið unnið að tillögugerð um breyttar áherslur í rekstri ríkisins. Í stað þess að miða fjárveitingar eingöngu við magn þeirra aðfanga sem notuð eru við reksturinn verði stofnunum ríkisins sett markmið um þá þjónustu sem þeim er ætlað að veita á grundvelli fjárheimilda. Nú nýverið kynnti fjármálaráðherra á ráðstefnu hugmyndir um nýskipan í ríkisrekstri, svokallaða samningsstjórnun, sem m.a. byggist á samningum við stofnanir um skilgreinda þjónustu fyrir tiltekið verð.
    Í ábendingum yfirskoðunarmanna er fjallað um það með hvaða hætti eigi að taka á þeim athugasemdum sem þar koma fram. Í tengslum við endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar koma óhjákvæmilega upp athugasemdir um atriði sem færa má til betri vegar. Í mörgum tilvikum er um að ræða bókhaldstæknileg mál eða frágang bókhaldsgagna sem eðlilegast er að leysa beint milli viðkomandi stofnunar og Ríkisendurskoðunar. Í öðrum tilvikum getur verið um að ræða atriði sem varða frávik frá heimildum fjárlaga sem Ríkisendurskoðun vill vekja athygli á í sinni endurskoðunarskýrslu. Eðlilegast er að á slíkum málum sé tekið með fundi Ríkisendurskoðunar og viðkomandi ráðuneytis. Á það má jafnframt benda að mikilvægt er að endurskoðunarskýrslan sé gefin út svo skjótt sem frekast er kostur eftir lok reikningsárs. Með þeim hætti hafa ábendingar í skýrslunni meira vægi en ella.

Ábendingar er varða rekstur stofnana fjármálaráðuneytis.
    Ríkisendurskoðun hefur lagt fram sérstakar endurskoðunarskýrslur fyrir nokkrar ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki sem undir fjármálaráðuneytið heyra, þ.e. Lánasýslu ríkisins, Lyfjaverslun ríkisins og Ríkiskaup. Ráðuneytið telur margar ábendingar í umræddum skýrslum gagnlegar. Hefur ráðuneytið beint þeim tilmælum til stjórna og forstöðumanna umræddra stofnana að athugasemdir og ábendingar Ríkisendurskoðunar séu sérstaklega skoðaðar. Ráðuneytið vill þó vekja athygli á eftirfarandi liðum.
    Í umfjöllun um Lyfjaverslun ríkisins er það gagnrýnt að ráðist sé í breytingar á framleiðsluaðstöðu fyrirtækisins á sama tíma og fyrir dyrum standi að breyta því í hlutafélag. Ráðuneytið telur að full rök séu fyrir þessari ákvörðun og hefur lagt fram gögn þar að lútandi. Ákvörðun um framkvæmdirnar voru teknar af Alþingi áður en frumvarp um stofnun hlutafélagsfyrirtækisins kom fram. Á það má jafnframt benda að frumvarp um að breyta fyrirtækinu í hlutafélag hefur enn ekki verið afgreitt frá Alþingi meira en einu ári eftir að það kom fyrst fram.
                  Hitt er til umhugsunar hvort það sé á verksviði Ríkisendurskoðunar að setja fram athugasemdir um stefnumörkun Alþingis í ýmsum málum. Með sama hætti gæti verið tilefni til umfjöllunar um stefnumörkun, t.d. í skólamálum, heilbrigðismálum eða umönnunarmálum fatlaðra. Eðlilegra er að í endurskoðunarskýrslu ríkisreiknings sé gerð grein fyrir því hvort fjárhagslegar ráðstafanir séu í samræmi við heimildir Alþingis og gerðar starfsreglur og að reikningsskil gefi glögga mynd af rekstri og efnahag.
                  Þá er enn fremur ranglega fullyrt í skýrslunni að vegna fyrirhugaðra framkvæmda Lyfjaverslunar ríkisins hafi hún ekki greitt arð í ríkissjóð frá árinu 1989 þrátt fyrir umtalsverðan hagnað. Ríkisendurskoðun var á fyrri stigum bent á að hið rétta í þessu máli er að á árinu 1989 var ákveðið að nota hagnað Lyfjaverslunarinnar til að greiða niður skuld hennar við ríkissjóð í stað þess að greiða hann sem arð til ríkissjóðs. Skuld þessi varð til þegar skilið var á milli fjárhags hennar og ÁTVR í júlí 1986. Í lok ársins 1989 nam skuldin um 240 millj. kr. á verðlagi í lok árs 1992. Ofangreind ákvörðun um endurgreiðslu var tekin eftir ábendingu frá Ríkisendurskoðun um þetta efni.
                  Loks er gerð athugasemd við það að Lyfjaverslunin hafi einungis greitt 19 millj. kr. af skuld sinni við ríkissjóð í stað 62 millj. kr. eins og áformað var í fjárlögum. Til svars vill ráðuneytið taka fram að í fjárlögum 1992 var gert ráð fyrir verulegri aukningu hagnaðar frá fyrra ári og að hann yrði 116 millj. kr. í stað 47 millj. kr. og fjárfesting áætluð 64 millj. kr. Í raun varð hagnaður 67 millj. kr. eða tæpum 50 millj. kr. lægri en áætlað var. Þessari lækkun getur fyrirtækið ekki mætt með öðrum hætti en að draga úr fjárfestingu og afborgunum lána.
    Í umfjöllun um Lánasýslu ríkisins er því haldið fram með tilvísun til laga um starfsemi hennar að sýna eigi allan lántökukostnað í reikningum hennar. Ráðuneytið er algerlega ósammála þessari fullyrðingu og telur engin ákvæði laga um starfsemi Lánasýslu ríkisins styðja þessa fullyrðingu. Samkvæmt lögum eru Lánasýslunni ætluð ákveðin verkefni hvað varðar lánaumsýslu ríkisins. Hins vegar var aldrei áformuð nein breyting á færslu lána ríkissjóðs eða fjármagnskostnaði þeirra lána með þessari lagasetningu. Lántökukostnaður er samkvæmt almennri bókhaldsvenju hluti af fjármagnskostnaði og ber því að færa með vaxtagjöldum. Á reikninga Lánasýslunnar færist því eingöngu venjubundinn stjórnsýslukostnaður við slíka starfsemi.