Ferill 488. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 488 . mál.


1047. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um athugasemdir Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
     Hvað hefur ráðherra gert til að fylgja eftir athugasemdum Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1992?

    Athugasemdir Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings lúta að eftirtöldum þáttum í rekstri stofnana ráðuneytisins á árinu 1992:
    1. Ríkisendurskoðun gagnrýnir það fyrirkomulag að ferjurekstraraðilar séu skuldarar lána sem tekin hafa verið vegna þeirra. Þegar ríkissjóður ákveður að lána til kaupa á ferjum er hann um leið að taka ákvörðun um að greiða þann kostnað sem af kaupunum leiðir. Það er því mat Ríkisendurskoðunar að eðlilegt sé að ríkið taki á sig formlega skuldbindingu vegna kaupanna um leið og þau eru ákveðin.
    Með því að fela Vegagerð ríkisins umsjón með ferjum og kosta rekstur þeirra af vegafé var stigið fyrsta skrefið í þá átt að auka ráðdeild í rekstri þeirra. Nú er unnið að því að stofnuð verði hlutafélög þar sem Vegagerðin eigi meiri hluta og sé þar með formlegur skuldari lána vegna þeirra.
    2. Ríkisendurskoðun telur að athuga þurfi hvort ekki sé ástæða til að fækka fjárlagaliðum vegna vita- og hafnamála í ljósi þess að um eina deildaskipta stofnun er að ræða.
    Ráðuneytið mun leggja til við fjármálaráðuneytið að við fjárlagagerð ársins 1995 verði fjárlagaliðum vegna vita- og hafnamála fækkað.
    3. Hjá Flugmálastjórn er gerð sú athugasemd að breyta þurfi fyrirkomulagi á greiðslum til starfsmanna vegna aksturs, en í gildi hefur verið samkomulag við stéttarfélög starfsmanna frá árinu 1987 um að stofnunin greiði starfsmönnum á Reykjavíkurflugvelli árlega ákveðna fjárhæð í stað þess að sjá þeim fyrir ferðum til og frá vinnustað.
    Gengið hefur verið frá samningum við starfsmenn á Reykjavíkurflugvelli sem þiggja greiðslur vegna aksturs á milli heimilis og vinnustaðar.
    4. Í athugasemdum Ríkisendurskoðunar kemur fram að Flugmálastjórn beri að gæta betur að því að fá frumrit flugfarseðla vegna ferða erlendis. Þá ber stofnuninni að fá viðbótarheimild breytist ferðatilhögun frá áður veittri heimild.
    Flugmálastjórn gengur mjög ákveðið eftir því að fá frumrit farseðla vegna ferða starfsmanna erlendis. Þess er gætt að leita eftir viðbótarheimild til ráðuneytisins breytist ferðatilhögun starfsmanna.
    5. Ríkisendurskoðun spyr í skýrslu sinni um Ferðamálasjóð „hvort ekki sé heppilegt í ljósi reynslunnar að þrengja heimildir hans (til lánveitinga) nokkuð frá því sem nú er og gera þær um leið markvissari“.
    Ráðuneytið telur ekki ástæðu til þess að þrengja heimildir Ferðamálasjóðs. Sjóðurinn starfar innan heimilda laga auk þess sem ávallt er fylgst með starfsemi hans af aðilum sem láta sig ferðamál varða, þar á meðal Alþingi og Ríkisendurskoðun.