Forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaga

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 13:37:21 (3777)


[13:37]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Þegar meta á hvort andi tiltekinna laga hafi verið sniðgenginn er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því hvað var ætlan löggjafans þegar málið var samþykkt.
    Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda var það ætlan þáv. sjútvrh., hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, þegar hann flutti þetta mál inn á Alþingi að ekki væri um að ræða forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga heldur einvörðungu tilkynningarskylda og hann sagði svo í athugasemdum þar um: ,,Með slíkri tilkynningaskyldu eru ekki að öðru leyti lagðar neinar beinar kvaðir varðandi sölu skips á þá útgerð sem hyggst selja. Í reynd er þó næsta víst að tilkynningarskyldan muni verða nokkur hemill á sölu skipa milli byggðarlaga og þar með komið til móts við sjónarmið um aukin tengsl skipa við byggðarlög án þess að kostum markaðshagkerfis sé fórnað á altari miðstýringar.``
    Hv. þm. Stefán Guðmundsson beitti sér fyrir því í sjútvn. efri deildar að þessu ákvæði var breytt þannig að lögfest var ákvæði um forkaupsrétt þegar skip eru seld. Lagaákvæðið er skýrt í þeim efnum og ég hygg að hv. þm. hafi gert rétt í því að breyta ákvæðinu að þessu leyti. En hér er hvergi vikið að því að takmarka stofnun eða sölu hlutafélaga né viðskipti með hlutabréf. Það skýrist m.a. af svofelldum ummælum þáv. sjútvrh., hv. núv. 1. þm. Austurl., þar sem hann skýrir þessi ákvæði í framsöguræðu með frv.:
    ,,Ég tel miklu skipta að menn takist á við þennan vanda af raunsæi. Sumir vilja bregðast við með því að hefta framsal aflaheimilda verulega og binda þær við tiltekin byggðarlög með ýmsum hætti. Hætt er við að með því væri öll þróun og framvinda stöðvuð og hagkvæmni aflamarkskerfisins að engu gerð.``
    M.a. út á þessi viðhorf hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar sem einkenna svo þær lagagreinar sem hér er verið að fjalla um þá hefur til að mynda byggðarlagi eins og Vestmannaeyjum tekist að auka aflahlutdeild sína verulega. Hún var um 8,5% þegar kvótakerfið tók gildi en er nú 10,7% þannig að aflahlutdeild Vestmanneyinga er 20% meiri vegna þess að Alþingi tryggði þennan framsalsrétt fyrir forgöngu hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar og hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, sem ég hygg að hafi verið vel ráðið og a.m.k. er það svo að staða Vestmanneyinga er að þessu leyti betri vegna þessara ákvæða og vegna þess að þeir höfðu skilning á þessari stöðu.
    Nú er það auðvitað spurning eins og hér kom fram hjá hv. þm. hvort útfæra eigi forkaupsréttarákvæðin þannig að þau taki einnig til annarra lagasviða eins og hlutafélagalöggjafarinnar að forkaupsréttur sveitarfélaga sé með einhverjum hætti tryggður við stofnun hlutafélaga eða sölu þeirra eða viðskipti með hlutabréf. Ég er fyrir mitt leyti alveg tilbúinn til þess að eiga viðræður um þau efni bæði við hæstv. viðskrh., sem ber stjórnskipulega ábyrgð á þeirri löggjöf, og eins við hv. formann efh.- og viðskn. þingsins og kanna hug þeirra í þessu efni, ég vil ekki útiloka neitt fyrir fram þar um og væri tilbúinn að taka þátt í umfjöllun til að mynda með þessum forustumönnum hér í þinginu um það efni, en við verðum að átta okkur á því að þegar hér er komið sögu málsins erum við komin inn á annað lagasvið, þ.e. þá löggjöf sem fjallar um stofnun hlutafélaga og meðferð hlutabréfa. En auðvitað snertir sú löggjöf starfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna í landinu í mjög ríkum mæli.