Ferill 623. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 623 . mál.


1210. Frumvarp til laga



um viðauka við lög nr. 35 30. apríl 1993, um eftirlit með skipum.

Frá samgöngunefnd.



1. gr.


    Við lögin bætist svofelldur viðauki:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laganna er heimilt að flytja inn að nýju fiskiskip sem flutt hafa verið úr landi eftir 1. september 1992 vegna þess að þau voru endurnýjuð með öðru skipi á grundvelli 5. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, enda fullnægi þau öðrum skilyrðum fyrir íslenskri skráningu skipa.
    Sama gildir um fiskiskip sem keypt hafa verið erlendis frá til veiða utan íslenskrar efnahagslögsögu eftir 1. september 1992 til 30. apríl 1994 enda fullnægi þau öllum skilyrðum fyrir íslenskri skráningu öðrum en ákvæðum 2. mgr. 8. gr.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt að ósk sjávarútvegsnefndar og fylgir erindi nefndarinnar með sem fylgiskjal. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að hafa frjálsar hendur um afstöðu til málsins.
    Samkvæmt gildandi lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, og reglugerð sem sett hefur verið á grundvelli laganna er skylt að taka skip varanlega úr rekstri ef nýtt skip á að fá veiðileyfi í þess stað. Þetta ákvæði hefur verið túlkað á þann hátt að afskrá beri eldra skipið og flytja úr landi eða farga því.
    Í 1. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, 283. máli, er lagt til að þetta skilyrði verði fellt niður.
    Samkvæmt lögum um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, má ekki flytja inn fiskiskip sem er eldra en 15 ára. Með frumvarpi þessu er lagt til að heimiluð verði undanþága frá þessu skilyrði í tveimur tilvikum.
    Í fyrsta lagi er lagt til að heimilað verði að taka aftur á skipaskrá skip sem afskráð voru samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða frá og með 1. september 1992 til og með gildistöku nýrra laga um stjórn fiskveiða, enda þótt þau séu eldri en 15 ára.
    Í öðru lagi er í 2. mgr. 1. gr. lagt til að heimiluð verði íslensk skráning fiskiskipa sem keypt hafa verið erlendis frá til veiða utan íslensku efnahagslögsögunnar eftir 1. september 1992 til 30. apríl 1994.
    Á þessu tímabili hafa íslenskir aðilar keypt nokkur skip til veiða utan efnahagslögsögu Íslands. Eins og kunnugt er eru mikil tækifæri fólgin í úthafsveiðum fyrir íslenska útgerðarmenn. Með því að heimila skráningu skipanna hér á landi kemur sú veiðireynsla sem þar fæst Íslendingum til góða.
    Til þess að ákvæðið eigi við verður bindandi kaupsamningur eða kaupleigusamningur að hafa verið gerður 1. maí 1994. Það er að sjálfsögðu skilyrði fyrir skráningu skv. 1. og 2. mgr. að skipið fullnægi kröfum um gerð og búnað skipa.



Fylgiskjal.

Erindi sjávarútvegsnefndar.


(28. apríl 1994.)


    Sjávarútvegsnefnd mælist til þess við háttvirta samgöngunefnd að hún flytji frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 35/1993, um eftirlit með skipum, sbr. meðfylgjandi drög. Mál þetta tengist umfjöllun og afgreiðslu Alþingis á frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og fleiri málum því tengdum.
    Enn fremur vill sjávarútvegsnefnd sérstaklega lýsa þeirri eindregnu skoðun sinni að endurskoða beri reglu 2. mgr. 8. gr. laga nr. 35/1993 um að eigi megi flytja inn fiskiskip sem er 15 ára eða eldra.
    Nefndin telur eðlilegt að leitað verði umsagnar um málið til úthafsveiðinefndar.
    Stefán Guðmundsson og Halldór Ásgrímsson telja að málið þurfi betri umfjöllun og leggja til að það fari til frekari umræðu í úthafsveiðinefnd. Frumvarp um þetta efni verði ekki lagt fram fyrr en í haust á grundvelli umfjöllunar úthafsveiðinefndar.

F.h. sjávarútvegsnefndar,



Steingrímur J. Sigfússon.