Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 283 . mál.


1112. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Þegar núgildandi lög um stjórn fiskveiða voru afgreidd frá Alþingi vorið 1990 náðist um það samkomulag að á næstu tveimur árum skyldi fara fram endurskoðun lagaákvæða um stjórn fiskveiða. Var frá þessu gengið í sérstöku ákvæði til bráðabirgða sem einnig fól í sér lýsingu á tilhögun þessarar endurskoðunar. Var þar tekið fram að hafa skyldi náið samráð við helstu hagsmunaaðila og sjávarútvegsnefnd. Þarna var fylgt þeirri hefð sem skapast hafði á undangengnum árum að fulltrúar allra stjórnmálaflokka kæmu jafnan að vinnu af þessu tagi.
    Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum vorið 1991 tók hún að sjálfsögðu við þeim skyldum sem framangreint lagaákvæði lagði stjórnvöldum á herðar og bar því að hafa forustu fyrir endurskoðun laganna sem ákveðin hafði verið vorið 1990.
    Skemmst er frá því að segja að þessu verkefni hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og sjávarútvegsráðherra Þorsteinn Pálsson fyrir hennar hönd klúðrað með öllu. Ríkisstjórnin valdi það ógæfulega verklag strax í byrjun að loka málið af í þröngum hópi stjórnarliða og til varð hin fræga tvíhöfðanefnd, skipuð fulltrúum stjórnarflokkanna eingöngu. Ofan í kaupið komu stjórnarflokkarnir sér ekki saman um eðlilega forustu fyrir nefndinni og sjávarútvegsráðherra, sem eðli málsins samkvæmt hefði átt að bera ábyrgð á endurskoðunarstarfinu, og því sjálfgefið að hann skipaði formann, gaf það eftir. Stjórnarflokkarnir tilnefndu hvor sinn manninn og til varð hinn frægi bastarður tvíhöfðanefnd. Fljótlega kom á daginn að það stóð ekki til að vinna málið í samræmi við ákvæði laganna og allt samráð við stjórnarandstöðuna sem slíka var hunsað og einnig að mestu leyti við sjávarútvegsnefnd fyrir utan þau skipti þegar sjávarútvegsnefnd sjálf hafði frumkvæðið að því að kalla fyrir sig forustumenn tvíhöfðanefndar eða krefjast upplýsinga um hvar nefndarstarfið væri á vegi statt. Ekki bætti það úr skák að þegar kom fram á árið 1993 drógu sjómenn sig út úr þessu starfi þar sem að þeirra mati voru engin sjáanleg merki um að taka ætti mark á þeirra sjónarmiðum. Afleiðingarnar urðu svo þær sem allir þekkja. Frá upphafi stóð mikill styrr um niðurstöðu tvíhöfðanefndar og þær tillögur sem hún gerði um framtíðarfyrirkomulag á stjórn fiskveiða. Bullandi óánægja og ágreiningur varð fylgifiskur tillagna tvíhöfðanefndar strax frá byrjun eins og miklir hitafundir nefndarinnar í kjördæmunum gáfu strax tóninn um.
    Deilur, sem tengdust viðskiptum með veiðiheimildir, svonefnt kvótabrask, fóru harðnandi eftir því sem leið á árið 1993 og leiddu að lokum til þess að sjómenn skáru upp herör gegn ástandinu og boðuðu til verkfalls. Óþarfi er að rekja þá sögu í einstökum atriðum því að hún er mönnum í fersku minni og lyktir þess kafla urðu með setningu bráðabirgðalaga fáeinum dögum áður en Alþingi átti að hefja störf á nýjan leik í janúarmánuði. Með því var deilunni í rauninni slegið á frest um hálfs árs skeið. Loforð ríkisstjórnarinnar um að leggja fram frumvörp sem tækju á kvótaviðskiptunum og kæmu þeim í farveg gufuðu upp og urðu að engu.
    Síðan hefur tíminn liðið og komið er fram í miðjan apríl þegar skyndilega berast af því fréttir að stjórnarflokkarnir hafi sín í milli og innbyrðis í sínum þingflokkum með miklum hrossakaupum náð saman um tillögur til breytinga á þeim frumvörpum sem fyrir þinginu lágu og er sú atburðarás öll með ólíkindum. Eftir langan og strangan þingflokksfund hjá Sjálfstæðisflokknum, sem ætla verður að hafi helst líkst einhvers konar uppboðsmarkaði, slík virðast hrossakaupin hafa verið, kom sjávarútvegsráðherra vígreifur fram í fjölmiðlum um miðnætti og lýsti því yfir að nú væru þau tímamót orðin að ríkisstjórnin hefði meiri hluta fyrir málum sínum á þingi. Meiri hluti stjórnarflokkanna væri nú tryggður á bak við stjórnarfrumvörp um sjávarútvegsmál. Á daginn kom að stuðningur við málið hafði verið keyptur með alls konar óskyldum þáttum sem til sjávarútvegsmálanna heyra, svo sem með því að auka rækjukvótann um 7 þús. tonn, breyta reglum um togveiðihólf og öðru því um líku. Virðist þetta hafa verið einhvers konar meðlagsgjöf til þeirra stjórnarþingmanna sem erfiðast áttu með að lofa stuðningi við stjórnarfrumvörp um sjávarútvegsmál og breytingar á þeim sem nú hafa verið boðaðar. Síðan hefur komið á daginn að stjórnarflokkarnir treysta sér ekki til að taka mark á gagnrýni eða breytingartillögum sem fram hafa komið af ótta við að samkomulagið springi í loft upp.
    Það er óhjákvæmilegt að gagnrýna það harðlega að það endurskoðunarstarf, sem sett var á stað við afgreiðslu laganna vorið 1990 og staðið hefur allan þennan tíma og átti reyndar að ljúka í árslok 1992, skuli eftir allan þann tíma enda með því að lagðar eru til verulegar breytingar sem fram koma á síðustu stundu þannig að sáralítill tími gefst til að vega þær og meta við afgreiðslu málsins. Auðvitað er ljóst að hér er á engan hátt að málum staðið með þeim hætti sem vera skyldi. Það er enn fremur ljóst að því fer víðs fjarri að hér sé á ferðinni sú heildstæða stefnumótun og mótun nýrrar og heildstæðrar sjávarútvegsstefnu sem taki bæði til veiða og vinnslu sem talað hefur verið um og rætt er um í málefnasamningi ríkisstjórnar. Hér er ekkert slíkt á ferðinni heldur eingöngu plástrar á kerfið og lagfæringar til að reyna að lægja óánægjuöldur hnýttar saman með hrossakaupum stjórnarflokkanna.
    Fyrsti minni hluti lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni á þessum vinnubrögðum. Umsagnir, sem nefndinni hafa borist um frumvarpið, tala sínu máli um það hve vandasöm mál eru hér á ferð. Jafnframt eru birtar athugasemdir og umsagnir þeirra aðila sem nefndin náði að tala við frá því breytingartillögur ríkisstjórnarflokkanna litu dagsins ljós, en allt of skammur tími gafst til að fara yfir þær og draga fram í dagsljósið þau áhrif sem afgreiðsla þeirra kann að hafa á starfsumhverfi sjávarútvegsins.
    Fulltrúar 1. minni hluta munu flytja breytingartillögu við frumvarpið þar sem tekið er á nokkrum meginatriðum. Tekið skal fram að þar er eingöngu um nokkur grundvallaratriði að ræða þótt þörf væri á að skoða lagfæringar og breytingar á fjölmörgum fleiri sviðum. Ljóst er að engar forsendur hafa skapast til þess að Alþingi sjálft og sjávarútvegsnefnd þingsins leggi vinnu í að reyna að ná samstöðu um að móta heildstæða sjávarútvegsstefnu. Eins og stjórnarflokkarnir hafa staðið að þessum málum er Alþingi og sjávarútvegsnefnd í reynd stillt upp við vegg gagnvart þeim hrossakaupum málamiðlana sem stjórnarflokkarnir hafa ástundað sín í milli og verður enn að átelja það. Því er hér valin sú leið að undirstrika nokkrar grundvallaráherslur Alþýðubandalagsins í breytingartillögum sem fram koma á sérstöku þingskjali.
    Lagt er til að 3. málsl. 1. gr. laganna verði breytt. Tryggja verður að arðurinn af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar renni til íbúa byggðanna og landsmanna allra en ekki til fáeinna útgerðaraðila. Stöðva verður þá eignamyndun á óveiddum fiski sem þegar á sér stað í núgildandi kerfi þrátt fyrir sameignarákvæði laganna um stjórn fiskveiða. Það að bæta orðunum „ígildi eignarréttar“ inn í 3. málsl. l. gr. er stefnumarkandi fyrir lagasetninguna sjálfa, setur öllum framsalsmöguleikum veiðiheimilda þrengri ramma og vísar afgerandi veginn við túlkun laganna.
    Lagt er til að ný málsgrein bætist við 3. gr. laganna. Þetta ákvæði á að tryggja að leyfður hámarksafli náist og draga úr einkaréttar- og eignarréttaráhrifunum sem aflamarksúthlutunin veldur. Ákvæðið er nánast forsenda þess að hægt sé að takmarka leigu veiðiheimilda innan ársins. Til að örugglega sé hægt að halda veiðunum innan þess ramma sem ákvörðun um hámarksafla setur er ráðherra veitt heimild til að afturkalla ákvörðun um „frjálsar veiðar“ ef útlit verður fyrir að flotinn fari fram úr settu marki.
    Lagt er til að við lögin bætist þrjú ný ákvæði til bráðabirgða. Ákvæði þessi skýra sig sjálf. Hér er valin sú leið að setja efni þeirra fram sem ákvæði til bráðabirgða þar sem þeim er annars vegar ætlað að hafa tímabundin áhrif (ákvæði I og II) eða taka á aðkallandi vandamáli með tilteknum hætti án þess að því sé slegið föstu að slíkt fyrirkomulag skuli gilda um ókomin ár (ákvæði III).
    Alþýðubandalagsmenn munu við afgreiðslu frumvarpsins og breytingartillagna meiri hlutans taka efnislega afstöðu til einstakra þátta málsins og styðja þær breytingartillögur sem þrátt fyrir allt horfa til réttrar áttar en eftir atvikum greiða atkvæði gegn eða sitja hjá við aðrar. Að lokum skal undirstrikað að lýsa verður fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni fyrir þau ótrúlegu handarbakavinnubrögð og klúður sem ástunduð hafa verið í öllum málefnum sjávarútvegsins. Það er dapurlegt til þess að vita að þessi undirstöðugrein í íslensku atvinnulífi og íslenskri gjaldeyrissköpun skuli þurfa að sæta slíkri meðferð á sínum málum af hálfu ríkisstjórnar landsins.

Alþingi, 28. apríl 1994.



Steingrímur J. Sigfússon,

Jóhann Ársælsson.


frsm.





Fylgiskjal I.


Umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.


(19. apríl 1994.)



    Stjórn LÍÚ kom saman til fundar 18. apríl sl. til að fjalla um frumvörp sjávarútvegsráðherra varðandi samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna, um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, tillögur til breytinga á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sérstakan viðbæti við breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingu á fiskveiðistjórnarlögunum og breytingartillögur við frumvarp til laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.
    Hér fara á eftir athugasemdir stjórnarinnar við einstök frumvörp:
    Stjórn LÍÚ lýsir yfir stuðningi við frumvarp um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna. Stjórnin telur að efni frumvarpsins í núverandi mynd geti orðið til þess að leysa hugsanleg ágreiningsefni milli útvegsmanna og sjómanna ef upp kemur ágreiningur varðandi uppgjörsmál þeirra.
    Sjávarútvegsráðherra hafa áður verið kynnt sjónarmið LÍÚ varðandi afstöðu til krókaleyfisins og ítrekar stjórn samtakanna fyrri yfirlýsingar. Þegar núgildandi lög voru sett voru miklar deilur uppi um skiptingu veiðiréttar milli báta yfir og undir 10 rúml. Sjávarútvegsráðuneytið kynnti þá fyrir fulltrúum útvegsmanna núverandi ákvæði um krókaleyfið sem samkomulag við fulltrúa Landssambands smábátaeigenda með þeim aðlögunartíma sem þar er gefinn. Fulltrúar útvegsmanna féllust á þessa málamiðlun í trausti þess að við það samkomulag yrði staðið sem nú á ekki að standa við. Stjórn samtakanna fordæmir slík vinnubrögð. Stjórnvöldum hlýtur að vera það ljóst að með því að brjóta þetta samkomulag er verið að gefa krókaleyfishöfum rýmri aðgang að fiskimiðunum á kostnað þeirra sem nú eru bundnir aflamarki. Með þessari ákvörðun er grafið undan tiltrú aðila á kvótakerfið og stuðlað að því að veitt verði meira úr þorskstofninum en efni standa til.
    Stjórn LÍÚ gerir ekki athugasemd við að skilyrði, sem sett eru í 2. mgr. fyrir því að mæta megi áföllum vegna verulegrar aflaskerðingar, verði felld niður.
    Ákvæðum í frumvarpi til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, er miða að því að þrengja frekar framsalsrétt útgerða, er mótmælt. Hér er sérstaklega átt við ákvæði við 8. gr. er verði 7. gr. þess efnis að þegar meira en 15% af aflamarki því af einhverri tegund, sem úthlutað var til skips í upphafi fiskveiðiárs, hefur verið flutt frá skipinu til skipa í eigu annarra útgerða án þess að um jöfn skipti sé að ræða er óheimilt á sama fiskveiðiári að flytja aflamark af sömu tegund til skipsins. Á sama hátt er óheimilt að flytja aflamark frá skipi þegar meira en sem svarar 15% af upphaflegu aflamarki skipsins af viðkomandi tegund hefur verið flutt til skipsins af skipum í eigu annarra útgerða á fiskveiðiárinu án þess að um jöfn skipti sé að ræða.
    Stjórn LÍÚ er sammála ákvæði við 9. gr. sem verður 8. gr. þess efnis að veiði fiskiskip minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð fellur veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður og skal aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur. Stjórnin telur að nú þegar fyrir liggur tillaga að frumvarpi um samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna, sem aðilar ættu að geta verið sammála um, sé óþarfi að þrengja frekar framsalsmöguleika í lögum um stjórn fiskveiða.
    Ítrekuð er áður kynnt andstaða samtakanna við stofnun þróunarsjóðs sem mun hafa það hlutverk með höndum að innheimta sérstakt gjald af útgerðum og skylda þannig alla útvegsmenn til þess að greiða töpuð útlán Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs. Það er óþolandi að útgerðir, sem þáðu enga fyrirgreiðslu úr þessum sjóðum skuli með lögum vera þvingaðar til þess að standa skil á þessum útlánum sem stjórnvöld á sínum tíma ákváðu að veita einstaka fyrirtækjum einhliða. Slík vinnubrögð grafa undan eðlilegum starfsreglum og siðferðisvitund þeirra aðila er starfa í sjávarútveginum.
    Lög um væntanlegan þróunarsjóð verða ekki skilin öðru vísi en svo að það skipti í raun ekki máli hvernig einstakir aðilar standa sig í greininni. Með stofnun þróunarsjóðs er verið að refsa þeim aðilum sem staðið hafa skynsamlega að útgerðarrekstri á undanförnum árum og ekki hafa þegið styrki stjórnvalda í gegnum áðurnefnda sjóði.

Virðingarfyllst,


f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna,



Sveinn Hj. Hjartarson.





Fylgiskjal II.


Umsögn Sjómannasambands Íslands.


(20. apríl 1994.)



Um drög að breytingartillögum við frumvarpið:
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands telur tímabært að allar tegundir skipa sitji við sama borð varðandi stjórn fiskveiða. Því hefði verið eðlilegt að þeir bátar, sem nú hafa krókaleyfi, verði settir á aflamark eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Í þess stað er því miður lagt til að krókaleyfisbátarnir auki enn sinn hlut á kostnað þeirra skipa sem eru á aflamarki. Slíkt getur sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands ekki samþykkt. Sambandsstjórnin telur því hvorki breytingartillöguna við frumvarpið né þá tillögu sem fram kemur í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990 til bóta. Sambandsstjórnin leggur til að núgildandi lög verði látin gilda óbreytt varðandi krókaleyfisbátana þannig að þeir verði framvegis á aflamarki eins og önnur skip í íslenska flotanum.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands samþykkir breytingartillöguna um að fyrri málsliður 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins falli niður.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands gerir ekki athugasemd við þennan lið.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands fagnar þeirri breytingartillögu að 7. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990 skuli felld niður. Engin rök lágu til þess að fiskvinnslustöðvar gætu eignast veiðiheimildir eins og 7. gr. gerði ráð fyrir. Því styður sambandsstjórnin framangreinda breytingartillögu.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands telur nauðsynlegt að settar séu skorður við því að handhafar veiðiheimilda geti verið að flytja heimildirnar að eigin geðþótta til og frá skipi. Sambandsstjórnin styður því þá breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990 sem gerð er tillaga um í 5. lið. Er sú þrenging, sem hér er sett varðandi framsal veiðiheimilda, einn þáttur í því að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum útgerðarinnar.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands telur eðlilegt að meginreglan sé sú að það skip, sem fær úthlutað veiðiheimildum úr sameign íslensku þjóðarinnar, veiði sjálft upp í þær heimildir. Þó svo að í breytingartillögunni sé lagt til að þetta hlutfall hækki úr 25% eins og er í gildandi lögum upp í 50% telur sambandsstjórn Sjómannasambandsins of skammt gengið. Sambandsstjórnin leggur til að hlutfallið sem skip þarf að veiða sjálft til að halda veiðiheimildum sínum verði hækkað í 80% af samanlögðu aflamarki í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands telur sjálfsagt að það hlutfall veiðheimilda, sem skipi er skylt að veiða, lækki ef því er haldið í lengri tíma til veiða utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Því styður sambandsstjórnin þetta ákvæði.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands styður þá breytingartillögu sem hér er gerð við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Ekki er ástæða til að útgerðin greiði sérstakt gjald fyrir hverja tilkynningu um flutning aflamarks umfram tíu.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands gerir ekki athugasemd við þennan lið, sbr. þó athugasemd varðandi krókaleyfið.
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands gerir ekki athugasemd við þennan lið, sbr. þó athugasemd varðandi krókaleyfið.
    Framangreindar athugasemdir við einstaka liði miðast við það frumvarp sem merkt er drög frá 19. apríl 1994. Verði breytingar á frumvarpinu í meðferð sjávarútvegsnefndar Alþingis áskilur sambandsstjórn Sjómannasambandsins sér allan rétt til að breyta afstöðu sinni. Nái breytingartillögurnar fram að ganga og verði tekið tillit til framangreindra athugasemda sambandsstjórnar Sjómannasambands Íslands getur sambandsstjórnin stutt breytingarnar á frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða.

Um sérstakan viðbæti við breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingu á fiskveiðistjórnunarlögunum:
    Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands getur fallist á að heimilt verði að skrá skip sem á að úrelda undir íslenskum fána. Tryggt verður þó að vera að útgerðir skipa, sem þannig eru skráð, geti ekki gert kröfu um veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu þó að afli glæðist að nýju eftir nokkur ár. Alltaf er spurning hversu langt aftur í tímann á að heimila slíka skráningu. Heppilegast er að ákvæðið gildi frá þeim tíma sem lögin öðlast gildi. Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands er alfarið á móti því að heimilt verði að flytja inn gömul skip og skrá þau sérstakri skráningu undir íslenskum fána.

F.h. Sjómannasambands Íslands



Hólmgeir Jónsson.





Fylgiskjal III.


Umsögn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands um


drög að breytingartillögum við frumvarpið.


(19. apríl 1994.)



(Repró, 1 síða.)



Fskj.

Ályktun samninganefndar fiskimanna innan Farmanna- og


fiskimannasambands Íslands, FFSÍ.


(12. apríl 1994.)



    Samninganefnd FFSÍ beinir því til fiskimannafélaga innan Farmanna- og fiskimannasambands Íslands að þau afli heimilda til boðunar vinnustöðvunar nú þegar.
    Samninganefnd FFSÍ harmar afgreiðslu meiri hluta Alþingis með staðfestingu sinni á bráðabirgðalögum til að stöðva verkfall sjómanna. Þessi afgreiðsla Alþingis er sérstaklega alvarleg í því ljósi að engin úrlausn gagnvart kvótabraskinu fólst í afgreiðslunni. En eins og flestir minnast frá setningu bráðabirgðalaganna lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún mundi beita sér fyrir lausn mála sem snertu sjómenn gagnvart kvótabraskinu. Staðfesting bráðabirgðalaganna og tómlæti ríkisstjórnarinnar gagnvart vanda sjómanna hleypir auknu lífi í kvótabraskið og stílar upp á enn harðari átök í næstu framtíð.
    Við núverandi aðstæður eiga sjómenn í miklum vandræðum með að stunda eðlilegar veiðar vegna þess að þorskur er ekki leyfður sem meðafli. Ljóst er að kvótabraskið mun verða til staðar og færast í auknum mæli yfir í þær tegundir sem ekki hafa veiðst upp á undanförnum árum.
    Til þess að vinna bug á kvótabraskinu til bráðabirgða og koma aftur á eðlilegri umgengni um miðin skorar samninganefnd FFSÍ á Alþingi að afnema aflamark á þeim tegundum sem ekki þurfa vegna verndunarsjónarmiða að vera inni í kvótakerfinu. Eins og ástand er nú á karfa, grálúðu og þorski telur samninganefnd FFSÍ að ekki sé hægt að afnema kvótaskiptingu á áðurnefndum tegundum en bendir jafnframt á að nauðsynlegt sé að leita leiða hvernig farið verði með meðafla utan aflamarks svo að tryggt sé að veiðar megi stunda með eðlilegu móti og tryggja atvinnu úr þeim afla sem veiddur er sem meðafli við fiskveiðar annarra tegunda.
    Samninganefndin beinir þeirri eindregnu áskorun til sjávarútvegsnefndar Alþingis sem nú hefur þessi mál til meðferðar að leitast við að einfalda núverandi stjórnkerfi og fækka um leið þeim möguleikum sem eru til staðar með sölu á óveiddum afla úr sjó. Kveða þarf skýrt á um að öll þátttaka sjómanna í þessum viðskiptum sé bönnuð, enda mundi það strax lækka verð á aflakvótum. Jafnframt þarf að gera það að skilyrði að hvert fiskiskip veiði eigi minna en 80% af sínum aflaheimildum ella falli þær niður og sé eingöngu úthlutað til þeirra skipa sem veiða sjálf upp sínar aflaheimildir.


Fylgiskjal IV.


Umsögn Vélstjórafélags Íslands.


(20. apríl 1994.)



Um drög að breytingartillögum við frumvarpið:

(Repró, 1 síða.)



Um sérstakan viðbæti við breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingu á fiskveiðistjórnunarlögunum:

(Repró, 1 síða, bútur!)



Virðingarfyllst,


f.h. Vélstjórafélags Íslands,



Helgi Laxdal.




Fylgiskjal V.


Umsögn Samtaka fiskvinnslustöðva.


(10. febrúar 1994.)



(Repró, 2 síður.)



Virðingarfyllst,


f.h. Samtaka fiskvinnslustöðva,



Ágúst H. Elíasson.




Fskj.

Fréttatilkynning Samtaka fiskvinnslustöðva.


(19. apríl 1994.)



(Repró, 1 síða.)



Virðingarfyllst,


f.h. Samtaka fiskvinnslustöðva,



Ágúst H. Elíasson.


Fylgiskjal VI.


Greinargerð Atvinnumanna, samstarfshóps um hagkvæma stjórn fiskveiða,


örugga atvinnu og aukna verðmætasköpun til sjós og lands.


(25. apríl 1994.)



(Repró, 1 síða.)



Virðingarfyllst,


f.h. „Atvinnumanna“,



Einar Svansson, frkvstj. Fiskiðjunnar Skagfirðings hf.,


stjform. Hraðfrystihúss Grundarfjarðar hf.



Ábendingar vegna fyrirhugaðrar afgreiðslu


frumvarpa um sjávarútvegsmál.




(Repró, 11 síður.)





Fskj.


Bréf Halldórs Árnasonar, framkvæmdastjóra Borgeyjar hf., Höfn.


(27. febrúar 1994.)



    Ég hef verið beðinn að senda dæmi um skaðleg áhrif þeirra frumvarpa sem nú liggja fyrir um breytingar á stjórnun fiskveiða. Áður en slík dæmi eru nefnd er rétt að árétta að erfitt getur verið að átta sig á í fljótu bragði öllum þeim skaðlegu áhrifum sem jafnmiklar takmarkanir og fyrirhugaðar eru á framsalsréttinum hafa. Framsal veiðiheimilda er jú einn mikilvægasti þátturinn í hagkvæmni kvótakerfisins.

Dæmi um síld.
    Hefðbundinn síldveiðibátur var með 1,5 síldarkvóta en ætlaði að veiða tvo á síðustu vertíð. Leigður var 0,5 síldarkvóti og færður inn á skipið sem er meira en 15%. Síldarvertíðin gekk verr en menn höfðu ætlað og talið sig geta búist við svo að báturinn náði ekki öllum kvóta sínum. Nú í apríl var gerður samningur við mun öflugra nótaveiðiskip (loðnubát) um að veiða það sem eftir var af kvótanum. Ef fyrirhugaðar breytingar ná fram að ganga yrði þetta óheimilt þar sem búið yrði að læsa einstefnulokanum þannig að eingöngu mætti færa kvóta inn á skipið. Afleiðingarnar hefðu m.a. verið minni atvinna í landi meðan á hrygningarstoppinu stóð.

Dæmi um humar.
    Útgerðin leigir öðrum aðila 140 tn af þorskkvóta sínum sem upphaflega var 200 tn og skilur þannig 60 tn eftir sem alltaf hefur dugað sem aukaafli á humarveiðum. Ef þorskaflinn sem fylgir humrinum yrði óvænt meiri en í eðlilegu ári gæti þessi bátur ekki leigt sér kvóta til að brúa bilið. Hann yrði að hætta veiðum á miðri humarvertíð. Ef hann hefði líka í upphafi vertíðar leigt sér 2 tn af humarkvóta til að geta veitt 12 tn í stað 10 tn gæti hann ekki lengur fært afganginn af humarkvótanum út af bátnum og hann brynni þar með inni.
    Spyrja má um skynsemina í að setja slíkar reglur og hver hagnast á þeim.




Fylgiskjal VII.


Tillögur Landssambands smábátaeigenda.


(25. apríl 1994.)




(Repró, 3 síður.)





Fskj.

Bréf Landssambands smábátaeigenda til Jóhanns Ársælssonar.


(30. september 1993.)



(Repró, 2 síður.)





Fylgiskjal VIII.


Umsögn Eldingar, svæðisfélags smábátaeigenda á Vestfjörðum.


(16. mars 1994.)




(Repró, 2 síður.)





Fylgiskjal IX.


Samþykkt Smábátafélags Hornafjarðar.


(5. janúar 1993.)



(Repró, 1 síða.)



Sigfinnur Gunnarsson.


Gunnar Guðmundsson.


Gísli Geir Sigurjónsson.






Fylgiskjal X.


Umsögn Verkamannasambands Íslands.


(25. apríl 1994.)



(Repró, 7 síður.)




Fskj.

Hugsanleg áhrif lagafrumvarpa um sjávarútveg


á fiskvinnslu í landi.


(25. apríl 1994.)



(Repró, 3 síður.)





Fylgiskjal XI.


Ályktun Verkalýðsfélagsins Fram, Sauðárkróki, um kvótamál.


(27. apríl 1994.)



    Stjórn Verkalýðsfélagsins Fram telur að hvaða skoðanir sem menn hafi á núverandi kvótakerfi sem stjórntæki við fiskveiðar Íslendinga sé það staðreynd að þau sjávarútvegsfyrirtæki sem skilað hafa bestum árangri og sýnt mestar framfarir og þróun séu þau sem lagt hafa sig eftir aðlögun að kerfinu og hafa nýtt sér þann sveigjanleika sem það býður upp á til meiri hráefnisöflunar og öflugri vinnslu í landi.
    Verði frumvarp það, sem nú liggur fyrir Alþingi til breytinga á stjórn fiskveiða, að lögum óbreytt mun það vinna gegn þeirri hagkvæmni sem augljós er í rekstri ýmissa fyrirtækja um þessar mundir.
    Þær girðingar, sem settar eru í frumvarpið til heftingar á framsali kvóta milli útgerða og skipa, eru of háar. Þær munu leiða til þess að fyrstiskipum fjölgi, útflutningur á óunnum fiski í gámum mun aftur aukast og atvinna landverkafólks minnka að sama skapi.
    Það er lífshagsmunamál fyrir atvinnulífið á Íslandi að sem mestur virðisauki verði til í landinu við úrvinnslu á íslensku hráefni. Því skorar stjórn Verkalýðsfélagsins Fram, sem samþykkir þetta mál með vitund starfsfólks í fiskiðnaði við Skagafjörð, á Alþingi að afgreiða þetta mál svo að hagkvæmni og þróun fiskvinnslunnar í landi verði í fyrirrúmi.

F.h. stjórnar Vlf. Fram,



Jón Karlsson.





Fylgiskjal XII.


Úr ályktun 11. landsfundar Alþýðubandalagsins.



(Repró, 2 síður.)



Ályktun miðstjórnar Alþýðubandalagsins.



(Repró, 1 síða.)





Fskj.


Björn Jónsson, starfsmaður LÍÚ:


Afli á viðmiðunarárunum og aflamark frá 1984 til 1993/94.


Afli og aflamark í slægðum tonnum nema karfi er óslægður.


(1. febrúar 1994.)




(Repró, 1 síða.)






Fylgiskjal XIII.


Ályktun Alþýðusambands Vestfjarða.


(25. apríl 1994.)



    Alþýðusamband Vestfjarða skorar á Alþingi að samþykkja engar breytingar á lögum um fiskveiðar sem ekki fela í sér rétt fiskvinnslunnar til eignarhalds á veiðiheimildum. Núverandi reglur mismuna fiskvinnslu úti á sjó og fiskvinnslu í landi herfilega.
    Sambandið telur tillögur sjávarútvegsráðherra um skerðingu á flutningi veiðiheimilda milli veiðiskipa ekki neina vörn gegn kvótabraski en vinna aftur á móti mjög gegn hagkvæmni í fiskvinnslu í landi og hamla gegn þróun sem nú á sér stað með verðmætari framleiðslu í fiskvinnsluhúsum landsins. Tillögurnar stuðla að enn frekari fjölgun frystiskipa og atvinnuleysi fiskvinnslufólks í landi.
    Öll umræða og tilraunir stjórnvalda til lagfæringar á „kvótakerfinu“ undirstrika þá afstöðu Alþýðusambands Vestfjarða að þessi aðferð til fiskverndar hefur brugðist og brýnt sé að taka upp nýjar aðferðir þar sem þjóðinni í heild er tryggður eignarréttur að auðlindum hafsins.