Forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaga

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 14:02:46 (3787)


[14:02]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það hefur sannast hér í dag að alþingismenn eru tilfinningaverur. Það sem kannski hryggir mig eftir þessa umræðu er að þeir bera svo sem ekkert mjög mikla virðingu fyrir lögum sem sett eru af æðstu stofnun landsins, löggjafarþinginu sjálfu. Þegar komið er að kjarna þess máls þá fletja þeir umræðuna út.
    Ég var að fjalla um lögin sem eru skýr í þessum efnum. Ég var að fjalla um hvernig væri verið að fara fram hjá lögunum og var því að spyrja hæstv. sjútvrh., sem ber ábyrgð á þessum lögum, hvað hann hygðist fyrir. Ég þakka að vísu hæstv. sjútvrh. fyrir upplýsingarnar um afrek hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar og Stefáns Guðmundssonar. Þeir hafa mikið gert fyrir Vestmannaeyjar eins og hann vissi en það snerist ekkert um það. Ég hef hlustað á þessa menn í fortíðinni, ég mun hlusta á þá í framtíðinni en staðan er sú að það er hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson sem í rauninni viðurkennir það í dag að hann er ekki tekinn til starfa og kjörtímabilinu er að ljúka. Hann ber enga ábyrgð. Hann svaraði mér engu um það hvað hann segði um hvort það ætti að breyta lögunum vegna þess að það væri verið að fara fram hjá þeim. Menn væru farnir að stofna í hlutafélög í byggðarögum, jafnvel inni á sameignum eða vaskahúsum eða litlum herbergjum til þess að komast fram hjá löggjöfinni. Hann svaraði mér engu um það hvort gera ætti kröfur til opinberra sjóða um að þeir skyldu gera kröfu um það ef veð eru flutt að sveitarfélagið fengi að nýta sér lögin sem eru slík.
    Þetta var í rauninni það sem ég var að tala um. Svo kemur hér upp hv. þm. Árni Johnsen sem ber nú ekki meiri virðingu fyrir lögunum en svo að hann segir að menn eigi bara að hegða sér eins og kerfið býður upp á. Þvílíkur málflutningur á Alþingi og örstutt til kosninga. ( ÁJ: Það eru lögin.)
    Nei, hæstv. forseti. Ég hef fengið lítil svör við fyrirspurnum mínum og það er eitt sem er ljóst að skip hafa alltaf flust á milli byggðarlaga, gengið kaupum og sölum en við framsóknarmenn vildum tryggja það í gegnum löggjöf að þau yrðu ekki hirt af byggðarlögunum og það væri skýrt að forkaupsréttur væri fyrir hendi. Vestmanneyingar, af því að ég er að tala um þá, hafa t.d. nýtt sér það í fjórum tilfellum í sumar og svo hafa önnur byggðarlög gert um land allt. En, hæstv. sjútvrh., það verður hlegið að ráðherranum ef hann ekki segir það í þessum stól á eftir hvernig hann hyggst bregðast við. Gerir hann kröfur á sjóðina eða kemur hann með lagabreytingu þar sem þessi ákvæðum verður þá svipt í burtu eða þau endurskoðuð með öðrum hætti?