Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:49:34 (3680)

[14:49]

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það var með bréfi Guðmundar Bjarnasonar, þáv. heilbr.- og trmrn., frá 15. nóv. 1988, sem óskað var eftir tillögum tóbaksvarnanefndar, sem skipuð var í september 1988, um breytingar á lögum um tóbaksvarnir af fenginni reynslu. Þegar var farið að vinna að þessu máli en þá komu fram ýmsar hugmyndir um æskilegar breytingar svo talið var rétt að endurskoða lögin í heild. Þau lög voru síðan endurskoðuð m.a. í samráði við samtök heilbrigðisstétta og við félög áhugamanna um heilsuvernd.
    Nefndin lauk síðan við að semja frv. Í nefndinni áttu sæti Egill Heiðar Gíslason framkvæmdastjóri, sem var formaður, Helgi Guðbergsson yfirlæknir og Þorvarður Örnólfsson framkvæmdastjóri.
    Þessi nefnd skilaði mér síðan frv. sem ég hafði til skoðunar um nokkurn tíma. En í tóbaksvarnanefnd sem skipuð var haustið 1992, og í eiga sæti Halldóra Bjarnadóttir framkvæmdastjóri, formaður, Helgi Guðbergsson og Þorvarður Örnólfsson, var farið yfir frv. og gerðar nokkrar breytingar á því í samráði við Guðmund Árna Stefánsson, þáv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem lagði síðan frv. fram á Alþingi í fyrra, en frv. var þar ekki afgreitt.
    Meðal nokkurra helstu nýmæla frv. má nefna:
    Réttur fólks til reyklauss lofts er afdráttarlaust viðurkenndur og sérstaklega kveðið á um rétt barna.
    Munntóbak verður bannað.
    Hámark skaðlegra efna í tóbaki skal ákveðið.
    Merkja skal sígarettupakka með upplýsingum um tjöru- og nikótíninnihald.
    Bannað er að auglýsa varning sem ber heiti eða auðkenni tóbakstegunda í vörumerki sínu.
    Uppstilling á tóbaki á sölustöðum er bönnuð.
    Tóbakssala á heilbrigðisstofnunum er bönnuð.
    Heimild til smásölu á tóbaki er takmörkuð við matvöruverslanir, sælgætisverslanir og veitinga- og gististaði.
    Skýrari ákvæði eru sett um takmarkanir á reykingum á veitingastöðum.
    Veitt er svigrúm til að heimila reykingar í afmörkuðum hluta húsnæðis í flugstöðvum og umferðarmiðstöðvum. Reykingar eru alveg bannaðar á sjúkrahúsum, nema sjúklingum sem fá til þess undanþágu, svo og í framhaldsskólum og á opinberum fundum.
    Vinnuveitendum ber að sjá til þess að starfsfólk njóti réttar til að vinna í reyklausu umhverfi.
    Reykingar verða óheimilar í öllu millilandaflugi frá árinu 1996.
    Kveðið er á um skyldu forráðamanna húsnæðis og almenningsfarartækja til að gera ráðstafanir til að ákvæðum laganna sé framfylgt.
    Veita skal fræðslu á heilbrigðisstofnunum um áhrif tóbaksneyslu.
    Fjárveitingar til tóbaksvarna skulu auknar.
    Tóbaksveitingar opinberra aðila eru bannaðar.
    Við ítrekað brot á banni við tóbakssölu til barna er heimilt að svipta smásöluaðila leyfi til tóbakssölu um tiltekinn tíma.
    Og gert er ráð fyrir því að næstu fimm ár eftir gildistöku laganna skuli verð á tóbaki hækka umfram almennt vöruverð.
    Eins og heyra má á þessari upptalningu er mjög víða komið við og hertar mjög allar reglur um meðferð tóbaks, sölu tóbaks, tóbaksreykingar og verðlagningu tóbaks. Alveg er ljóst að sumar af þessum reglum eru þess eðlis að það er ekki líklegt að þær fái stuðning hér á hinu háa Alþingi, þó aðrar séu þannig að þær séu sums staðar komnar í framkvæmd nú þegar og enn aðrar þannig að þær ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni.
    Þó bið ég hv. þm. að hafa það í huga að sá árangur sem náðist til að draga úr tóbaksnotkun og tóbaksreykingum fyrir nokkrum árum síðan er nú á undanhaldi. Nýlega var haldið hér í Reykjavík heilbrigðisþing þar sem m.a. kom fyrirlesari frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Hann varaði okkur Íslendinga mjög við því að samfara auknum reykingum meðal kvenna færi nú mjög vaxandi lungnakrabbamein meðal kvenna, enda væri nú svo komið að það væri ásamt brjóstakrabbameini það krabbamein sem orsakaði flest dauðsföll meðal kvenna og varaði hann mjög við þessari þróun og hvatti Íslendinga til að spyrna hér við fótum. Það verður auðvitað ekki gert nema með því að draga úr reykingum því það þykir orðið sannað og enginn eða mjög fáir sem mæla gegn því, að tóbaksreykingar eru aðalorsakavaldur lungnakrabbameins í fólki og einn af meginorsakavöldum hjarta- og æðasjúkdóma. Þannig að það er alveg ljóst að það er keppikefli fyrir heill og hamingju þjóðarinnar að dregið skuli úr tóbaksreykingum og við Íslendingar höfum raunar undirgengist þá skilmála að beita okkur fyrir því.
    Mér þykir rétt, virðulegi forseti, að óska eftir að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. í því formi sem það var flutt hér á Alþingi síðast. Mér er það ljóst að það má búast við að nefndin geri allverulegar breytingar á frv., ef hún fellst á að reyna að afgreiða það, en það verður þá svo að vera. Það er auðvitað Alþingi sem hefur síðasta orðið. En ég hvet nefndarmenn eindregið til þess að reyna að ná samstöðu um það að afgreiða einhverja þætti þessa máls því sannleikurinn er sá að það er löngu orðið tímabært að gera sérstakt átak til þess að draga úr tóbaksneyslu og þá reykingum meðal beggja kynja, ekki síst kvenna þar sem lungnakrabbamein er orðið eitt helsta og algengasta banamein í dag og fer vaxandi og enn fremur að draga úr reykingum meðal skólabarna sem aftur virðast vera að færast í vöxt.

    Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr. og mælast til þess við hv. nefndarmenn að þeir reyni að ná samstöðu um að afgreiða a.m.k. einhvern hluta þessa frv. fyrir þinglausnir.