Barnalög

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 12:16:31 (3769)


[12:16]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er kannski vandi að svara spurningu af þessu tagi. Auðvitað er mikilvægt að það séu fyrir hendi eðlileg úrræði til þess að þvinga aðila til að standa við gerða samninga en ef, eins og hv. þm. réttilega nefndi, aðilar í tilvikum sem þessum hafa ekki þroska til þess að finna sín á milli leiðir til þess að fara sameiginlega með forsjá barna þá kann að reka til alvarlegra árekstra jafnvel þó að þvingunarúrræði séu fyrir hendi. Og því held ég að það sem skipti mestu máli sé það að menn fjalli um þessi mál og reyni með almennri umræðu að gera þeim aðilum sem eiga hlut að máli glögga grein fyrir því hversu mikil ábyrgð hvílir á herðum þeirra þó að samvistarslit hafi orðið við uppeldi barnanna. Ég held að sú umræða sem átt hefur sér stað upp á síðkastið og samtök sem hafa tekið þessi mál til meðferðar hafa beitt sér fyrir hafi opnað augu manna fyrir þessu og aukið skilning fólks. Það er sá almenni skilningur sem ég held að dugi best.
    En að hinu þarf auðvitað að huga að lögin hafi að geyma viðunandi þvingunarúrræði. Ég get ekki án þess að fletta því upp sagt nákvæmlega fyrir um hvernig þau eru, ég hef það ekki við hendina en er sjálfsagt að afla þeirra upplýsinga við framhaldsumfjöllun um málið í hv. nefnd.