Málefni fatlaðra

82. fundur
Miðvikudaginn 01. febrúar 1995, kl. 14:54:55 (3738)


[14:54]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þau orð ráðherrans að við endurskoðun laganna mun verða tekist á um það hvernig menn vilja koma fyrir yfirstjórn málaflokksins. Það er því kannski óþarft að eyða frekari orðum okkar í milli núna þó að við séum ósammála um það að nokkru leyti. En ég vildi vegna málefna geðfatlaðra hvetja ráðherrann til þess að fá teknar saman upplýsingar um stöðuna þar því það er að mínu viti og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef verulegt vandræðaástand ef ekki neyðarástand að nokkru leyti. Það eru allmargir einstaklingar sem er þannig ástatt um að það er mjög alvarlegt ástand og hefur verið svo um hríð, reyndar nokkur ár. Við megum til með að taka mjög alvarlega á þessu vandamáli. Og mér finnst að við, skulum við segja, þingmenn og stjórnvöld, höfum ekki tekið nægilega rösklega á í þessum efnum. Það hefur setið eftir að verulegu leyti og við höfum mátt gera miklu betur svo að við gætum verið sæmilega sátt við frammistöðuna. Ég held að við ættum að gera það sem við getum til þess að gera sæmilegt átak í þessum efnum á þessu vori.