Ferill 283. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 283 . mál.


1259. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 6. maí.)



1. gr.


    2. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Falli veiðileyfi skips skv. 1. mgr. þessarar greinar niður má veita nýju eða nýkeyptu sambærilegu skipi veiðileyfi í þess stað enda hafi slíkum rétti til endurnýjunar ekki verið afsalað. Er heimilt að veita fleiri en einu skipi veiðileyfi í stað skips er úr flotanum hverfur eða úrelda fleiri en eitt skip í stað skips er í flotann bætist enda sé tryggt að afkastageta fiskiskipaflotans aukist ekki við skiptin. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um endurnýjun fiskiskipa.

2. gr.


    Framan við 6. gr. laganna bætast sex nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Bátar minni en 6 brl., sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum, skv. 6. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis laganna, skulu frá og með fiskveiðiárinu, er hefst 1. september 1994, sæta veiðitakmörkunum eins og kveðið er á um í 2.–6. mgr. þessarar greinar. Þessum bátum er einungis heimilt að stunda veiðar með línu og handfærum. Þó er sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, og til hrognkelsaveiða í net.
     Veiðar skulu bannaðar í desember og janúar sem og í sjö daga um páska og verslunarmannahelgi samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Veiðar skulu enn fremur bannaðar aðra og fjórðu helgi hvers mánaðar auk föstudaga á undan hvorri helgi. Falli banndagar þessir saman við banndaga um páska eða verslunarmannahelgi flytjast þeir fram sem því nemur.
    Fiskveiðiárinu skal skipt upp í fjögur veiðitímabil og hámarksafli þessara báta ákveðinn á hverju tímabili. Veiðitímabil eru sem hér segir:
    1. tímabil     1. september til 30. nóvember
    2. tímabil     1. febrúar til 30. apríl
    3. tímabil     1. maí til 30. júní
    4. tímabil     1. júlí til 31. ágúst
    Sameiginlegur hámarksafli þeirra báta er undir þessa grein falla telst á hverju fiskveiðiári meðalafli þeirra í þorskígildum talið á fiskveiðiárunum sem hófust 1. september 1991 og 1. september 1992 og skal honum skipt þannig milli veiðitímabila að á fyrsta tímabil falla 24%, á annað tímabil 11%, á þriðja tímabil 32% og á fjórða tímabil 33%.
    Fari afli á einhverju veiðitímabili fram úr fyrrgreindu hámarki skal banndögum á sama tímabili á næsta fiskveiðiári fjölgað. Í því sambandi skal reikna meðalafla á dag á umræddu veiðitímabili liðins fiskveiðiárs og finna viðbótarbanndaga með því að deila þeirri tölu í viðkomandi umframafla. Skal banndögum fjölgað um heila daga og broti sleppt. Hámarksafli skv. 4. mgr. á viðkomandi tímabili næsta fiskveiðiárs skal lækka sem umframaflanum nemur.
    Viðbótarbanndögum skal bætt framan við banndaga á viðkomandi tímabili og skipt eins jafnt niður og unnt er.

3. gr.


    Í stað 4. málsl. 2. mgr. 7. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Áður en leyfðum heildarafla er skipt á grundvelli aflahlutdeildar skal draga eftirtalinn afla frá:
    Áætlaðan afla báta er stunda veiðar með línu og handfærum skv. 1.–6. mgr. 6. gr.
    Línuafla í samræmi við 6. mgr. 10. gr. og skal línuaflinn skiptast milli þorsks og ýsu á grundvelli skiptingar á síðasta fiskveiðiári.
    Aflaheimildir sem nota skal til jöfnunar, sbr. 9. gr.

4. gr.


    9. gr. laganna orðast svo:
    Á hverju fiskveiðiári skulu aflaheimildir af botnfiski, er nema 12.000 þorskígildum í lestum talið, vera til ráðstöfunar til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda. Skal þessum aflaheimildum skipt milli botnfisktegunda í hlutfalli við leyfðan heildarafla af einstökum tegundum og verðmætahlutföll sem ráðherra ákveður.
    Skal ráðherra árlega ákveða með reglugerð ráðstöfun þessara heimilda þannig að þær nýtist útgerðum þeirra skipa sem fyrir mestri skerðingu hafa orðið.
    Sé aflaheimildum ekki ráðstafað til uppbóta samkvæmt þessari grein bætast þær við heildaraflamark viðkomandi tegunda og koma til úthlutunar í samræmi við aflahlutdeild einstakra skipa.

5. gr.


    3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að flytja allt að 20% af aflamarki hverrar botnfisktegundar og aflamarki úthafsrækju, humars og síldar frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta.

6. gr.


    1. málsl. 6. mgr. 10. gr. laganna orðast svo: Fiskur, sem veiðist á línu í mánuðunum nóvember, desember, janúar og febrúar, skal aðeins að hálfu talinn til aflamarks þar til sameiginlegur línuafli af þorski og ýsu hefur náð 34.000 lestum miðað við óslægðan fisk.

7. gr.


    Aftan við 3. mgr. 12. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Aldrei er heimilt að flytja aflamark milli skipa leiði slíkur flutningur til þess að veiðiheimildir þess skips, sem flutt er til, verði bersýnilega umfram veiðigetu þess.

8. gr.


    1. málsl. 4. mgr. 12. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 36/1992, er verður 6. mgr., orðast svo: Veiði fiskiskip minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð fellur veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður og skal aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur.

9. gr.


    Aftan við 4. mgr. 12. gr. laganna, er verður 6. mgr., kemur nýr málsliður, er verður 3. málsl., og orðast svo: Viðmiðunarhlutfall, sem ákveðið er í þessari málsgrein, lækkar þó um 5% fyrir hverja fulla 30 daga sem skipi er haldið til veiða utan fiskveiðilandhelgi Íslands á fiskveiðiárinu.

10. gr.


    Við 1. mgr. 16. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Starfsmönnum hafnaryfirvalda er heimill aðgangur að fiskiskipum, flutningsförum, fiskverkunum og birgðageymslum sem nauðsynlegur er til að vigta sjávarafla eða hafa eftirlit með vigtun hans. Hafnaryfirvöld skulu senda Fiskistofu jafnharðan upplýsingar um landaðan afla í því formi sem ráðherra ákveður með reglugerð.

11. gr.


    Orðið „ráðuneytisins“ í 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. laganna fellur niður.

12. gr.


    Við 18. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er verða 5. og 6. mgr. greinarinnar og orðast svo:
    Fyrir staðfestingu Fiskistofu á flutningi aflahlutdeildar milli skipa skal útgerð þess skips sem flutt er frá greiða 1.500 kr.
    Gjald skv. 5. mgr. er grunngjald er miðast við byggingarvísitölu í janúar 1994 og breytist í hlutfalli við þær breytingar er á henni kunna að verða.

13. gr.


    1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Beita skal ákvæðum laga nr. 37 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, vegna brota gegn þessum lögum eftir því sem við á.

14. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda frá og með því fiskveiðiári er hefst 1. september 1994, nema 1., 10. og 12. gr. er koma til framkvæmda við gildistöku laganna.