Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 16:09:05 (3692)


[16:09]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich beindi nokkrum orðum til mín vegna ræðu minnar áðan. Í upphafi fjallaði hann um áskorun mína í raun til þeirra sem hvað harðast ganga fram í þessu máli, hvort ekki ætti að leggja fram frv. sem hreinlega bannaði innflutning á tóbaki. Þingmaðurinn sagði að það væri ekki raunhæft og það yrði að setja fram raunhæfa löggjöf og það væri okkar hlutverk hér. Það er nákvæmlega það sem ég var að benda á í minni umfjöllun um þetta frv. sem hér liggur fyrir, að það er ekki raunhæft í þeim búningi sem það núna er í. Og ég held að það hefði hreinlega mátt skilja hæstv. ráðherra á þann hátt að hann væri nánast sammála því vegna þess að hann talaði mikið fyrir því að hann vildi fá ákveðna þætti samþykkta og gerði sér grein fyrir því að aðrir þættir mundu aldrei nást fram. Þannig að ég held að það megi skilja hæstv. ráðherra á þann hátt að sumt í þessu er afar erfitt og jafnvel ekki raunhæft. En við erum sammála um það að það á auðvitað að stuðla að raunhæfri löggjöf.
    Ég tel hins vegar að þeir sem hafa aldekkstu myndina og sjá fyrir sér skaðsemina, sjá fyrir sér sorgina, dauðsföllin og allt slíkt sem neyslu tóbaks fylgir, eigi vitandi allt þetta, ef það á ekki að vera holur hljómur í þeirra málflutningi, að bera fram frv. sem bannar innflutning á slíkum efnum. Það hlýtur að vera.
    Í öðru lagi vegna neftóbaksins þá er talað hér um neytendahópa. Ég kannast ekki við neina könnun um aldursskiptingu neytenda á neftóbaki, hvort sem það er fínmalað eða þetta gamla íslenska. Ég kannast ekki við það. Ég mundi gjarnan vilja fá að sjá þá könnun sem þar fór fram. Menn bara gefa sér það, eins og hv. þm. gerði áðan, að það væru þessir eldri sem notuðu íslenska tóbakið og þar af leiðandi mundi þetta hreinlega deyja út. Ég held að þetta sé hlutur sem menn eru að gefa sér en það liggi engin könnun þarna á bak við.
    Hitt er annað mál að ef þetta er í miklum mæli komið yfir í yngra fólkið og þetta fínmalaða verður síðan stöðvað þá er ég ansi hræddur um að það fólk færi yfir í það gamla. Ég held því að ef menn ætla í raun og veru að taka á neftóbaksneyslu þá verða þeir að stöðva hvort tveggja. (Forseti hringir.)
    Ef ég heyrði rétt hjá hv. þm. Jónu Valgerði, að snuffið væri 11% af notkuninni, þá er heildarnotkunin um 13.000 kíló af neftóbaki.