Leigubifreiðar

88. fundur
Þriðjudaginn 07. febrúar 1995, kl. 18:01:31 (4042)


[18:01]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að það er afar slæmt að þetta mál skuli ekki koma fram fyrr á þessum vetri. Það er mjög skammur tími til loka þingsins og þessi mál hafa legið fyrir og menn hafa þekkt þetta vandamál sem er aðalundirrótin að því að þessar breytingar eru hér til umræðu. Auðvitað hefði verið full ástæða til að taka á þessum málum þó ekki hefði sú ástæða komið til. Ég er á þeirri skoðun að það aldurstakmark sem verið er að innleiða hjá bílstjórum sé í sjálfu sér ekki samræming á atvinnuréttindum eins og menn vilja vera að láta. Það er auðvitað hægt að tala um alls kyns sambærileg réttindi eins og það að aka bílum, langferðabílum, leigubílum eða vörubílum. Ég tel að það þurfi að taka samræmt á þessum hlutum þannig að allir sem stjórna atvinnutækjum sem eru hættuleg og þarf sérþjálfun og sérpróf til að stjórna eigi að sitja við sama borð. Það er mín skoðun að það eigi að koma á möguleikum til þess að taka hæfnispróf sem þessir aðilar geti tekið ef þeir vilja halda áfram að nýta sína þekkingu og vilja vinna lengur en aldurstakmark sem þarf að setja segir til um. Ég held að út af fyrir sig geti menn miðað við 70 ára aldurstakmark ef það er mögulegt að fara í hæfnispróf fyrir þá sem vilja halda áfram að starfa.
    Mér finnst það óásættanlegur hugsunarháttur að dæma menn frá því að sinna störfum við 70 ára aldur. Það eru margir í fullu fjöri og hraustir á þeim tíma og þó þjóðfélagið í dag sé kannski þyrst eftir atvinnutækifærum vegna atvinnuleysisins þá hefur það ekki alltaf verið svo og vonandi verður það ekki alltaf svo. Þess vegna tel ég að menn eigi að skoða þessi mál betur. Ég tel hins vegar að úr því sem komið er þá verði samgn. að gera hríð að því að reyna að klára þetta mál og koma því frá fyrir þinglokin til þess að sú óvissa sem er núna verði ekki áfram. En ég segi það með þeim fyrirvara að ég tel að það eigi að taka þessi mál til áframhaldandi skoðunar. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál efnislega meira að þessu sinni. Ég lýsi því bara yfir vegna þess að ég á sæti í samgn. að ég vil gjarnan starfa að því að þessu máli verði lokið fyrir þinglok, hvort sem ég verð ánægður með niðurstöðu málsins eða ekki einfaldlega vegna þess að það þarf að létta þessari óvissu. Ég segi það með þeim fyrirvara sem ég endurtek að menn muni síðan í framhaldinu taka á því að skoða þessi mál heildstætt. Þá er ég ekki að tala eingöngu um þá hópa sem eiga hlut að máli í þeim frv. til laga sem núna liggja fyrir heldur alla sem nýta eða eru með sérstök próf eða sérstaka þjálfun til að starfa með hættuleg tæki. Það er ekki fyrr en þá sem búið er að gera mönnum jafnhátt undir höfði hér á hv. Alþingi.