Skattgreiðslur af útflutningi hrossa

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:15:47 (3920)

[15:15]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í skýrslum Ríkisendurskoðunar er talið að ríkissjóður verði af 11 milljörðum árlega vegna svartrar atvinnustarfsemi. Ótrúlega illa hefur gengið að ná tökum á skattsvikum af öllu tagi þó að embætti skattrannsóknarstjóra geri sitt besta. Hefur athygli manna t.d. beinst að vaxandi svikum í greiðslu á virðisaukaskatti. En ýmsar umfangsmiklar atvinnugreinar hafa fengið að blómstra án þess að skattyfirvöld hafi beint sjónum sérstaklega að þeim. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið munu um 2.800 hross hafa verið flutt út árið 1994. Talið er að meðalverð á hross sé allt að 200 þús. kr., þá er hér um að ræða 560 millj. Þá er ekkert sagt um kaup og sölu hrossa innan lands.
    Það er ljóst að hér er vaxinn upp atvinnuvegur sem skilar tekjum sem nema hundruðum millj. kr. Í Tímanum 1. febr. sl. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samkvæmt nýjum lögum, sem samþykkt voru á Alþingi í lok liðins árs, þá verður veruleg lækkun á gjöldum vegna útfluttra kynbrótahrossa.
    Gjaldið rennur í Stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins. Af útfluttum heiðursverðlaunahesti þarf nú að greiða 100 þús. kr. en var áður 500 þús. kr. og fyrir heiðursverðlaunahryssu 16 þús. kr. en var áður 80 þús. kr. Lægsta gjald fyrir hvern útfluttan stóðhest er nú 8 þús. kr. og fyrir hryssu 1.000 kr.``
    Það kemur ekki fram hér í greininni hvað slíkur gripur kostar en það er ljóst að það getur ekki verið undir 4--5 millj. kr. Og einhvern veginn er það nú svo að litlar fréttir fara af þessum miklu auðkýfingum sem stunda þennan atvinnurekstur og það getur því ekki verið óeðlilegt að spurt sé hver sé arður af þessum viðskiptum. Ég hef því á þskj. 297 beint eftirfarandi fyrirspurn til fjmrh. um skattgreiðslur af útflutningi hrossa, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Hversu mörg hross hafa verið flutt út frá Íslandi sl. fimm ár og til hvaða landa?
    2. Hvert var söluverð þessara hrossa?
    3. Hverjar hafa skatttekjur ríkisins verið af þessum útflutningi?``