Aðstaða fatlaðra nemenda í Menntaskólanum við Hamrahlíð

86. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 15:59:31 (3938)



[15:59]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr hvernig leyst hafi verið úr vanda þeirra fötluðu nemenda sem sóttu um skólavist í Menntaskólanum við Hamrahlíð sl. haust en var vísað frá vegna óviðunandi aðstöðu í skólanum, hvort þeir hafi fengið skólavist annars staðar. Því er til að svara að fjórum nemendum var vísað frá dagskóla Menntaskólans við Hamrahlíð á vorönn 1995. Tveir þeirra eru komnir af hefðbundnum framhaldsskólaaldri og óskuðu þeir eftir að sitja í tveimur námsgreinum hvor. Nemendurnir þurfa aðstoð við heimanám ásamt túlkum sem veitt er af Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Annar þessara nemenda mun halda áfram námi í öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá skólanum. Hinn hefur ákveðið að fresta skólagöngu í framhaldsskóla til næsta skólaárs og raunar snúa sér að öðru námi.
    Hinir tveir nemendurnir eru á hefðbundnum framhaldsskólaaldri og óskuðu einnig eftir að sitja í tveimur námsgreinum. Þeir hafa báðir fengið skólavist í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti með þeirri aðstoð sem þeir þarfnast þar sem Menntaskólinn við Hamrahlíð treystir sér ekki til að sinna þeim.
    Þá spyr hv. þm. hvaða hugmyndir menntmrn. hafi um að bæta aðstöðu í Menntaskólanum við Hamrahlíð þannig að skólinn geti í framtíðinni sinnt því hlutverki að taka við fötluðum nemendum og um leið bæta þjónustuna við þá sem fyrir eru. Þær hugmyndir sem nú eru uppi um kennslu fatlaðra nemenda í Menntaskólanum við Hamrahlíð eru í samræmi við tillögur um kennslu fatlaðra nemenda á höfuðborgarsvæðinu. Nefnd á vegum menntmrn. hefur fjallað um málið en í þeirri nefnd sitja fulltrúar frá ráðuneytinu, Menntaskólanum við Hamrahlíð, Iðnskólanum Reykjavík, Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands. Nefndin hefur skilað áfangaskýrslu og lokaskýrsla er væntanleg nú innan tíðar, var raunar væntanleg í síðasta mánuði.
    Samkvæmt áfangaskýrslu nefndarinnar er lagt til að í Menntaskólanum við Hamrahlíð verði sérhæfð aðstaða til að sinna líkamlega fötluðum nemendum sem sækja nám ýmist í þann skóla eða aðra framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að Iðnskólinn í Reykjavík hafi sama hlutverk gagnvart seinfærum eða þroskaheftum nemendum og að fullorðinsfræðsla fatlaðra sjái um kennslu þeirra einstaklinga sem þurfa kannski aðstoð frá samfélaginu allt lífið.
    Í menntmrn. eru að svo stöddu ekki uppi áform um byggingarframkvæmdir við Menntaskólann við Hamrahlíð. Næst á dagskrá í byggingarmálum framhaldsskólanna í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu er bygging hins nýja skóla í Borgarholti sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar og ráðuneytisins, en framkvæmdir við þann skóla hefjast nú á þessu ári.
    Varðandi viðbótarspurningu hv. þm. um hvort unnið sé að stefnumótun í ráðuneytinu um þessi mál yfirleitt er því til að svara að skýrsla nefndarinnar þegar hún kemur í endanlegu formi verður að sjálfsögðu tekin til meðferðar í ráðuneytinu og framtíðartillögur byggðar á henni.
    Ég vil svo aðeins í lokin segja að Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur sinnt þessu viðfangsefni vel og má segja að þar hafi verið gert meira en í öðrum skólum að búa fötluðum nemendum viðunandi aðstöðu og það er vissulega þakkarvert.