Ferill 540. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 540 . mál.


1048. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Vilhjálms Egilssonar um gjaldskrá Pósts og síma.

    1. Hverjar breytingar hafa orðið á gjaldskrá Pósts og síma frá 1990?
    Frá árinu 1981 til apríl 1994 hefur símakostnaður innan lands lækkað að raungildi um 59% sem aðallega verður fyrir 1990. Háar greiðslur í ríkissjóð undanfarin ár hafa þrengt mjög verulega svigrúm fyrirtækisins til lækkunar á gjaldskrám. Eftir 1990 hefur stefna Pósts og síma verið að beita takmörkuðu svigrúmi til þess að lækka gjaldskrá fyrir símtöl til útlanda.
    Frá árslokum 1990 til apríl 1994 eru eftirfarandi breytingar helstar:

Gjaldskrá fyrir símaþjónustu innan lands.
    Stofngjald og ársfjórðungsgjald fyrir númer í miðstöð og línu hafa hækkað um 11% og sama hækkun hefur orðið á verði teljaraskrefs.
    Stofngjald í almenna gagnanetinu hefur hækkað um tæp 11% og sama gildir um gjald fyrir hvert samband og tímagjald. Afnotagjald hefur lækkað um allt að 17% og magngjald hefur lækkað um 27% innan stöðvarsvæðis en er óbreytt milli stöðvarsvæða. Á tímabilinu var síðan tekinn upp afsláttur á magngjaldi sem getur numið allt að 50% eftir fjölda gagnasneiða í hverjum mánuði.
    Stofngjald og afnotagjald fyrir leigulínur hefur hækkað um 11% en teknir hafa verið upp fleiri möguleikar hvað varðar hraða fyrir gagnasendingar og breyting hefur verið gerð á samsetningu gjalda sem hefur ekki í för með sér umframhækkun. Breytingar á gjaldi fyrir gagnasendingar á langlínu hafa verið mjög mismunandi eða frá því að hækka um 11% í það að lækka um allt að 62% eftir því við hvaða hraða er miðað.
    Aðrir liðir í gjaldskránni fyrir símaþjónustu innan lands hafa hækkað um 9–11%. Á sama tíma hefur framfærsluvísitala hækkað um rúmlega 14%.
    Samkvæmt könnun, sem nýlega var gerð á vegum OECD í aðildarlöndum, eru útgjöld vegna símanotkunar innan lands lægst á Íslandi og er þá sama hvort miðað er við kostnað heimila eða fyrirtækja. Sama gildir fyrir farsíma. Hvað varðar gagnanet og línuleigu er Ísland fyrir neðan meðaltal aðildarlanda.

Gjald fyrir sjálfvirkt val til útlanda.
    Gjald fyrir símtal til Norðurlanda hefur lækkað um 16,5%.
    Gjald fyrir símtal til Bretlands hefur lækkað um 15,5%.
    Gjald fyrir símtal til Þýskalands hefur lækkað um 28,0%.
    Gjald fyrir símtal til Frakklands hefur lækkað um 31,0%.
    Gjald fyrir símtal til Bandaríkjanna hefur lækkað um 21,8%.
    Gjald fyrir símtal til annarra landa hefur lækkað um 11–13%.
    Að meðaltali hefur gjaldskrá fyrir símtöl til útlanda lækkað um 19% á tímabilinu.
    Samkvæmt könnun, sem nýlega var gerð á vegum OECD á kostnaði í aðildarlöndum vegna hringinga til útlanda, er Ísland í miðjum hópnum.

Gjaldskrá fyrir póstþjónustu.

    Gjaldskrá fyrir póstþjónustu hefur hækkað um 28% að meðaltali á tímabilinu. Í lok ársins 1992 var gerð breyting á gjaldskrá fyrir póstþjónustu. Var þá tekinn upp A- og B-póstur í almennum bréfum til útlanda þar sem burðargjald ákvarðast af gæðum þjónustunnar en ekki innihaldi sendinga eins og áður var. Innan lands er eingöngu gert ráð fyrir A-pósti. Var þetta áfangi í því að breyta uppbyggingu gjaldskrár til samræmis við það sem er að gerast í nágrannalöndum okkar.
    Póstþjónusta skilaði 22,3% tekna 1990 og 25,2% tekna 1993.

    2. Eru breytingar fyrirhugaðar á gjaldskrá Pósts og síma á árinu 1994 og ef svo er þá hverjar?

Gjaldskrá fyrir símaþjónustu.
    Engar breytingar eru ákveðnar á gjaldskrá fyrir símaþjónustu en til athugunar er að leggja fram tillögu um stækkun gjaldsvæða, fækkun innifalinna skrefa í ársfjórðungsgjaldi og lækkun á gjaldskrá fyrir símtöl til útlanda. Ekki er gert ráð fyrir að slík breyting hafi áhrif á tekjur fyrirtækisins heldur verður um tilfærslur að ræða. Ekki er ljóst hvenær slík tillaga verður lögð fram.

Gjaldskrá fyrir póstþjónustu.
    Mikil nauðsyn er á því að leiðrétta og færa nær raunkostnaði burðargjald fyrir innrituð blöð og tímarit, ábyrgðarsendingar og fleiri liði. Er þar um að ræða framhald á þeirri breytingu sem var gerð á gjaldskránni í nóvember 1992. Samtímis er fyrirtækinu mikilvægt að geta brugðist við mikilli og ört vaxandi samkeppni í dreifingu sendinga með endurskipulagningu og hagræðingu í starfsemi póstþjónustunnar um allt land.