Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:26:48 (3668)


[14:26]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég óskaði áðan eftir því að fá að koma upp og bera af mér sakir en hæstv. forseti óskaði eftir því að ég tæki til máls um þennan dagskrárlið og kæmi því sjónarmiði mínu á framfæri þar sem ég ætlaði að taka fyrir undir liðnum að bera af sér sakir.
    Því var haldið fram áðan af hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni að það væri út í hött að halda því fram og styddist ekki við nein gögn, að það væri ágreiningur innan þingmanna flokksins um áherslur í Norðurl. e. Þessi ágreiningur hefur komið fram og tengist að sjálfsögðu Mývatnssveit og atvinnuuppbyggingunni þar. Þessi ágreiningur hefur komið fram oftar en einu sinni hér í þessum ræðustól og hann hefur komið fram líka að vissu leyti í till. til þál. um vegasamband allt árið milli Austurl. og Norðurl., en flm. að þeirri þáltill. eru hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og sá þingmaður sem var í umræðunni áðan, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Það er ekkert launungamál að hjá ákveðnum hluta þingmanna Norðurl. e. hefur það verið áhersluatriði að ljúka vegasambandinu um ströndina fyrst og jafnvel að athuga möguleikana á því að þar væri heils árs vegasamband milli Norðurlands og Austurlands tryggt. Gegn þessari skoðun hefur hins vegar verið sett fram sú stefna sem nú hefur verið samþykkt af þingmönnum kjördæmisins, þó með nokkrum semingi af hálfu sumra, að leggja áherslu á tengingu Norðurlands við Austurland um Fjöllin vegna þess að það sé grundvallaratriði í samgöngumálum þessara tveggja landshluta, Norðurlands og Austurlands, að ná sem stystum vegi milli þessara landshluta. Að sjálfsögðu varpa þessi mál, bæði þáltill. sem slík og einnig þau viðhorf sem hafa verið viðruð hér í umræðum á þinginu, skýru ljósi á þennan áherslumun, á þennan skoðanaágreining, sem hefur að sjálfsögðu komið fram í vinnu þingmanna kjördæmisins í samgöngumálum. Hins vegar hefur það orðið ofan á að samþykkja þessa áherslubreytingu og styðja það sem sérstakt verkefni að koma á heils árs samgöngum milli Akureyrar og Austurlands um Mývatnsöræfi og um Fjöllin. Þess vegna er það ekki svo að sá sem hér stendur fari með staðlausa stafi heldur hefur hann verið að vitna í þingmál sem hafa verið staðfesting á þessum skoðanaágreiningi.