Fjöleignarhús

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 18:19:33 (3826)


[18:19]
     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er einfaldlega ekki sammála hv. þm. að því leyti til að ég tel að það sé ekki að ástæðulausu og ég ítreka það enn og aftur og áreiðanlega í svona fimmta eða sjötta sinn í dag að þessar ábendingar hafa komið fram. Ég held að það sé heldur ekki hægt að búast við því að dýraeigendur séu verr af guði gerðir en aðrir íbúar húsa. Í langflestum tilvikum er að sjálfsögðu hægt að ná sáttum og ég get ekki ímyndað mér að þeir beiti dýrunum fyrir sig til að ofsækja íbúa fjölbýlishúsa. Ég held að það séu almennar samskiptareglur sem þurfa fyrst og fremst að gilda. Það eina sem ég bið um er einfaldlega það að réttur allra sé tryggður og það tel ég að sé megintilgangur frv.
    Að öðru leyti hef ég ekki miklu við þetta að bæta. Ég hefði gjarnan viljað víkja svolítið að hinum sálfræðilega þætti. Reykingar eru mjög óheppileg samlíking og ólíkt reykingum er mjög heilsusamlegt að halda húsdýr. Fyrir einmana gamalt fólk hefur t.d. verið sýnt fram á það að þetta væri kannski eitt af því sem gæti haft verulega heilsufarslega jákvæð áhrif á fólkið. Þetta er að sjálfsögðu dálítið ólíkt því sem reykingar gera heilsu fólks.
    En fólk er misjafnt og ég tel að löggjafans sé að tryggja rétt allra og í þeim tilgangi er þetta frv. flutt.