Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 480 . mál.


1022. Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um athugasemdir Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað hefur ráðherra gert til að fylgja eftir athugasemdum Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1992?

    Eins og fram kemur í athugasemdum Ríkisendurskoðunar gerði utanríkisráðuneytið í ársbyrjun 1992 ráðstafanir til að bæta eftirlit með yfirfærslu fjármuna þannig að ekki verði greitt meira til sendiráða og fastanefnda en nemur eðlilegri fjárþörf þeirra á hverjum tíma.
    Utanríkisráðuneytið mun framvegis taka mið af ábendingum um færslu söluandvirðis vegna eignabreytinga og færa tekjur á ríkissjóðstekjur á því ári sem eignabreytingar verða.

Fríhöfn, Keflavíkurflugvelli.
    Gerðar hafa verið ráðstafanir í fullu samræmi við ábendingar í athugasemdum, einkum hefur með tölvuskráningu verið bætt talning á lager og skráning lagerbókhalds.

Flugmálastjórn, Keflavíkurflugvelli.
    Endurskoðun og athugun á gjaldskrá flugvallarins hefur farið fram og mun áfram verða til skoðunar í tengslum við hugmyndir um markaðssetningu flugvallarins, aukna nýtingu hans, fríiðnaðarsvæði o.fl.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
    Unnið er að lausn á fjárhagsvanda flugstöðvarinnar. Í nánu samráði við fjármálaráðuneyti eru nú í undirbúningi tillögur er miða að lausn fjárhagsvandans og vonast er til að niðurstaða þar um verði í maímánuði nk.