Dreifing sjónvarps og útvarps

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 14:30:41 (3792)

[14:30]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir flutning þessarar tillögu. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem hann flytur þessa tillögu hér held ég en það veitir svo sannarlega ekki af því að minna sífellt á þetta og vonandi að menn fari að vakna til vitundar um hversu nauðsynlegt það er að láta hana hafa eðlilegan framgang og samþykkja hana í þinginu.
    Ég tók til máls um þessa þáltill. síðast þegar hún var á dagskrá á síðasta þingi að ég held. Og ég vil bara ítreka aftur stuðning minn við tillöguna og benda á það, eins og hann reyndar gerði í sinni framsöguræðu, hversu mikið öryggismál hér er um að ræða. Það er vissulega alveg rétt sem hann segir að enn þá eru margir bæir sem ekki hafa eðlileg myndgæði og nefnir hann 50 bæi sem hafi ónothæf myndgæði.
    Í síðustu hamförum sem gengu yfir Vestfirði þá varð maður áþreifanlega var við það hversu mikið öryggismál þetta aftur á móti er líka því að þeir bæir sem hafa slæm skilyrði --- og það á bæði við um þéttbýli og dreifbýli --- höfðu hreinlega ekki útvarp á þeim tímum sem það var nauðsynlegt af öryggisástæðum því að Almannavarnir voru sífellt að senda út tilkynningar. Hlustunarskilyrðin voru þannig að FM-stöðin datt iðulega út og þá var ekkert hægt að heyra neinar tilkynningar. Það endaði með því að margir notuðu símann til þess að hringja og vita hvað væri að ske og urðu þá að hringja til Reykjavíkur til þess að fá að vita hjá Almannavörnum ríkisins þar hvað eiginlega væri á ferðinni. En þá kom það líka til að síminn datt út. Þannig að hvorugt þessara öryggistækja, hvorki síminn né útvarpið, voru til staðar í þessum nauðsynlegu öryggismálum.
    Það hefur verið mikið rætt um þetta í sambandi við langbylgjustöðina sem ekkert hefur verið gert í á síðustu árum frá því að langbylgjumastrið hrundi á Vatnsenda en það sem kom í staðinn náði allt of stutt út um landið. Vonandi verður nú eitthvað farið að vinna meira að þeim málum þegar Ríkisútvarpið fær að taka yfir stöðina á Snæfellsnesi og getur þá nýtt sér hana til að koma þar upp langbylgju.
    En ég þarf svo sem ekkert að orðlengja þetta neitt frekar. Við vitum það raunar að Ríkisútvarpið hefði gert miklu meira í þessum málum ef það hefði fengið sínar lögboðnu tekjur af aðflutningsgjöldum útvarps og sjónvarps á undanförnum árum. Þær tekjur hafa verið skertar umtalsvert og það hefur hamlað því að stofnunin gæti sinnt þessum málum eins og hún hefði átt að gera og segir í hennar lögum.
    Ég vil aftur taka undir að það er mjög nauðsynlegt að þetta komi til framkvæmda og ekki hvað síst vegna öryggismála.