Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 16:13:41 (3898)


[16:13]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir. Það er mér nokkur nýlunda að heyra hv. 4. þm. Austurl. bera persónulegt og sérstakt blak af hæstv. fyrrv. fjmrh., Ólafi Ragnari Grímssyni, og guð láti gott á vita. Það getur verið að hann þokist eitthvað nær formanni flokks síns eftir því sem fækkar hjá honum á Neskaupstað í liði hans. En því miður þá er nafn fyrrv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonar, ekki undir þeim bókunum sem fylgja búvörusamningnum. Hæstv. núv. fjmrh. hefur ekki viljað uppfylla þær skyldur sem bókanirnar leggja á hann og á ríkissjóð og ber því við að nafn fyrrv. fjmrh. standi ekki þar undir. Nú er ég ekki að leggja hæstv. fyrrv. fjmrh., Ólafi Ragnari Grímssyni, það beinlínis til lasts, það getur verið að það hafi gleymst að láta hann skrifa undir eða þá að penninn hafi verið orðinn þurr eða eitthvað. Eða þá að honum hafi legið svo á að fara að láta Hauk Halldórsson hæla sér í samkvæminu þar sem hann undirritaði að hann hafi bara ekki mátt vera að því að ljúka verkinu og skrifa undir til enda.
    En einhverra hluta vegna þá vantar þessar bókanir og fram hjá því kemst náttúrlega hinn nákvæmi fræðimaður hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, ekki. Ég get sýnt honum búvörusamninginn, ég er með hann hér á borðinu mínu og þar er bara ekki nafn Ólafs Ragnars Grímssonar.