Krónutöluhækkun á laun

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:50:28 (3935)



[15:50]
     Fyrirspyrjandi (Hermann Níelsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. ítarlegt svar með skýringum og dæmum og er gott til þess að vita að skilningur er fyrir hendi á þessu máli af hálfu fjmrn.
    Málið snýst um kaupmátt launa, að finna leið til varanlegra launahækkana og bæta sérstaklega stöðu þeirra lægst launuðu. Það næst best með því að semja um krónutöluhækkun með sérstakri launauppbót á lægri laun, hækkun skattfrelsismarka, millifærslu með tekjutengdum bótum, lækkun á nauðsynjavöru og

lækka þannig framfærslukostnað heimilanna. Þessu vil ég koma á framfæri við hæstv. fjmrh. og hvetja hann til þess að fylgja því eftir. Í framhaldi af því langar mig til þess að spyrja ráðherrann: Telur hæstv. fjmrh. að lagfæring á lægstu töxtum eigi að hafa forgang í komandi kjarasamningum? Að vísu vék hann að þessu áðan en ekki er verra að fá það endurtekið.
    Mig langar í framhjáhlaupi að víkja nokkrum orðum að kjarasamningum kennara. Í skýrslu 18 manna nefndar sem fjallaði um framhaldsskólafrv., sem nú liggur fyrir Alþingi, eru bætt kjör kennara lögð til grundvallar þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir. Þær forsendur hljóta að vera teknar með í yfirstandandi samningum milli kennara og fjmrh. fyrir hönd ríkisins og þá vil ég spyrja um álit fjmrh. á því: Gefur þetta svigrúm til rýmri samninga við kennara en gerðir verða á hinum almenna vinnumarkaði?