Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 15:22:04 (3888)


[15:22]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það fer enginn fjmrh. að óska formlega eftir álitsgerð ríkislögmanns um gildi samnings sem fjmrh. hefur undirritað ef sá ráðherra sem undirritaði hann með honum og er áfram í embætti landbrh. er andvígur því. Hæstv. landbrh. hafði það algerlega í hendi sér, vilja til þess að stöðva það að ríkisstjórnin legði af stað í þennan leiðangur að reyna að ónýta búvörusamninginn. ( Landbrh.: Af hverju átti ég að stöðva það? Var ekki samningurinn skýr?) Vegna þess að það var búið að undirrita samninginn af tveimur ráðherrum og þetta er eini samningurinn sem ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa ritað til ríkislögmanns um hvort ekki væri hægt að ónýta eða hvaða gildi hefði. Ef málflutningur ráðherrans er eingöngu á þann veg, enda sést náttúrlega hvað ráðherrann er órór hérna í salnum, ef málflutningur ráðherrans er á þann veg að þetta hafi bara verið akademísk æfing til að vita um gildi samningsins svona almennt og yfir höfuð, þá er auðvitað fullt af samningum bæði í fjmrn., landbrn. og öðrum ráðuneytum sem hefði mátt senda til embættis ríkislögmanns til þess að vita hvort þau væru í gildi svona almennt séð, en auðvitað var það ekki þannig. Þetta var eini samningurinn sem sendur var til ríkislögmanns ( Landbrh.: Það er ósatt.) Hvaða aðrir samningar voru sendir til ríkislögmanns, til að kanna það hvort það væri ekki hægt að ónýta þá? ( Landbrh.: Það var um kaup á tveim . . . ) Og þess vegna er það auðvitað alveg ljóst að málið liggur þannig, enda sjá menn bara viðkvæmni ráðherrans hér í salnum þegar þetta er dregið hér upp, ferill Sjálfstfl. gagnvart þessu máli, varaformanns Sjálfstfl. Friðriks Sophussonar í embætti fjmrh.
    Varðandi útflutningsbæturnar, þá ætla ég ekkert að endurtaka það sem ég sagði hér áðan. Það er illa komið fyrir landbrh. á Íslandi ef hann gerir sér ekki grein fyrir því að íslenskur landbúnaður á mikla útflutningsmöguleika án útflutningsuppbóta.